17.12.1976
Efri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

136. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skal leitast við að svara nokkrum fyrirspurnum hv. 7. landsk. hm.

Það lá eðlilega ekki ljóst fyrir, þegar fjárlagafrv. var lagt fram í þingbyrjun, hvaða hátt ætti að hafa á innheimtu og álagningu á þessum 1200 millj. Það lá engan veginn fyrir að þessi háttur yrði hafður á. Það gátu komið til greina ýmsar aðrar leiðir, eins og t. d. sú leið að setja sérstakt gjald á sjúklinga sem lægju á sjúkrahúsum, fæðisgjald eða eitthvað þess háttar innan ákveðins ramma. Það gat líka vel hugsast að sveitarfélögin hefðu algjörlega með álagningu og innheimtu á þessu gjaldi að gera og fengju reiknaðar tekjur á móti. Þess vegna var ekki unnið í heilbr.- og trmrn. að undirbúningi þessa máls, sem ég skal fúslega játa að væri mjög nauðsynlegt að fyrir hefði legið. Hitt varð svo að samkomulagi meðal stjórnarflokkanna, að fara þessa leið, og það er alveg hárrétt að sú ákvörðun hefði þurft að liggja fyrir fyrr, og þess vegna á þessi gagnrýni fyllsta rétt á sér. Ég skal líka upplýsa að þetta fyrirkomulag var ekki lagt undir tryggingaráð. En ég hygg að ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn. hafi átt viðræður við forstjóra Tryggingastofnunarinnar. Það var ekki heldur lagt fyrir n. sem slíka, sem er að endurskoða lögin um almannatryggingar, enda er hér um að ræða bráðabirgðaráðstöfun sem er rétt að sjá hvernig tekst til. En tilgangurinn með þessari breytingu, að taka ríkisspítalana inn í A-hluta fjárl., er sá, að greiðslurnar fari beint frá ríkissjóði til ríkisspítalanna, aðhaldið verði frá ríkissjóði að ríkisspítölunum og sleppt verði a. m. k. þetta árið þessum viðkomustað sem fjármagnið hefur í sjúkratryggingum Tryggingastofnunar ríkisins.

Ég skal ekkert fullyrða um hvort þessi breyting verður til stórfelldra bóta eða ekki. En ég held að hún sé þess virði að reyna hana. Það kostar ekki það í framkvæmdinni að gera þessa breytingu. Hins vegar varðandi þjónustuna, sem hv. þm. talaði um, þá er auðvitað þjónustan sú sama eftir sem áður hvar sem við búum á landinu. Það er alveg rétt að þeir, sem búa hér á þéttbýlissvæðinu, eru hlutfallslega með fleiri legudaga í ríkisspítölunum vegna þess að þeir eru flestir hér á Reykjavíkursvæðinu, að vísu með örfáum undantekningum, eins og við þekkjum. En ég býst við því að kostnaður reykvíkinga sé ekki léttari því að Reykjavík er með hlutfallslega háa aldursárganga og það er mjög áberandi hversu margt aldrað fólk flyst til Reykjavíkur utan af landi, svo að kostnaður t. d. Reykjavíkurborgar af rekstri sjúkrahúsa er óvenjumikill, og má segja kannske frekar að sveitarfélög í nánd við Reykjavík fari hlutfallslega betur út úr þessu. En það, sem auðvitað skiptir höfuðmáli í þessu sambandi, er að daggjaldakerfi sjúkrahúsanna, sjúkrahúsa sveitarfélaga og sjálfseignastofnana, tryggir landsbyggðinni og þeim, sem þessi sjúkrahús eiga, þann rétt að fá daggjöldin ákvörðuð og hallann, sem verður af rekstri þeirra, inn í daggjöldin, og það verður eftir sem áður tryggt. Þess vegna eykur það ekki misræmið þó að þessi breyting sé gerð.

Ég greip fram í fyrir hv. þm. og sagði að breytingin á Landakoti væri hugsuð á þann veg að St. Jósefsspítalinn verði rekinn sem sjálfseignarstofnun þó sé í eigu ríkisins. Það eru ákvæði í kaupsamningi um það sem skipta ríkissjóð fjárhagslega verulegu máli í sambandi við kaupverðið, svo að það hlutfall á ekki að raskast frá því sem verið hefur, hann mun teljast með sjúkrahúsum innan daggjaldakerfisins.

Annars ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta. En ég tek undir það og endurtek það, sem ég raunar sagði áðan, að það er rétt að kynna sér þær upplýsingar sem fyrir liggja í n., og ég hefði mjög gjarnan kosið að n. hefði haft mun lengri tíma til að átta sig á þessu fyrirkomulagi. Hins vegar liggur þessi gjaldstofn mjög skýrt og skorinort fyrir, það getur hver maður skilið hann um leið og hann les hann, og það er kannske meira en hægt var að segja í fyrra. Þar hefur sú reynsla fengist. Og sama verður að ári liðnu.

Þá hefur fengist reynsla af því hvort við erum að gera hér breytingu til hins betra eða við hverfum aftur til hins sama eða á einhvern annan veg sem við teljum heppilegan.

En ég tek alveg undir það að sú gagnrýni á rétt á sér, að þessi rannsókn og þessar athuganir hefðu þurft að liggja skýrar fyrir. Þess vegna er 4. gr. sett sem ég er opinn fyrir að breyta eitthvað orðalagi á ef um verulegt misrétti verður að ræða á milli einstakra samlaga. Hins vegar greiðir auðvitað ríkissjóður 85% af kostnaði allra sjúkrasamlaga á landinu og sveitarfélögin 50%.