20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

138. mál, vörugjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 235 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 97 28. des. 1971, um vörugjald. Hér er um að ræða tvær breytingar á þeim lögum sem um vörugjald gilda. Fyrri breytingin er aðeins samræming við það tollskrárfrv. sem nú er til meðferðar í hv. d. og tekur breytingin í þessu frv. mið af þeim breytingum á tollskrárnúmerum sem gerðar hafa verið í því frv. Að öðru leyti er ekki breyting í sambandi við vörugjald á vörutegundum.

Önnur breyting frv. er sú, að í núgildandi lögum er vörugjald á gosdrykkjum og það miðað við að Styrktarsjóður vangefinna fái 1.95 kr. af hverjum gosdrykkjarlítra sem seldur er. Lagt er til í þessu frv. að vörugjaldið verði hækkað á gosdrykkjum þannig að þessi sjóður geti fengið 7 kr., eins og segir í 2. gr. frv., í stað 1.95 kr. Er hér um að ræða töluverða hækkun á þessum tekjustofni fyrir sjóðinn, en á þessu hefur ekki orðið breyting síðan 1971 og því talin ástæða til þess að gera þetta mikla breytingu nú.

Þetta frv. hefur verið kynnt formönnum þingflokka og ég á ekki von á því að hér verði um neina fyrirstöðu að ræða á framgangi þessa máls. En það er nauðsynlegt að það takist áður en þing fer í jólaleyfi að fá frv. þetta samþykkt sem lög frá Alþingi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vil mælast til þess að sú n. geti tekið þetta mál til meðferðar innan mjög skamms tíma þannig að við getum nýtt þennan fundardag til þess að ljúka málinu í þessari hv. deild.