21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

5. mál, Vestfjarðaskip

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég held að ég sjái mér ekki annað fært í upphafi máls míns en að mótmæla þeim ummælum sem hafa komið þér fram hjá ýmsum þm., að allir Vestfjarðaþm. standi upp þegar einn stendur upp. Ég held að þeir hafi oft staðið upp þrír og fjórir án þess að ég hafi staðið upp, þó að ég taki það ekkert nærri mér þó að ég komi hér upp nú og fylli hóp þm. af Vestfjörðum, þannig að það sé nú orðið um sextett að ræða á þessum fundi. Ég mun þó ekki tala langt mál. Það voru aðeins örfá atriði sem ég vildi koma inn á.

Ég vildi rifja það upp, að í eina tíð var haldið uppi harðri baráttu, vil ég segja, gegn því að ríkið verði fjármunum sínum til að styrkja einstök ríkisfyrirtæki. Í hópi þeirra ríkisfyrirtækja var Skipaútgerð ríkisins. Og ég man ekki betur en þá væri jafnvel settur nýr forstjóri sem átti að betrumbæta svo rekstur Skipaútgerðarinnar að hún yrði rekin hallalaust. Ég held að í umr. um rekstur Skipaútgerðar ríkisins hafi of lítið verið um það talað að styrkur til útgerðarinnar til bættra samgangna, hinn beini styrkur, er sáralítill miðað við það fjármagn sem fer til þess að halda við vegum, að gera við vegaskemmdir, einkum snemma vors þegar ótímabært er að þungaflutningar fari fram um vegina. En ég bygg að það sé þessi andi, gagnrýni á fjárframlög til Skipaútgerðarinnar, sem veldur því að enn hefur Skipaútgerðin ekki viðunandi aðstöðu í Reykjavíkurhöfn. Og ég vildi sérstaklega benda á það, að aðstaðan hér við Reykjavíkurhöfn, bætt aðstaða, ný aðstaða, er ein af meginforsendunum fyrir því að það sé hægt að reka Vestfjarðaskip í þeim anda sem þér hefur verið talað um.

Breytingin á flutningum til Vestfjarða, hlutfallið á milli landflutninganna og þeirrar vöru, sem fer með Skipaútgerð ríkisins, breytingin á liðnum árum hefur verið á þann veg að landflutningarnir eru nú komnir langleiðina að jafnast á við það vörumagn sem fer með Skipaútgerðinni. Ef við fáum aukna tíðni ferða, þá verður það eitt af þeim atriðum sem stuðla að því að vörumagnið leiti aftur á þær slóðir sem það fór um áður. En mér er tjáð að heildsölufyrirtæki í Reykjavík veigri sér við því að fara með vörur til Skipaútgerðarinnar við þá aðstöðu sem þar er nú, bæði vegna búsakostsins og vegna þess hve tekur langan tíma að fá vöruna tekna úr viðkomandi bifreið og flutta inn í skemmur Skipaútgerðarinnar.

Ég vildi aðeins minnast á það í leiðinni, að breytingar á þeirri mynd, sem við höfum af flutningum á sjó í kringum landið, hafa orðið býsna miklar á liðnum áratugum. Einu sinni sinnti Eimskipafélag Íslands þessum flutningum töluvert. Það er horfið úr sögunni, sérstaklega eftir að Eimskipafélag Íslands fækkaði þeim innflutningshöfnum sem áður voru og skip þess áður fluttu til beint frá útlöndum. Skipadeild Sambands ísl. samvinnufélaga hefur ekki heldur sinnt þessum þætti. Það hefur verið minnst á það, að síðan hafi komið Vestmannaeyjaferjan. Það er ferja, og einnig hefur um langan tíma verið ferja hér á milli Reykjavíkur og Akraness. Samgöngur við Austurland á vetrum hafa mjög breyst við opnun hringvegarins, þannig að allar líkur benda til þess að meginflutningar Skipaútgerðarinnar verði til Vestfjarða á næstu árum, miðað við þá töflu sem vitnað var í áðan af hv. 2. þm. Vestf.

Fjórðungssambönd vestfirðinga, norðlendinga og austfirðinga fjölluðu um hugmyndir um nýskipan fyrir nokkrum árum. Ég efast um að þær hugmyndir hafi nokkurn tíma verið alvarlega ræddar eða brotnar til mergjar af hálfu Skipaútgerðar ríkisins. Ég vil aðeins skýra frá því, að þær hugmyndir, sem þá voru uppi, voru þær, að það yrði sérstakt skip fyrir Austfirði, sérstakt skip fyrir Vestfirði, en staðsett á Akureyri skip sem yrði eins konar tengiskip þessara tveggja og það yrðu ákveðnar umskipunarhafnir sem tækju þá við þeirri vöru sem ætti að fara t.d. frá Akureyri á Austfirðina. Ísafjörður yrði þá tengihöfn, miðað við gámaflutning, sem gæti tekið þær vörur sem færu frá Akureyri og ættu að fara á suðurfirðina á Vestfjörðum. Ég minnist á þetta vegna þess að við verðum aðeins að huga að meiru en bara flutningnum frá Reykjavík til Ísafjarðar. Akureyri er stækkandi bær á Norðurlandi. Þar er mikill iðnaður. Þaðan fara fram þó nokkrir vöruflutningar til Vestfjarða og Austfjarða, enda þótt ég hafi ekki handbærar tölur um það hve mikill hluti af flutningum Skipaútgerðarinnar kemur þá leið. Og ég vildi aðeins minnast á það, að enda þótt meginhluti flutninga til Húnaflóasvæðisins fari fram landleiðina, þá er þó eitt byggðarlag í Strandasýslu sem fær sína flutninga að meginhluta til sjóleiðina, þ.e.a.s. Árneshreppur uppskipunarhöfn þar Norðurfjörður. Þess vegna tel ég að það sé rétt að lítið sé á þetta mál í heild, athuguð líka leiðin norður, og það sé rétt að þessi athugun, á fyrsta stigi a.m.k., fari fram innan Skipaútgerðar ríkisins.

Ég verð að segja það, að ég fagna því að þessi till. er komin fram. Hún hlaut að koma fram, svo ákveðin var stefnumörkun Fjórðungssambands vestfirðinga á þessu sumri og raunar hvar sem samkoma var haldin og ályktað í þessa veru, að þar virtust menn sammála um þau stefnumið sem setja skyldi fram. Og ég finn það nú einhvern veginn á mér, bæði nú eftir þessar umr. sem og strax í haust, eftir að samgrh. var á fjórðungsþingi hjá okkur, að þetta mál muni ná fram að ganga áður en mjög langur tími líður.