24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér hefur nú komið fram krafa frá Alþ. um það, að hæstv. ríkisstj. segi af sér og efni til nýrra kosninga. Undir þessa kröfu get ég tekið. Ég er sannfærður um að það eru fullar ástæður til þess að þing verði nú rofið og efnt til kosninga svo fljótt sem tök eru á.

Röksemdir mínar fyrir því, að það ætti að snúast þannig við málum, eru fyrst og fremst þær, að það er augljóst að núv. hæstv. ríkisstj. ræður ekki á neinn hátt við þann efnahagslega vanda sem við er að glíma í þjóðfélaginu. Það hefur þegar verið upplýst af opinberum aðilum, að það blasi við okkur vegna þeirra ákvarðana sem þegar hafa verið teknar af hæstv. ríkisstj., verðlagshækkun, miðað við mitt ár 1976 til miðs árs 1977, ef þróunin verður sú á árinu 1977 sem við má búast vegna þess sem þegar er búið að taka ákvarðanir um, þá muni framfærsluvísitalan hækka um 23.7% og þá ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum umfram það sem þegar er búið að semja um, nema aðeins að því leyti sem sú launahækkun, sem samið var um við opinbera starfsmenn og átti að koma eftir að samningar Alþýðusambandsins rynnu út, gengi einnig yfir þá launþega. Síðan þetta var reiknað út af Þjóðhagsstofnun og Hagstofu Íslands hafa skollið yfir miklar viðbótarverðhækkanir sem nú eru komnar til framkvæmda og ríkisstj. hefur beinlínis samþykkt. Það má því telja alveg víst að eftir framreikningsreglu Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu geti menn séð fyrir þá verðlagsþróun á nú nýbyrjuðu ári, að framfærsluvísitalan hækki a. m. k. um 25–26% áður en kemur til áhrifa af launahækkunum þeim sem allir reikna nú með að hljóti að koma til með að eiga sér stað. Þessar tölur, sem ég hef hér nefnt, hafa sem sagt verið lagðar fram af opinberum aðilum, reiknaðar út af Þjóðhagsstofnun og Hagstofu Íslands, og það eina, sem skakkar þar frá, er mín lauslega áætlun, að ég hækka töluna 23.7%, sem er komin frá þeim, upp í 25–26% vegna þeirra viðbótarhækkana sem hafa komið til síðar. Það getur vel verið að talan mundi verða eitthvað hærri.

Nú segi ég að það er alveg augljóst mál að gera verður ráð fyrir því að um allverulegar launabreytingar verði að ræða á þessum vetri eða í vor vegna þeirra krafna, sem liggja fyrir frá verkalýðssamtökunum í landinu, frá samtökum opinberra starfsmanna og háskólamanna, og reyndar einnig til viðbótar frá bændastéttinni sem hefur sett fram þá formlegu kröfu að hún sætti sig ekki í næstu launahreyfingu við að fá laun sín hækkuð til jafns við viðmiðunarstéttirnar, heldur geri hún kröfu um að fá viðbótarhækkun til þess að jafna það nokkuð upp sem hefur verið vangreitt henni á undanförnum árum. Það er auðvitað á þessu stigi ekki gott að segja um hvað þessar launahækkanir verða miklar. Síðasta Alþýðusambandsþing benti á að það þyrfti að hækka mikið af þessum launum um nærri 30% til þess að jafna upp það launafall sem orðið hefur.

Ég segi: Það er alveg augljóst mál að miðað við þá stefnu, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur í verðlagsmálum almennt séð og efnahagsmálum, þá blasir hér við á næsta ári miklu meiri verðhækkun, miklu meiri verðbólguaukning en varð á s. l. ári. Það er alveg augljóst. Af þessum ástæðum höfum við alþb.-menn margbent á það hér á Alþ., að það sé lífsnauðsynlegt að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að skapa svigrúm fyrir eðlilegar kauphækkanir án þess að þurfi að koma til mikilla verðhækkana í landinu. Þessu hefur ríkisstj. gersamlega neitað. Hún hefur skálmað áfram með meiri verðhækkanir en nokkru sinni fyrr. Eða hvað segja menn t. d. um það, að nú rétt um áramótin kemur eitt ríkisfyrirtækið, Skipaútgerð ríkisins, og fær að hækka hæði fargjöld og farmgjöld um 50% — eða ríkisfyrirtækið Póstur og sími sem fær að hækka gjöld sín að meðaltali um 30%. Auðvitað gefur þetta teikn um það, hvað er að gerast og hvað muni gerast í verðhækkunum hjá öðrum, enda hafa ýmsir fylgt þarna á eftir nú þegar.

Ég vil einnig benda á það, að ríkisstj. hefur beinlínis unnið að því á öðrum sviðum að hækka verðlag í landinu, auka á dýrtíð, einmitt nú þegar þurfti að skapa svigrúm vegna óhjákvæmilegrar þarfar á kauphækkun. Ríkisstj. ákvað að taka í ríkissjóð 2% söluskatt sem áður rann í Viðlagasjóð. Þegar komið var að því að Viðlagasjóður átti ekki að fá þessar neyðarráðstafanatekjur, þá tekur ríkisstj. þessi 2% og gerir að föstum tekjustofni ríkisins. Þarna var vitanlega tækifæri til þess að skapa svigrúm. Það sama gerði ríkisstj. í sambandi við olíugjaldið. Hún hirti það í ríkissjóð og jók þannig beinar álögur — fyrir utan það sem gengur áfram til olíuniðurgreiðslu — um einn milljarð. Sama er að segja í sambandi við hina nýju framlengingu á 18% vörugjaldinu, þessu tímabundna vörugjaldi. Þar var um álögur að ræða sem jafngilda 5.3 milljörðum á ári. En ríkisstj. neitaði að falla frá þessu gjaldi, og hún fór sínu fram. Hún fór sem sagt verðhækkunarleiðina, dýrtíðarleiðina. Og hún heldur jafnfast og áður í vaxtaokurpólitíkina sem vitanlega veltir sér áfram út í verðlagið í landinu með tilheyrandi verðhækkunarafleiðingum. Við sjáum að fjárlögin gera ráð fyrir því að ríkissjóður og ríkisfyrirtæki greiði vexti á næsta ári hvorki meira né minna en 8.8 milljarða. Og þetta er aðeins dæmi frá ríkinu. En vitanlega kemur þetta dæmi fram í öllum atvinnurekstri og í öllu verðlagi í landinu, að vextirnir eru orðnir hér í reynd meira en helmingi hærri en í okkar nágrannalöndum.

Það er þessi stefna ríkisstj. í efnahagsmálum m. a., sem ég hef hér verið að minnast á, sem mér sýnist að leiði út í beint öngþveiti, og það er ekki hægt að skilja viðbrögð stjórnarinnar í verðlagsmálum, sem hún stendur þarna að, á annan hátt en þann, að hún ætli sér að standa gegn eðlilegum og sanngjörnum kauphækkunum, sem krafist er nú, og stefna þar með öllu út í meiri háttar stöðvanir, sem vitanlega mundu geta leitt yfir okkur hreinan þjóðarvoða, því að það er alveg vitað mái og því verður ríkisstj. að gera sér fulla grein fyrir, að það þýðir ekkert að ætla að neita slíkri staðreynd eins og þar liggur fyrir, að launahækkunin nú verður að eiga sér stað og hún verður að vera allveruleg, með tilliti til þess, sem á undan er gengið í sambandi við kjaraskerðingu, og með tilliti til þess, hvernig þróunin hefur orðið almennt séð í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Mér sýnist því að ríkisstj. stefni í algert öngþveiti í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Mér sýnist að hún beiti í öllum þessum atriðum, sem ég hef vikið að, algerlega rangri stefnu. Þetta er ein meginástæðan til þess, að ég styð kröfuna um að ríkisstj. segi af sér og efni til nýrra kosninga. Ég er líka á þeirri skoðun að ríkisstj. njóti ekki trausts, þó að hún geti hér hangið á einhverjum meiri hluta alþm. Það er alveg augljóst mál, að það eru orðnar breyttar forsendur í landinu. Það er ekkert venjulegt að tvö dagblöð annars stjórnarflokksins, eða dagblöð sem gefin eru út á vegum þeirra manna sem styðja þann flokk, liggja beinlínis í hernaði við hinn stjórnarflokkinn og krefjast þess nú orðið að stjórnarsamstarfinu verði slitið. Og eitt af stærstu flokksfélögum innan Sjálfstfl. er líka búið að setja fram kröfu um að stjórnin víki eða vissir menn verði teknir út úr stjórninni. Þetta er heldur ekkert venjulegt. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að formaður Framsfl. sé ánægður með þetta og hann geti sagt með góðri samvisku: Ég ætla að hanga hvað sem öllu öðru líður. (Dómsmrh.: Hann ætlar að standa.) Ja, það fer nú ekki mikið fyrir þeirri stöðu nú sem komið er. En auðvitað á hann eins og aðrir að viðurkenna staðreyndir. Ef málið er orðið þannig að sá flokkur, sem stóð að samstarfi við hann, vill ekki lengur samstarf við hann, mikill hluti flokksins, tvö af þremur dagblöðum hans standa orðið á móti samstarfinu og stór flokksfélög, þá held ég að það sé kominn tími fyrir Framsfl. til þess að fara að átta sig á því hvers konar samstarf þetta er, að maður tali nú ekki um það, að það sé kominn tími fyrir hann að átta sig nokkuð á því hvað hann er að gera efnislega í þeim málum sem mestu skipta hjá þjóðinni. Mín skoðun er sú, að ástandið í stjórnmálum okkar nú snúist ekki fyrst og fremst um það hvernig gengur með þetta eða hitt dómsmálið, á hvaða stigi það er. Og þrátt fyrir allt, sem má segja um Kröflumálið, þá veldur það ekki heldur neinum úrslitum í þessu máli hvað Krafla gerir. Hér er miklu stærra og meira undir. Það er hins vegar virkilega alvarlegt ef þannig verður haldið á t. d. í efnahagsmálum þjóðarinnar að stefnt sé í meiri háttar vinnustöðvanir á aðalframleiðslutíma þjóðarinnar, en sú stefna, sem ríkisstj. nú siglir eftir, leiðir beint út í slíkt öngþveiti. Deilur um dómsmálin í landinu og deilurnar um Kröflu koma auðvitað allar inn í þessa mynd. En það er mikill misskilningur hjá formanni Framsfl. ef hann heldur að þessi mál eigi ein að ráða úrslitum um það hvort stjórnin situr eða situr ekki.

Ég sem sagt endurtek það, að það er mín skoðun að aðkallandi þörf sé að gerbreyta um stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, eins og nú standa sakir, og skapa grundvöll að því að hægt verði að semja um þær launabætur til handa vinnandi fólki í landinu, sem launþegasamtökin geta sætt sig við, og forðast þannig meiri háttar vinnustöðvanir. Ég sé ekki að stefna stjórnarinnar, sem hún hefur í þessum efnum, sé líkleg til að skapa slíkan grundvöll. Ríkisstj. hefur neitað því að breyta um stefnu. Það liggur fyrir. Því álít ég að best væri að stjórnin segði af sér og efndi til kosninga.

Ég vísa svo á bug þeirri kenningu hæstv. forsrh. að mála það eins og einhvern skratta á vegginn að efnt sé til kosninga í landinu. Ég geri ráð fyrir að ríkisstj. muni sitja á meðan kosningar fara fram. Hún getur vitanlega staðið að framkvæmd mála eins og henni líkar þá. Það kann að vera að það kæmi eitthvert hik á ráðh. með framkvæmdir í sumum efnum ef þeir stæðu þá frammi fyrir kjósendum um leið. En vitanlega er ekkert við það að athuga að kalla á dóm þjóðarinnar, óska eftir meira en aðeins atkvgr. hér á Alþ., fá að sjá hvernig þjóðin lítur á málin eins og þau verða lögð fyrir. Það er því alveg ástæðulaust að segja að allt þurfi að fara hér um koll ef þjóðin fær að greiða atkv. um málið. Mér finnst að þessi afstaða, sem fram kemur hér hjá hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., beri allt of mikið keim af því að þeir segi einfaldlega: Við ætlum að hanga hvað sem gerist og hvað sem allir segja, a. m. k. á meðan við fáum meiri hl. alþm. til þess að leyfa okkur að hanga. Þetta álít ég vera ranga leið. Hitt væri miklu eðlilegra, að snúast þannig við málum sem ég hef hér lagt til, og því styð ég fyrir mitt leyti þá kröfu sem hér hefur komið fram um þingrof og kosningar.