25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) :

Það vill nú svo til að öllum orðum fylgir nokkur ábyrgð, og ég get sagt hv. þm. Albert Guðmundssyni það, að ýmislegt, sem ég hef sjálfur kynnst, m. a. sem þm., skýtur talsvert rótum undir þetta. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég ætlaði ekki að fara að tilnefna einstök dæmi sem varða aðra. En ég skal bara skýra frá einu dæmi sem gerst hefur hér í þingsölum. Og það gerðist þegar ákveðið stórfyrirtæki þurfti á fjárhagslegri fyrirgreiðslu þessarar stofnunar að halda. Um svipað leyti bárust þingflokkunum frá þessu stóra fyrirtæki boð þess efnis að þingflokkarnir væru vinsamlega beðnir um að tilnefna fulltrúa sína til þess að kynna sér starfsemi þessa stórfyrirtækis erlendis í nokkuð langri og dýrri ferð, og var sérstaklega óskað eftir því við þingflokkana að þeir tilnefndu sem fulltrúa sína menn úr fjh.- og viðskn. Alþ., þ. e. a. s. þeim n. sem væntanlega áttu að fjalla um beiðni þessa stórfyrirtækis um talsverða fjárhagsfyrirgreiðslu af opinberu fé. Þetta boð var ekki þegið af þingflokkum Alþ. og er þeim til sóma. En slíkt boð var engu að síður þegið af háttsettum starfsmönnum, ráðnum og kjörnum, hjá íslenska ríkinu.

Það getur vel verið að það sé ekkert athugavert við þetta. Ég er ekki að segja að það sé. En ég ætla að biðja þm. að hugleiða það með sér hvort atvík, sem þeir ættu mætavel um að vita, geri það ekki að verkum að þeim finnist tímabært að setja einhverjar ákveðnar reglur um þetta efni.

Ég nefndi það einnig, að hv. þm. ættu að kynna sér hvað t. d. getur gerst í sambandi við afmælisgjafir stórfyrirtækja í eigu ríkisins til aðila sem þar starfa. Það er sjálfsagt og eðlilegt að góðir starfsfélagar rétti kunningja sínum og samstarfsmanni góða gjöf í tilefni af afmæli hans. Og það getur líka verið eðlilegt að fyrirtæki, sem hann starfar hjá, hvort sem það er einkafyrirtæki eða opinbert fyrirtæki, geri það líka. En er nú ekki dálítill munur á því hvort hér er t. d. um gjöf að ræða að andvirði 1.3 millj. eða hvort hér er um gjöf að ræða fyrir nokkra tugi þúsunda?