27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

29. mál, alþjóðasamningur um varnarráðstafanir vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar

Frsm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Það er forsaga þessa máls, að þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna var falið fyrir nokkrum árum að fjalla um þau vandamál, sem risið hafa vegna tíðra afbrota gegn erlendum sendiráðum og fulltrúum erlendra ríkja. N. samdi samningstexta, sem samþ. var á 28. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 14. des. 1973. Markmið hans er að spyrna gegn þeirri öfugþróun sem orðið hefur í þessum efnum. Þessi samningur var undirritaður af Íslands hálfu hinn 10. mars 1974. 45 ríki hafa undirritað samninginn, þar af hafa 17 ríki þegar fullgilt hann. Meðal þeirra eru tvö Norðurlandanna, Danmörk og Svíþjóð. Samningurinn öðlast gildi 30 dögum eftir að 22 ríki hafa afhent fullgildingarskjöl sín.

Áður en samningurinn var lagður fyrir Alþ. var leitað álits hegningarlaganefndar á því, hvort breyta þyrfti íslenskum lögum til þess að unnt væri að fullgilda hann. N. taldi ekki þörf annarrar lagabreytingar en þeirrar, að bætt yrði ákvæði við 6. gr. almennra hegningarlaga til þess að rýmka um refsilögsögu Íslands svo hún taki með vissu til brota og brotamanna sem samningurinn fjallar um. Þessi lagabreyting var samþ. á síðasta Alþingi.

Utanrmn. hefur tekið till. til athugunar og mælir eindregið með samþykkt hennar.