25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þm. Alþfl. að flytja á þskj. 9 svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að óska eftir því við fjmrh., að hann feli þeim aðilum, sem starfa að endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að þeir geri sérstaklega tillögur um ný og afdráttarlausari fyrirmæli en nú er að finna í lögum, er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum, endurgjaldslausri þjónustu, sérstökum fríðindum eða óvenjulegri fyrirgreiðslu umfram starfsréttindi, er meta má til peningaverðs, frá opinberum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum, sem viðkomandi starfsmaður hefur starfsleg samskipti við. Auk þess skal í till. kveðið á um skyldu opinbers starfsmanns til þess að upplýsa til réttra aðila um þau fríðindi, gjafir, endurgjaldslausa þjónustu o. s. frv., er hann kynni að hafa þegið, svo og um viðurlög við brotum.

Jafnframt verði þeim aðilum, er þessa endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafa með höndum, falið að gera till. um sambærilegar reglur varðandi ráðh. og alþm., sveitarstjórnarmenn og starfsfólk sveitarstjórna svo og um aðra þá, sem ráðnir eru eða kjörnir til opinberra starfa, og þá um sérstaka lagasetningu þar um, ef þurfa þykir, svo og að gera till. um þær breytingar á öðrum lögum, svo sem eins og almennum hegningarlögum, sem gera þyrfti þessu samfara.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sú þróun hefur orðið bæði hérlendis og erlendis að hið opinbera og stofnanir þess ásamt ýmsum hálfopinberum stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum hafa stöðugt eflst að áhrifum og ítökum, þá ekki hvað síst á sviði efnahags- og fjármála. Hvort heldur er um einstakling eða atvinnufyrirtæki að ræða, er vart til sú framkvæmd sem hann eða það þarf ekki að sækja undir a. m. k. einn slíkan opinberan aðila, og viðtökurnar, sem umleitunin hlýtur, ráða oftar en ekki algjörum úrslitum um hvort af hinni ráðgerðu framkvæmd getur orðið.

Þekking, dugnaður og hæfni einstaklingsins ásamt eigin fjárhagsgetu hans o. s. frv. skipta að vísu máli í slíkum tilvikum. En undirtektir opinberra stofnana og ráðamanna við erindinu eru þó oft mun þyngri á metunum, eins og ég held að alþjóð viti. Undir slíkum kringumstæðum gera menn sér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að hætta er á að önnur atriði en að framan voru talin, þ. e. a. s. þekking, dugnaður og hæfni einstaklingsins ásamt eiginfjárhagsgetu hans, svo sem eins og þjóðfélagsstaða einstaklingsins, aðstaða hans eða fyrirtækis, sem hann veitir forstöðu, eða enn önnur atriði ráði erindislokum. Það er alkunna að slík aðstaða t. d. atvinnufyrirtækis er iðulega metin til peningaverðs við eigendaskipti. Og ýmis alkunn síðari tíma dæmi sanna, svo að ekki verður um villst, að menn eru reiðubúnir til að verja talsvert miklum fjármunum til þess að skapa sér eða fyrirtækjum sínum slíka góðvild með ýmsum hætti og þá ekki einvörðungu með því að verja fé til að kynna hugsanlegum viðskiptavinum framleiðsluna og fyrirtækin í auglýsingum.

Jafnframt því sem opinberir sjóðir og stofnanir og hálfopinber fyrirtæki vaxa með þessum hætti að áhrifum og ítökum, aukast að sjálfsögðu að sama skapi völd þeirra einstaklinga sem fara eiga með forsjá slíkra stofnana eða sjóða í umboði almennings, hvort heldur þeir eru ráðnir eða valdir í kosningum.

Í raun og veru hefur þróunin orðið sú hér á Íslandi, að gífurleg völd, fjárhagsleg og stjórnmálalegs eðlis, hafa safnast í hendur tiltölulega mjög fárra einstaklinga sem gegna ábyrgðarmestu störfunum í efnahags- og stjórnmálalífi þjóðarinnar.

Staðreyndin er sú, a. m. k. hér á Íslandi, að tiltölulega örfáir menn ráða algjörum úrslitum um hvort fyrirtæki geti dafnað eða ekki. Staðreyndin er sú. a. m. k. eins og nú standa sakir, að tiltölulega mjög fáir menn geta ráðið því hvort eigandi fyrirtækis eða einstaklingur verður efnaður maður eða ekki. Þar er í sífellt meira mæli orðið háð þeim undirtektum, sem þetta fyrirtæki eða þessi einstaklingur hlýtur hjá ráðandi mönnum, frekar en dugnaði og útsjónarsemi hans sjálfs. Og ég held að það sé ekki ofmælt þó að ég fullyrði, að aldrei í sögu íslenska lýðveldisins hafi jafnfáir ráðið jafnmiklu um jafnmargra hag og nú.

Það liggur því mikið við, að allur almenningur geti treyst því að engin óeðlileg eða óæskileg atriði hafi áhrif á hvernig þessu mikla valdi er beitt. Að sjálfsögðu er ekki nema mannlegt að aðili, hvort heldur einstaklingur eða fyrirtæki, sem á allan sinn hag undir því kominn hverjar viðtökur erindi hans fær hjá forráðamönnum eða umsjármönnum þessara stofnana almannavalds, leiti ýmissa leiða til þess að tryggja sér velvild þess eða þeirra sem málum ráða. Sjálfsagt eru mörg slík dæmi á vitorði okkar alþm., á nákvæmlega sama hátt og fjölmörg slík dæmi eru á vitorði almennings og enn frekar á vitorði þeirra sem t. d. stjórna umfangsmiklum fyrirtækjarekstri. Ég ætla ekki að telja upp slík dæmi, þau eiga ekkert sérstakt erindi inn í þessar umr. En ég held að við alþm. séum ekkert frekar en aðrir blindir fyrir því, að þetta hefur gerst bæði hérlendis og erlendis og hætta á að það geti færst í aukana.

Í sumum ríkjum eru mörkin á milli þess, sem er eðlilegt, og þess, sem er óeðlilegt í slíku sambandi, dregin í sérstakri löggjöf. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum gilda þær reglur, að opinber starfsmaður, hvort heldur hann er ráðinn eða kjörinn til starfans, má ekki taka við persónulegum gjöfum eða ókeypis þjónustu frá erlendum eða innlendum aðilum í sambandi við starfa sinn, sem sé meira virði eða meta megi til meira verðs en 50 dollara. Svo dæmi sé tekið, þá er til sérstakt safn í Bandaríkjunum sem er byggt upp af gjöfum, sem opinberir starfsmenn, og þar á ég við bæði ráðna og kjörna opinbera starfsmenn, hvort heldur þeir eru á stjórnmálasviði eða embættismenn, — þetta safn er byggt upp af gjöfum sem slíkir menn hafa tekið við frá ýmsum erlendum og innlendum aðilum og hefur verið gert að skila til ríkisins, þar sem talið er að þeir hafi tekið við slíkum gjöfum í embættisnafni. Þetta safn er orðið nokkuð stórt. Þar eru t. d. fjölmargar gjafir sem forsetar Bandaríkjanna og forsetafrúr hafa fengið í ferðum sínum um heiminn og hafa samkvæmt bandarískum reglum orðið að skila aftur til viðkomandi ríkis, þ. e. a. s. til Bandaríkjanna sjálfra, og síðan hefur verið sett upp opinbert safn með þessum munum. Mikið af þessu eru listaverk eða mjög dýrar gjafir.

Það er ekki aðeins í Bandaríkjunum sem þessar reglur eru viðhafðar. Ég er hér með blaðið Daily Express frá 27. nóv. s. l., breskt blað, þar sem skýrt er frá því að breska ríkisstjórnin hafi gefið opinberum starfsmönnum — alls 744 þús. mönnum — þau fyrirmæli að hér eftir sé þeim ekki heimilað að taka við neinum gjöfum frá erlendum aðilum, hvort heldur um er að ræða fjölþjóðleg fyrirtæki, stjórnmálamenn eða erlenda vini, með öðru móti en því að skila annaðhvort gjöfunum til breska ríkisins eða standa breska ríkinu skil á endurgjaldi fyrir gjafirnar. Gjafirnar eru þá metnar og viðkomandi embættismanni, hvort heldur sem hann er kjörinn eða ráðinn til starfans, gert að greiða breska ríkinu andvirðið.

Þessar reglur hafa um nokkurt skeið gilt í bresku utanríkisþjónustunni. En 26. nóv. s. l. gaf breska ríkisstj. fyrirmæli um að sömu reglur skyldu ná til starfsmanna breska ríkisins, hvort heldur þeir væru valdir eða kjörnir eða ráðnir til starfans.

Þá er einnig í þessum reglum varað við jafnsmávægilegum hlutum og að menn þiggi um of hvers konar ókeypis fyrirgreiðslu, svo sem hádegisverðarboð eða kvöldverðarboð eða hin og þessi slík boð frá aðilum, sem þeir eiga starfsleg samskipti við, og opinberir starfsmenn í Bretlandi hvattir til þess að sýna fyllstu varfærni í þeim efnum og jafnvel mælt fyrir um að þessir starfsmenn skuli jafnan gera yfirmönnum sínum grein fyrir því, ef þeim eru boðin slík fríðindi, og fá leyfi þeirra til að þiggja þau.

Það er sem sé ekki aðeins í löndum eins og Bandaríkjunum sem slík ákvæði eru beinlínis leidd í lög, heldur hafa stjórnvöld í öðrum og okkur nálægari löndum gefið svipuð fyrirmæli.

Svo eru auðvitað til enn önnur ríki þar sem samskipti eins og hér um ræðir eru talin sjálfsagður þáttur í opinberri þjónustu, eins og t. d. sum Afríkuríkin, þar sem það er yfirleitt viðtekin venja að ef einhver þarf að skipta við opinberan starfsmann í slíku ríki, hvort heldur hann er valinn eða kjörinn, þarf ákveðinn hluti af því, sem út úr þeim viðskiptum kemur, að renna í vasa viðkomandi starfsmanns.

Hér á landi eru aðeins mjög lausleg og almennt orðuð ákvæði í lögum sem banna slíkt framferði opinbers starfsmanns sem hér er gert að umtalsefni. Þau er að finna í almennum hegningarlögum og í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þá virðist heldur engin sérstök hefð hafa skapast hér á landi um hvað megi teljast eðlilegt og hvað ekki í þessum efnum, heldur er matið á því algjörlega persónubundið. Það, sem einum þykir í lagi, finnst öðrum óhæft. Markalínan milli þess, sem talið er eðlilegt í slíkum sökum og óeðlilegt, hefur ekki verið dregin í íslenskum lögum né heldur hefur hún skapast fyrir siðgæðishefð. Að sjálfsögðu verður slík markalína að vera til með þjóð sem vill telja sig siðmenntaða, og flm. hafa þá trú, að því fyrr sem hún verður dregin, því betra. Eðlilegast og öruggast er að það sé gert í löggjöf, þar sem mörk séu dregin á milli eðlilegrar kynningarstarfsemi, vináttu- og virðingarvottar við opinberan starfsmann, ráðinn eða kjörinn, annars vegar og óeðlilegra og óæskilegra góðvildarkaupa hins vegar.

Einmitt nú um þessar mundir vill svo til að yfir stendur endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og við flm. höfum frétt af því, að fyrir dyrum standi að hraða þeirri endurskoðun. Þáltill. þessi gerir ráð fyrir því að Alþ. óski eftir því við fjmrh. að þau vandamál, sem að framan hefur verið rætt um, verði sérstaklega tekin til meðferðar við þá endurskoðun og gerðar till. um skynsamlega lagasetningu um hvað sé eðlilegt og hvað óeðlilegt í því sambandi.

Að sjálfsögðu eiga slík ákvæði ekki aðeins að ná til ráðinna starfsmanna ríkisins, þ. e. a. s. til ríkisembættismanna, heldur einnig til kjörinna starfsmanna ríkisins, svo sem alþm. og ráðh., og sömuleiðis til sveitarstjórnarmanna og starfsfólks sveitarstjórna svo og annarra þeirra sem gegna opinberum störfum. Er ráð fyrir því gert í þessari þáltill., að einmitt þannig verði vinnubrögðum hagað, að hér sé um að ræða reglur sem verði látnar ganga jafnt yfir alla sem starfa að opinberum málum, hvort heldur þeir eru ráðnir eða kjörnir.

Ég hef orðið var við það nokkuð að menn hafa viljað túlka þessa till., sem hér er fram lögð, nokkuð þröngt, þannig t. d. að það væri verið að banna þingmanni eða embættismanni ríkis eða sveitarstjórnar að veita viðtöku smágjöfum, t. d. á afmælum, frá vinum sínum og samstarfsmönnum. Að sjálfsögðu er hér ekki verið að stefna að því né heldur verið að gefa undir fótinn með það að íslenskir embættismenn og stjórnmálamenn séu yfirleitt óheiðarlegir menn sem verði að hafa eitthvert slíkt yfir höfði sér eins og hér er lagt til, síður en svo. Við flm. teljum aðeins að það sé rétt og eðlilegt að setja reglur hér um.

Það getur farið nokkuð á milli mála hvað geti talist eðlilegt og hvað óeðlilegt. En ég held að þegar ýmsir kunnir embættismenn þessarar þjóðar eru farnir að taka við á stórhátíðum í ævi sinni gjöfum frá stofnunum, sem þeir veita forstöðu eða eru í starfi fyrir, sem nema eitthvað á aðra milljón kr. að andvirði, þá sé skörin nokkuð mikið farin að færast upp í bekkinn og sé vissulega kominn tími til að setja hömlur við slíku.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri nema sérstök ástæða gefist til, en legg til að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.