20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vona að það verði ekki til að tefja þingstörf nema örlítið þó að ég kveðji mér hljóðs utan dagskrár, en ástæðan fyrir því er sú ein að vekja athygli á að lög um Viðlagasjóð falla úr gildi nú um n.k. áramót og fellur þá jafnhliða niður sú margþætta starfsemi sem stjórn sjóðsins hefur haft með höndum undanfarin nær 4 ár. En fyrirsjáanlegt er að endanlegt uppgjör að því er varðar reikningsskil til vestmanneyinga verður ekki fullbúið um næstu áramót þegar stjórnin hættir störfum. Samkv. 21. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands frá 14. maí 1975 er gert ráð fyrir að Viðlagatrygging taki við eignum og skuldum Viðlagasjóðs hinn 1. jan. 1977. En þar sem Viðlagatrygging heyrir undir annað rn. en Viðlagasjóður tel ég nauðsynlegt að tekinn verði af allur vafi um að nokkur breyting verði á, þó að eignir og skuldir Viðlagasjóðs verði færðar yfir til

Viðlagatryggingar, og endanlegt uppgjör fari fram á vegum þeirrar stofnunar, en ekki á vegum Viðlagasjóðs. Vil ég í því sambandi leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., sem Viðlagasjóður heyrir undir, hvort ekki sé öruggt að þau mál, sem eftir kunna að liggja óuppgerð hjá Viðlagasjóði um næstu áramót, verði gerð upp af stjórn Viðlagatryggingar í samræmi við yfirlýsingu forsrh. frá því í des. 1975.