21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

8. mál, sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og mönnum er kunnugt, þá reisti Reykjavíkurborg á sínum tíma Grensásdeildina, sem er endurhæfingardeild Borgarspítalans og samanstendur af tveimur legudeildum, Grensásdeild og Heilsuverndarstöðinni við Barónsstig. Ég tek alveg undir þau rök, sem fram koma í grg. með þessari þáltill. og eru frá yfirlækni Grensásdeildar, að það er brýn nauðsyn á því að sundlaug verði byggð við Grensásdeildina. Og út af fyrir sig má segja að það er merkilegt, að þetta mál skuli ekki hafa verið fyrr flutt. En þó gerðist það, að í byrjun þessa mánaðar var flutt í borgarráði till. um að fela borgarverkfræðingi í samráði við borgarlækni að kanna hvort hægt væri að koma fyrir sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans og leggja fyrir borgarráð umsögn ásamt kostnaðaráætlun að þessari könnun lokinni. Það skiptir auðvitað öllu máli í þessu sambandi að tæknilega sé hagkvæmt og rétt að byggja sundlaug við Grensásdeildina og það sé hægt að koma henni fyrir með góðu móti, og því er auðvitað brýn nauðsyn á því að umsögn borgarlæknis liggi fyrir.

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að ríkið leggi fram framlög til byggingar slíkrar sundlaugar ef það verður ofan á og talið rétt af eiganda deildarinnar, sem er Reykjavíkurborg, að byggja sundlaug við hana, og ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að ég er samþykkur þessari þáltill. og ég vil vinna að því fyrir mitt leyti, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, að fyrsta framlag verði tekið inn á fjárlög næsta árs.

Eins og allir vita, þá er auðvitað fyrir alllöngu búið að ganga frá fjárlagatill. fyrir fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir Alþ., og því er auðvitað ekki hægt að taka þetta frá rn. nema til viðbótar með sérstöku bréfi. Ef Alþ. afgreiðir þessa sjálfsögðu till. á sem allra skemmstum tíma og upplýsingar borgarverkfræðings liggja fyrir borgarráði og vilji borgarráðs og borgarstjórnar, þá tel ég mér bæði vera sjálfsagt og skylt að mæla sterklega með því að framlag til þessara framkvæmda verði tekið á fjárlög næsta árs.