01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þessu máli var frestað á sínum tíma að beiðni minni vegna þess að hv. 12. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, flm., var ekki viðstaddur umr. og ég hafði beðið um að málínu yrði þess vegna fresta'ð.

Þessi till. til þál. fjallar um að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta kanna hvaða áhrif fjárhagsleg fyrirgreiðsla Framkvæmdastofnunar ríkisins, sérstaklega Byggðasjóðs, hefur haft á atvinnu og byggðaþróun í landinu, og sérstaklega skuli kannað hvaða áhrif þessi fyrirgreiðsla hefur haft á búsetu fólks, tekjuskiptingu eftir landshlutum og aðstöðumun fyrirtækja eftir staðsetningu og starfsgreinum. Til samanburðar skal höfð í huga þróun sömu mála í Reykjavík og nágrannabyggðum hennar þau 5 ár sem liðin eru frá því að lög nr. 93 frá 1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins, tóku gildi. Fyrstu niðurstöður þessarar könnunar skulu birtar því Alþ. er nú situr. Og endanlegar niðurstöður skulu lagðar fram þegar Alþ. kemur saman haustið 1977.

Till. fjallar að efni til um athugun á þessu máli og í sjálfu sér er ekki hægt að vera neikvæður í því efni. En ég vil þó í upphafi vekja athygli á því, að Framkvæmdastofnunin er sennilega í meiri tengslum við Alþ. en flestar eða allar aðrar opinberar stofnanir. Stjórnin er kosin af Alþ., og það hefur þannig tekist til að allir stjórnarmenn hafa verið alþm. frá byrjun, og til viðbótar vill svo til að forstjórar stofnunarinnar eru einnig alþm. Gert er ráð fyrir því í lögum um Framkvæmdastofnunina að áætlanir hennar séu sendar ríkisstj. og enn fremur að árleg skýrsla sé flutt um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hér á Alþ. og gerir það hæstv. forsrh. Ítarlegri ársskýrslu er yfirleitt útbýtt til alþm, um starfsemina, þannig að þm. fá meiri upplýsingar um þessa stofnun til sín beint heldur en um flestar aðrar stofnanir ef ekki allar. Það er til þess ætlast að umr. fari fram um skýrslu forsrh. hér á Alþ. og það er eflaust gert m. a. til þess að ræða hvaða áhrif störf þessarar stofnunar hafa haft og hvernig til hefur tekist. Þess vegna álít ég að þessi till. sé í raun og veru óþörf með tilliti til þess hversu náin tengsl eru á milli Framkvæmdastofnunarinnar og Alþ. og ríkisstj.

Hv. 1. þm. Suðurl. flutti ítarlega og greinargóða ræðu um aðdragandann að stofnun Framkvæmdastofnunarinnar og skýrði þar frá mörgu athyglisverðu um starfsemi hennar. Eins og þm. muna var Framkvæmdastofnunin sett saman úr þremur stofnunum, sem fyrir voru, þ. e. a. s. Framkvæmdasjóði Íslands, Atvinnujöfnunarsjóði og Efnahagsstofnuninni. Eignir Atvinnujöfnunarsjóðs voru síðan sameinaðar nýjum sjóði, Byggðasjóði, mjög efldum. Framkvæmdasjóðurinn starfaði áfram á svipuðum grundvelli og áður. Efnahagsstofnunin fluttist yfir í Framkvæmdastofnunina, og það áætlunarstarf, sem hafði verið unnið á vegum Efnahagsstofnunarinnar og var talsvert verulegt, var síðan aukið og eflt í Framkvæmdastofnuninni. Það má nefna það t. d. um áætlunarstarfsemi Efnahagsstofnunarinnar að hún vann að samgönguáætlun fyrir Vestfirði á árunum 1965–1969, almennri byggðaþróunar- og atvinnumálaáætlun fyrir Norðurland á árunum 1969–1973 og samgönguáætlun Austurlands um vegaframkvæmdir um 1970. Þessi starfsemi hefur svo verið mjög aukin og efld í Framkvæmdastofnuninni í samræmi við löggjöfina.

Hv. flm. virtist furða sig á því, að Byggðasjóður lánaði meira til landsbyggðarinnar en til Reykjavíkur, vildi kenna Framkvæmdastofnuninni um þetta og taldi jafnvel að þetta væri brot á grundvallarreglum lýðræðis. Þetta álít ég að þurfi að athuga nokkru nánar, athuga m. a. hvað löggjöfin um Framkvæmdastofnunina segir um hlutverk Byggðasjóðs. Þar segir í 28. gr. að hlutverk hans sé „að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði“. Það er þess vegna beinlínis fyrir lagt í löggjöfinni um Framkvæmdastofnunina að hún beini fjármagni sínu og fjármagnsfyrirgreiðslu að því er snertir Byggðasjóð til þeirra landshluta og þeirra staða úti um landsbyggðina sem sérstaklega hafa orðið fyrir barðinu á þeirri miklu byggðaröskun sem átt hefur sér stað í landinu á undanförnum áratugum.

Hverjar voru raunverulega ástæðurnar fyrir því að Byggðasjóður var settur á stofn, svo mjög öflugur sem hann er? Þær voru vitanlega fyrst og fremst sú gífurlega byggðaröskun sem átt hefur sér stað hér á Íslandi á undanförnum áratugum. Sem dæmi um þessa miklu byggðaröskun má geta þess, að á tveimur áratugum, á árunum 1950–1970, fjölgaði landsmönnum um 66 þús. manns. Af þeirri fjölgun fjölgaði um 54.6 þús.á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu, en aðeins um 11.4 þús. annars staðar á landinu. Það er engum blöðum um það að fletta að byggðaröskunin hefur verið geigvænleg og haft ómæld áhrif á aðstöðu þeirra íbúa sem hafa orðið fyrir barðinu á henni. Það skeður ýmislegt í lífi þeirra sem verða fyrir barðinu á byggðaröskun og mætti þar margt fram telja. Í mörgum tilfellum er það þannig að t. d. skólahald verður erfitt eða jafnvel ómögulegt ef byggðaröskunin er mikil. Öll félagsaðstaða fellur niður, hverfur úr sögunni. Öll þjónustustarfsemi hverfur einnig eða verður mjög örðug. atvinnutækifæri verða engin fyrir yngra fólkið. Og svo að lokum það, að eignir fólks verða venjulega verðlausar. Þvert á móti gerist svo það á svæðum sem eru í vexti að þar vaxa eignir stórkostlega í verði eins og gerst hefur hér á Suðvesturlandi eins og öllum er kunnugt um.

Það vakna auðvitað spurningar í sambandi við þessi mál hvort æskilegt sé að flestallir íslendingar setjist að á Reykjanesskaga og í nánasta umhverfi hans. Framkvæmdastofnunin hefur það hlutverk öðrum þræði að vera byggðastofnun, og lánveitingar úr Byggðasjóði, sem er ætlað að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, hafa verið mjög miklar á undanförnum árum. árið 1972 voru lánaðar 480 millj. kr., 1973 357 millj., 1974 662 millj., 1975 1603 millj., 1976 1120 millj. Árið 1977 má reikna með að lánaðar verði um 1700 millj. kr., en það var einmilt verið að samþ. heildaráætlun fyrir útlán Byggðasjóðs á fundi í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar í dag. Þetta er nálægt því að vera 6 milljarðar samtals sem Byggðasjóður mun lána frá því að hann tók til starfa í ársbyrjun 1972 og til ársloka 1977.

Það voru ýmis atriði sem fram komu í ræðu hv. frsm. sem ástæða er til að minnast á. Hann segir t. d. svo í ræðu sinni með leyfi hæstv. forseta:

„Herra forseti. Fyrir réttum 1100 árum fluttust til þessa lands einstaklingshyggjumenn sem ekki vildu una því að stjórnvöld réðu málum þeirra í einu og öllu. Sama þjóð byggir enn landið, en sú breyting hefur orðið á hlutskipti þegnanna, að ýmsar opinberar stofnanir hafa meir tekið að sér að ráðskast með málefni þeirra“.

Ekki trúi ég því að það vaki fyrir hv. flm. að færa hér allt fyrirkomulag til þess sem var fyrir 1100 árum.

Það komu fram fleiri viðhorf sem ástæða er til að minnast á. Það kom t.d. fram hjá hv. flm. sú skoðun að sem mest frelsi eigi að ríkja um notkun fjármagnsins og það eigi að renna þangað sem mest arðsvon sé.

Varðandi þessi mál má segja að sé um tvær stefnur að ræða: Annars vegar þá stefnu að maðurinn elti fjármagnið og það sé óheft. Hins vegar þá stefnu að fjármagnið sé þjónn mannsins og þjóni áformum hans. Ef fjármagnið fær að ryðja sér braut óheft mundi það hér á Íslandi renna eftir farvegum verðbólgunnar og þá helst til húsbygginga í Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur. Þannig hefur reynslan orðið að fjármagnið leiti þangað, ef það er óheft, sem arðsvonin er mest. Og það hefur verið mjög á batasamt og er enn að leggja fjármagn í húseignir hér á Suðvesturlandi vegna þess að hér hefur verið þensla og fólksfjölgun og geysihátt verð á fasteignum. Hin stefnan, sem ég minntist á, byggir á því að fjármagnið þjóni áformum mannsins og það sé hægt að beina því að verkefnum sem eru þjóðhagslega þýðingarmikil: uppbyggingu sem skapar verðmæti og styrkir efnahag þjóðarinnar. Þetta þarf ekki að þýða að dregið sé úr almennri hagþróun, þvert á móti.

Ef litið er á starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar og fjármagnsráðstöfun sem er á hennar valdi, þá mun koma á daginn að því mikla fjármagni, sem Framkvæmdastofnunin ráðstafar, er að nær öllu leyti ráðstafað til einstaklinga og einstaklingsfyrirtækja, það er tiltölulega lítill hluti af fjármagni Framkvæmdastofnunarinnar sem er ráðstafað til annarra aðila. Fjármagninu hefur verið ráðstafað til einstaklinga, til félaga í einstaklingseigu og svo nokkuð til sveitarfélaga, en það er tiltölulega mjög lítill hluti af þeim lánum sem lánuð eru til uppbyggingar á vegum Framkvæmdastofnunarinnar, bæði Byggðasjóðs og Framkvæmdasjóðs. Byggðasjóðurinn lánar langmest til einstaklinga og fyrirtækja í einstaklingseigu, þó að rétt sé að geta þess að í ýmsum tilfellum hafi Byggðasjóður lánað til sveitarfélaga og þá oftast þannig að sveitarfélögin annaðhvort leggi fram hlutafé í félög, sem eru í einstaklingseigu, eða beinlínis endurláni féð slíkum aðilum.

Það er því ekki um mismunun að ræða heldur beinlínis stuðning við þá sem af ýmsum ástæðum hafa farið halloka. Bróðurparturinn af því fjármagni, sem Framkvæmdastofnunin ráðstafar, fer til beinnar uppbyggingar, beinnar fjárfestingar, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það fjármagn, sem Framkvæmdastofnunin hefur á undanförnum árum bæði í gegnum Byggðasjóð og Framkvæmdasjóð beint til fjárfestingar og uppbyggingar í landinu, hefur stuðlað að meiri hagþróun í landinu. Menn hafa tekið eftir því, að það varð á mjög mikil breyting á seinasta ári varðandi viðskiptajöfnuð þjóðarinnar gagnvart útlöndum. Og hvaða þættir voru það sem mest stuðluðu að þessu? Ég held það hafi verið fyrst og fremst tvennt, þó að fleira komi þar til : Annars vegar bætt viðskiptakjör gagnvart útlöndum og svo hins vegar stórkostlega aukinn útflutningur, sérstaklega í sjávarútveginum. Stórkostlega aukinn útflutningur í sjávarútveginum stafar ekki síst af því að það hefur verið fest geysilega mikið fjármagn í sjávarútvegi, uppbyggingu fiskiskipaflotans, skuttogurum og öðrum fiskiskipum, og einnig ráðstafað mjög miklu fjármagni til þess að endurbæta og efla fiskvinnsluaðstöðuna í landinu. Hraðfrystihúsaáætlunin, sem fjallar um endurbætur, vélvæðingu, uppbyggingu og nýbyggingu fiskiðjuveranna í landinu, er mjög yfirgripsmikil áætlun sem hefur staðið yfir í alllangan tíma. Það hefur verið ráðstafað fjármunum alls, þar með talið eiginfjárframlag þeirra sem hlut eiga að máli, milli 14 og 15 milljarða kr. ef miðað er við verðlag eins og það var í júnímánuði 1976. Enginn vafi er á því, að þessi uppbygging er nú farin að skila miklum árangri. Einn þáttur í því er gífurlega aukinn útflutningur á unnum sjávarafurðum á síðasta ári.

Í framsöguræðu víkur hv. flm. að útlánum Framkvæmdasjóðs Íslands og Byggðasjóðs, sem báðir eru í Framkvæmdastofnuninni, og það kemur mjög skýrt í ljós í hans ræðu að hann ruglar þarna nokkuð saman. Hann gerir ekki nægilega mikinn greinarmun á þessum tveimur sjóðum, annars vegar Framkvæmdasjóði Íslands og hins vegar Byggðasjóði. Framkvæmdasjóður Íslands mun á þessu ári samkvæmt fjáröflunar og útlánaáætlun sjóðsins og í samræmi við lánsfjáráætlun ríkisstj. lána um 6 milljarða. Byggðasjóður mun hins vegar, eins og ég hef getið um áður, lána um 1700 millj. kr. á þessu ári. En það eru gjörólíkar reglur um starfshætti sem hafðar eru um hönd þegar ráðstafað er fjármagni úr þessum sjóðum. Þegar lánað er úr Framkvæmdasjóði Íslands, þá er það fjármagn lánað til fjárfestingarlánasjóða nær einvörðungu. Það eru fjárfestingarlánasjóðir eins og Fiskveiðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóður, Lánasjóður sveitarfélaga og fleiri smærri sjóðir. Þetta fjármagn er síðan endurlánað af þessum sjóðum algjörlega án tillits til búsetu manna í landinu. Allir hafa jafnan aðgang að þessum lánum, hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Þegar hins vegar er um að ræða Byggðasjóð og útlán úr honum, þá kemur allt annað til greina. Þá er höfð hliðsjón af byggðaröskun og sú meginregla höfð til viðmiðunar að stuðla með slíkum lánveitingum og fyrirgreiðslum að jafnvægi í byggð landsins.

Hv. flm. ræðir nokkuð um þá röskun sem hann telur starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hafa haft. En eins og ég hef margtekið fram er starfsemi Byggðasjóðs ætlað að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þarna er um að ræða að vinna gegn röskun, en ekki að valda röskun. Röskunin hefur orðið, hún er staðreynd og hún hefur orðið gífurlega mikil á undanförnum áratugum, þar sem feikilegur fjöldi fólks hefur flust til þéttbýlissvæðanna á Suðvesturlandi. Ég hygg að það sé ekki fjarri lagi að nú séu um 90 þús. manns annars staðar á landinu, en í Reykjavík og á Reykjanessvæðinu líklega um 130 hús. manns eða eitthvað nálægt því. Byggðasjóðurinn á að vinna gegn þessari röskun, en ekki að valda röskun. Það er hans meginverkefni.

Það kemur nú fram a. m. k, á milli linanna í framsöguræðu flm. að Reykjavík hafi verið hlunnfarin á undanförnum árum varðandi ráðstöfun fjármagns. Ég er á þveröfugri skoðun. Ég tel að Reykjavík hafi ekkert verið hlunnfarin í þessum efnum, nema síður sé, og í raun og veru þarf ekki annað en að athuga þá gífurlegu byggðaröskun sem hefur átt sér stað í landinu til þess að styðja að því að svo hefur ekki verið, því hún hefur einmitt stefnt í þá átt að stækka Reykjavík, fjölga íbúum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna. Menn flytjast yfirleitt þangað sem þeim vegnar betur af ýmsum ástæðum.

Ef gerður er samanburður á því, hvernig aðstöðu menn hafa hér í Reykjavík og úti um landsbyggðina, án þess að ég ætli að fara að flytja langt mál um þann samanburð, vil ég aðeins drepa á örfá atriði til þess að undirstrika og auka skilning á því vandamáli sem hér er um að ræða. Það var t. d. nýlega gerð könnun á framfærslukostnaði á landsbyggðinni miðað við Reykjavík, og það kom á daginn að á Ísafirði er framfærslukostnaður 4.8% hærri en í Reykjavík, á Akureyri 3.4% hærri, í Neskaupstað 5.4% hærri og á Hvolsvelli 4.6% hærri. Það er m. ö. o. talsvert dýrara að lifa úti á landsbyggðinni heldur en hér í Reykjavík. Það kostar því meira fé úr vasa einstaklinganna og fjölskyldnanna að lifa úti á landsbyggðinni heldur en hér í Reykjavík. Þarf það mál alveg sérstaka athugun að minni hyggju.

Það mætti tala langt mál um það sem hefur verið að gerast og er að gerast í Reykjavík og er raunverulega landsmál. Þar eru menntastofnanir af öllu tagi, og þeir, sem eiga heima hér í Reykjavík og grenndinni, hafa þess vegna aðstöðu til þess að sækja hér menntastofnanir af öllu tagi heiman frá sér. Það er kunnara mál en svo, að það þurfi upp að telja, og það eru mjög margar stofnanir í Reykjavík sem ern byggðar upp fyrir landsfé, eins og t. d. Háskólinn, ýmsir sérskólar, eins og t. d. Stýrimannaskólinn og Vélstjóraskólinn, tækniskólar og fjölmargir fleiri. Þar eru stofnanir eins og t. d. Þjóðleikhúsið, svo tekið sé dæmi, og alls kyns möguleikar á sviði listnáms fyrir unga fólkið: hljómlistarskólar, leikskólar, myndlistaskólar, listdansskólar o. s. frv., sem unga fólkið úti á landsbyggðinni hefur engin eða lítil tök á að sækja nema með ærnum kostnaði. Hvað er að segja um heilbrigðisþjónustuna, Landsspítalann og alla heilbrigðisþjónustu ríkisins hér í Reykjavík, öll söfnin: Þjóðminjasafnið, Landsbókasafnið, stofnanir eins og Handritastofnunina o. s. frv., að ég ekki tali um Stjórnarráðið og allt sem því fylgir? Það er auðvitað gífurlegt fjármagn sem rennur úr ríkiskassanum einmitt til Reykjavíkur í gegnum uppbyggingu alls konar stofnana hér í borginni. Og það er mikil atvinna sem þetta fjármagn veitir einmitt íbúum þessa staðar. Það er gífurlegt fjármagn sem rennur úr ríkiskassanum til þess að greiða laun öllum þeim mikla fjölda embættismanna sem er staðsettur hér í Reykjavík og aðrir staðir og aðrir landshlutar njóta ekki. Það er svo algert sérmál að ræða t. d. um verslunina og uppbyggingu hennar sem ég álít að sé allt of mikil hér í Reykjavík og allt of mörg fyrirtæki sem vinna t. d. að heildsöluverslun hér í Reykjavík, — allt of mörg fyrirtæki, mættu vera miklu, miklu færri.

Þetta er aðeins að drepa á nokkur atriði. Þess er þó skylt að geta, að þessar stofnanir þjóna auðvitað landsbyggðinni jöfnum höndum, stofnanir eins og Háskólinn og sérskólarnir og heilbrigðiskerfið hér í Reykjavík. Auðvitað þjónar þetta landsbyggðinni. En það er staðreynd að þetta er hér á þessum stað og íbúar hans njóta þess í ýmsum efnum, þannig að ég tek ekki undir það að reykvíkingar hafi verið hlunnfarnir að neinu leyti á undanförnum árum.

Ef litið er til lánveitinga, annarra en þeirra sem ég hef gert að umtalsefni úr Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði, má geta þess að þær hafa verið í talsvert ríkum mæli til Reykjavíkur. Ef litið er t. d. á Framkvæmdasjóð, þá hefur hann lánað beint til nokkurra aðila. Það er þó lítið á hverju ári, ég held að það sé 150 millj. kr. sem ætlaðar eru til þess á fjárhagsáætlun þessa árs. En á árunum 1972–75 hefur hann lánað beint á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðið rétt um 130 millj., en til alls landsins að auki um 115 milljónir. Árin 1971–1974 hefur Byggingarsjóður ríkisins lánað til Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins 70–80% af því fjármagni sem hann hefur yfir að ráða, en það er gífurlega mikið fjármagn, en til alls landsins aðeins 20–30%. Á árunum 1971–1975 hefur Iðnlánasjóður lánað til Reykjavíkur- og Reykjanessvæðisins 74.34%, en til annarra landshluta 25.66%. Á árunum 1970–1976 hefur Iðnþróunarsjóður lánað til Reykjavíkur- og Reykjanessvæðisins 61.7% og til landsins að öðru leyti 38.3%. Til viðbótar við þetta eru svo allar bankastofnanirnar í Reykjavík. Allir þjóðbankarnir eru með sínar höfuðstöðvar hér í Reykjavík, og menn hér hafa þess vegna betri aðgang að þeim heldur en menn úti á landsbyggðinni. Yfirleitt er þeim vísað þangað ef þeir leita til aðalstöðvanna hér í Reykjavík. Þeim er vísað til útíbúanna úti um landsbyggðina.

Ég minni á þessa hluti, sem ég hef verið að ræða um, að gefnu tilefni, og tilefnið var í ræðu hv. flm. þessarar till., — ekki til að fara að metast um þessi mál, heldur að gefnu tilefni, og leyfi ég mér að hafa þá ákveðnu skoðun, að það hafi alls ekki verið seinna vænna að stofna öflugan Byggðasjóð hér í landinu til þess að reyna að koma í veg fyrir frekari byggðaröskun en verið hefur. Þetta er ekkert einsdæmi hjá okkur íslendingum. Þetta hafa flestallar þjóðir gert, t. d. nágrannar okkar norðmenn. Þeir hafa öflugan byggðasjóð, sem heitir Distrikternes utbyggningsfond og er öflugur sjóður, hefur lánað mjög mikið til landsbyggðarinnar í Noregi. Það eru ýmsar alþjóðastofnanir, sem hafa sett á fót eins konar byggðasjóði, svo og flest ríki, sem hafa átt við þennan vanda að stríða. Það er siður en svo að við íslendingar séum þeir einu sem höfum átt við þann vanda að stríða að byggðaröskun hafi átt sér stað í stórum stíl. Svo er um flestallar þjóðir a. m. k. í kringum okkur.

Hvaða áhrif hefur starfsemi Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunarinnar haft á atvinnu- og byggðaþróun í landinu? Það er auðvitað erfitt að greina það, hvaða áhrif þessi starfsemi hefur haft, vegna þess að hún er aðeins líður í margháttuðum og flóknum ráðstöfunum og starfsemi sem snertir uppbyggingu atvinnulífs og framþróun. Ég held þó að það sé óhætt að fullyrða að starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hafi haft talsvert afgerandi áhrif á uppbyggingu ýmissa staða og ýmissa landshluta til góðs. Nægir í því efni að benda á að eftir að Byggðasjóður hafði starfað í nokkur ár, þá gerðist það m. a. fyrir tilverknað Byggðasjóðs, en sjálfsagt hefur þar fleira komið til, að það varð breyting á búsetu í landinu. Árið 1974, 3 árum eftir að Byggðasjóður tók til starfa, gerðist það í fyrsta sinn að fólksfjölgun varð meiri úti um landsbyggðina heldur en á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Það er enginn vafi á því að starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hefur haft jákvæð áhrif í þessa átt, þó að, eins og ég sagði áður margt fleira kæmi til.

Hér er í raun og veru ekki um það að ræða að það sé keppikefli af hálfu neins aðila að ráðast að Reykjavík og þróun Reykjavíkur. Reykjavík á að stækka, en hún á að stækka af sjálfu sér fyrst og fremst, en ekki af því að fólk flytjist annars staðar frá inn í Reykjavík og auki á það misræmi í búsetu sem hefur verið vaxandi á undanförnum áratugum.

Það er ástæða til að nefna það að þeir, sem ferðast mikið um landið og hafa gert á undanförnum árum, hafa orðið varir við mikil umskipti víða á landsbyggðinni, geysilega mikil umskipti, jákvæð umskipti. Byggðarlög, sem áttu mjög í vök að verjast, — mætti nefna mörg í því sambandi, — standa nú styrkar og fólkið er þar bjartsýnna en áður á framtíðina og tilevru staðarins. Ég álít að það sé m. a. fyrir það mikla fjármagn sem hefur verið beint til uppbyggingar, sérstaklega atvinnuuppbyggingar á þessum stöðum í gegnum Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð.

Það vaknar auðvitað sú spurning í þessum efnum hvort það hefði verið skynsamlegra að láta þessi mál lönd og leið, láta hreinlega skeika að sköpuðu í þessum efnum, spyrna ekkert við fótum og láta, byggðunum úti um landið halda áfram að blæða út. Það var ekki svo langt í það að íslendingar hefðu safnast saman langflestir hér á suðvesturhornið og tilvera margra byggða í raun á bláþræði og mátti ekkert út af bera til þess að þær drægjust meira saman og fólk héldi áfram að flytja þaðan burtu. En fólksflutningar í landinu kosta mikið fjármagn, menn yfirgefa eignir og það verður að byggja bæði yfir íbúa að nýju og einnig þjónustuaðstöðu annars staðar. Það þyrfti t. d. að byggja nokkra skóla á nýjum búsetustöðum fólks og þjónustumiðstöðvar. Það er fróðlegt að athuga hvað hefði t. d. kostað að byggja yfir íbúa ýmissa staða ef miðað er við 7 millj. kr. íbúð á fjölskyldu. Og það er engin fjarstæða að velta þessu fyrir sér vegna þess að margir staðir bjuggu við það ástand fyrir örfáum árum að þeir stóðu frammi fyrir því að byggðin legðist niður hreinlega. Þannig var víða háttað. Svo að ég taki dæmi af handahófi, þá hefði t. d. kostað 665 millj. að byggja yfir íbúa Raufarhafnar, Seyðisfjarðar 1470 millj., Súðavíkur 420 millj., og mörg fleiri dæmi mætti taka. Það er enginn efi á því að ef ekki hefði komið til blóðgjöf í atvinnulíf og uppbyggingu á landsbyggðinni, m. a. með stofnun Byggðasjóðs, hefðu mörg byggðarlög beinlínis þornað upp, því að tilvera margra þeirra hékk, eins og ég hef tekið fram, á bláþræði. En það hefur orðið á veruleg breyting til batnaðar.

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðina og fyrir efnahag þjóðarinnar að dreifa búsetu manna um landsbyggðina með tilliti til þess að nýta mestu auðlindir þjóðarinnar. Mestu auðlindir þjóðarinnar eru í sjónum umhverfis allt landið, og það er afar erfitt að nýta þær nema fólk búi sem víðast á landinu. Ef litið er á hagnýtingu fiskaflans í einstökum landshlutum árið 1975, þá kemur á daginn að framleiðsla Reykjanessvæðisins nemur 224 500 smálestum, en annarra landshluta 764 200 smálestum, og gefur nokkra hugmynd um hvað er að ske í okkar atvinnumálum og hvað það er sem stendur hvað traustast undir okkar viðskiptum við aðrar þjóðir í gegnum útflutning sjávarafurða. Þessar tölur tala raunverulega mjög skýru máli um hina gífurlega þýðingu landsbyggðarinnar fyrir sjávarútveginn. Til viðbótar við þetta kemur svo öll framleiðsla landbúnaðarins eins og hún leggur sig. En það hefur sýnt sig að einmitt efling ýmissa byggðarkjarna víðs vegar um landið hefur áhrif á landbúnaðinn og uppbyggingu hans. Hann byggist út frá þessum kjörnum og styrkist þannig að þetta helst allt saman í hendur.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé allri þjóðinni fyrir bestu og ekkert síður reykvíkingum en öðrum að byggja allt landið og leggja á það áherslu og verja til þess fjármagni.

Það mætti ræða nokkuð um þann þátt í starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar sem snertir áætlanagerð. Ég hef gert það áður hér á Alþ. og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um það nú. En ég vil láta það koma fram að lokum, að ég tel að einn þýðingarmesti þátturinn, eitt af þýðingarmestu málunum sem núv. ríkisstj. tók upp í sinn málefnasamning, hafi verið að efla stórkostlega Byggðasjóðinn, en hann hefur verið stórkostlega efldur eins og kunnugt er. Árið 1975 var varið til Byggðasjóðs 830 millj. kr. á fjárl., árið 1976 voru þetta 1120 millj. og á þessu ári 1630 millj. Hér er um að ræða mikið fjármagn, og ég skal vera fyrstur manna til þess að viðurkenna að það þarf auðvitað að verja þessu fé á sem skynsamlegastan hátt. Það er þýðingarmikið. En á það er lögð áhersla að nota þetta fjármagn og verja því einmitt til uppbyggingar í atvinnulífinu til þess að efla byggðirnar, til þess að stöðva byggðaröskunina og til að efla atvinnulífið í landinu, útflutningsstarfsemina og skjóta sterkari stoðum undir efnahagslíf þjóðarinnar.