24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar Alþingi kemur nú saman á nýju ári eru ástand og horfur í íslenskum þjóðmálum víðsjárverðari og alvarlegri en verið hefur um mjög langt skeið. Mál hafa þróast þannig að milli almennings í landinu og ríkisvaldsins hefur skapast svo breitt bil að vandséð er hvernig það verður brúað. Mjög verulegur hluti þjóðarinnar treystir ríkisvaldinu ekki lengur. Hér er ekki aðeins átt við ríkisstj. sjálfa, heldur ríkiskerfið í heild, embættiskerfið og dómskerfið.

Ekki þarf að orðlengja um það, hvílík hætta heilbrigðum stjórnarháttum er búin af slíku. Deilur um stjórnmál eru eðlilegar og sjálfsagðar í lýðræðisríki. Á undanförnum árum hefur auðvitað verið deilt hart um efnahagsmál og fjölmörg önnur mál. En undanfarið hafa verið uppi í þjóðfélaginu annars konar deilur. Þær hafa m. a. lotið að því, hvort réttum leikreglum hafi verið fylgt í ávísanamálum. Enn fremur hefur kveðið ríkt að smygli og sölu fíkniefna. Það hefur verið rætt um tengsl milli fjármálaspillingar og flokka. Þá hefur verið talað um óhæfilegan seinagang á rannsókn dómsmála sem jafnvel kunni að eiga sinn þátt í því að óhugnanleg afbrotamál upplýsist ekki til fulls.

Það er örugglega ekki ofmælt þegar sagt er að öll þessi þróun mála hafi rýrt svo traust mikils hluta þjóðarinnar á ríkisvaldinu að hætta steðjar að íslensku lýðræði og þingræði. Alþingi sætir harðri gagnrýni fyrir athafnaleysi og ríkisstj. er ásökuð fyrir fjölmargt, sem hún gerir, og sömuleiðis fyrir ýmislegt, sem hún láti ógert til að bæta ástandið.

Í umr. utan dagskrár, sem auðvitað eiga að vera stuttar, skal ég ekki fjölyrða um einstök mál sem telja má undirrót þess uggs sem undanfarið hefur búið um sig í hugum verulegs hluta þjóðarinnar. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna þrjú atriði. Það virðist vera ríkjandi skoðun meðal almennings, að ekki hafi verið nógu röggsamlega tekið á fjölmörgum afbrota- og fjársvikamálum. Miklum meiri hluta þjóðarinnar blöskrar það ábyrgðarleysi sem einkennt hefur Kröflumálið í heild. Vitað er að í vor kemur til mikilla átaka á vinnumarkaðnum vegna síversnandi lífskjara launþega. Öllum hugsandi mönnum er ljóst, að eigi þau átök ekki að valda vandræðum, — eigi þau að leiða til skynsamlegrar niðurstöðu fyrir launþega og þjóðarheildina, þá þarf samhliða nýjum launasamningum að koma til ráðstafana á sviði stjórnmála sem ríkisstj. ein getur haft forustu um. En skilyrði þess að ríkisstj. geti haft forustu um slíkar ráðstafanir er að hún njóti trausts aðila vinnumarkaðarins.

Ekki þarf að fjölyrða um hversu mjög skortir á að núv. ríkisstj. njóti trausts launþegasamtaka. En ýmis samtök vinnuveitenda hafa einnig lýst vantrú á ríkisstj. og stefnu hennar. Núv. ríkisstj. getur því aldrei orðið sá aðill sem stuðlað geti að skynsamlegum og réttlátum kjarasamningum í vor.

Þingflokkur Alþfl. ræddi þessi viðhorf öll á fundi sínum í morgun. Niðurstaða hans varð sú, að ekki verði bætt úr þeim skorti á trúnaði og trausti milli meiri hluta þjóðarinnar og ríkisvaldsins með öðrum hætti en þeim, að ríkisstj. segi af sér og boði til kosninga eins fljótt og unnt reynist, þannig að þjóðin fái tækifæri til þess að láta skoðun sína í ljós á ástandi þjóðmálanna. Það ætti að vera hægt að kjósa áður en til átaka kemur á vinnumarkaðnum.

Hér er um mál að ræða sem einkum og sér í lagi snýr að hæstv. forsrh. Hann hefur þingrofsvaldið formlega í hendi sinni. Þótt við hæstv. forsrh. séum andstæðingar í stjórnmálum valda kynni mín af honum því, að ég trúi ekki öðru en að hann geri sér ljóst að sérstök ábyrgð hvílir á honum í þessu efni. Honum er áreiðanlega ljóst að hann er ekki forsrh. Sjálfstfl. Hann er ekki heldur aðeins forsrh. ríkisstj. Hann hlýtur að taka tillit til þess, að hann er forsrh. í lýðræðisríki, hann er forsrh. í þjóðfélagi sem er í hættu. Það er skylda hans fremur en nokkurs annars manns að bægja þessari hættu frá, að bjarga því sem bjargað verður.

Margir munu taka undir þá ósk, að rækileg íhugun muni leiða til þess að hæstv. forsrh. komist að þeirri niðurstöðu að það, sem hér hefur verið lagt til, sé einmitt það sem líklegast sé til þess að endurreisa það traust sem ríkja þarf milli yfirvalda og almennings.