01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

83. mál, dreifikerfi sjónvarps

Flm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Í nóv. í vetur leyfðum við okkur að flytja till. til þál., við Þorleifur K. Kristmundsson, Guðrún Benediktsdóttir og Ólafur Þ. Þórðarson, um dreifikerfi sjónvarps. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um það, að 10% af afnotagjöldum sjónvarps verði varið til uppbyggingar á dreifikerfi sjónvarpsins þannig að skilyrði verði sköpuð til viðtöku sjónvarpsefnis á sem allra flestum heimilum í landinu og einnig á þeim fiskimiðum þar sem það er unnt með viðráðanlegum kostnaði.“ Í grg. sögðum við m. a.:

„Þegar sjónvarpsrekstur íslendinga hófst var hafist handa um myndarlega uppbyggingu dreifikerfis um landið. Framkvæmdir þessar voru fjármagnaðar þannig að til þeirra var varið innflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum. Þetta gaf góða raun og framkvæmdahraðinn var mjög góður. Þegar sjónvarpstæki voru komin á allan þorra heimila í landinu hvarf að mestu leyti sá tekjustofn er staðíð hafði undir uppbyggingunni.

Þegar uppbygging dreifikerfisins stöðvaðist höfðu þó ekki verið sköpuð skilyrði til viðtöku sjónvarpsefnis í nokkrum byggðarlögum.“

Samkv. nýjustu og haldbestu upplýsingum munu það vera um 400 sveitabæir sem ekki hafa skilyrði til þess að njóta sjónvarps. Kostnaður við nýjar stöðvar fyrir 50 notendur eða fleiri er um 110–120 millj.

Þá er fjallað um það að ekki þurfi að fjölyrða um hvílíkt réttlætismál það sé að skapa landsmönnum sem jafnasta möguleika til þess að njóta þessa fjölmiðils sem í ýmsum tilfellum er veigamikið menningartæki. Það er skylda ríkis og ríkisfyrirtækja að skapa þegnunum öllum sem jafnasta lífsaðstöðu í hvívetna og þetta er einn þáttur þessa máls.

Að sjálfsögðu er þetta nokkuð kostnaðarsamt verkefni og nauðsynlegt að tryggja til verksins traustan tekjustofn. Innheimt afnotagjöld 1976 voru um 575 millj., og okkur þykja 10% af þeirri upphæð nokkuð eðlileg fjárhæð til þess að verja til uppbyggingar dreifikerfisins. Við töldum enn fremur að ekki þyrfti mjög að hækka sjónvarpsafnotagjöld þó að sú leið yrði farin sem við bentum á. Sjónvarpsafnotagjöld eru ekki mjög há, t. d. miðað við áskrift að dagblöðum. Við litum svo á að það mætti að skaðlausu spara nokkuð á sumum líðum í sjónvarpsrekstrinum.

Það hafa verið fluttar fjöldamargar till. um það á undanförnum þingum hvernig ljúka megi þessu verkefni, að koma sjónvarpi til allra landsmanna, en þær hafa ekki náð fram að ganga þrátt fyrir það að alþm. hafi yfirleitt verið mjög ljós nauðsynin á framkvæmd verksins. Nú hafa liðið 3 ár án þess að nokkuð hafi verið framkvæmt til þess að koma sjónvarpsefni til þeirra landsmanna sem ekki hafa aðstöðu til að veita því viðtöku, og það er ekki vansalaust.

Við töldum að sú leið, sem við bentum á, væri eðlilegri en að verja til þess gjaldeyri að heimila innflutning litsjónvarpstækja í því trausti að tolltekjur af þeim gætu staðið undir því að koma dreifikerfi um allt land. En þeir, sem hafa ríkið og máttinn, hafa síðan þessi till. var lögð fram ákveðið að gefa frjálsan innflutning litsjónvarpstækja, og vænta þeir þess að tolltekjur af sölu þeirra, þ. e. a. s. 23.44% af hverju tæki, komi til með að standa undir fjárfestingu í sjónvarpsstöðinni sjálfri og endurbótum á dreifikerfinu, og ef gæfan væri sjónvarpslausa sveitafólkinu hliðholl og tolltekjurnar ríflegar, þá nægðu þær til þess enn fremur að byggja nýjar endurvarpsstöðvar. Skýrslur hafa verið samdar um málið, sú fyrsta af Pétri Guðfinnssyni og Herði Frímannssyni í Sjónvarpinu. Síðan var byggð á þeirri skýrslu önnur skýrsla sem mþn. skipuð af menntmrh. samdi, og í þeirri n. voru hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Sverrir Hermannsson og Ingi Tryggvason. Þeir skírðu skýrslu sína fallegu nafni, því að hún heitir: Sjónvarp til allra landsmanna. En mér finnst það minna mig nokkuð á fuglana tvo í skóginum fyrir þessi 400 heimili. En fuglinn, sem kom í höndina, eru hins vegar þessi 17.88% af verði litsjónvarpstækjanna sem verslunin fær, 40–50 eða jafnvel 60 þús. á hvert selt tæki, og verslunin hefur sannarlega fengið viljann sinn. Mér finnst að þetta sé mjög fjárfrek leið, og er hún seinlegri en sú sem við hentum á, að marka tekjustofn af afnotagjöldunum, og líklega verður endirinn sá að það verður að fara þá leið líka.

Við bentum á sparnað sem koma mætti við á því stóra búi Sjónvarpsins. Samkv. fjárl. 1977 ern laun, sem Sjónvarpinu er ætlað að greiða, 400 millj., önnur rekstrargjöld hjá Sjónvarpinu eiga að verða 268 millj. og gjöldin samtals því 880 millj. Þetta er áætlunin fyrir 1977, og þá sjá menn að þetta er stórt bú. Til samanburðar má rifja það upp að áætlað er að laun hjá hljóðvarpinu verði 314 millj. og heildarkostnaður við hljóðvarpíð 635 millj. Laun þm. eru áætluð 165 millj. og heildarkostnaður vegna Alþingis áætlaður 434 millj. og þar með er þessi stofnun ekki hálfdrættingur á móti Sjónvarpinu.

Það er kannske að hætta sér út á hálan ís að fara að benda á einhver sérstök atriði á þessu stóra búi sem gætu orðið til sparnaðar þannig að einhverju munaði. En ég mun til að sýna lit á því nefna örfá atriði sem mér detta í hug í fljótu bragði.

Það mætti ímynda sér að hægt væri að fækka þarna starfsfólki að einhverju marki. Kynning dagskrárefnis mun vera með nokkuð öðrum hætti í þessu sjónvarpi heldur en í nágrannalöndunum. Þar er ekki verið að fá fallegar stúlkur til þess að kynna dagskrárefnið, heldur er það bara gert með ritvélaborða sem brugðið er upp. Það mætti ímynda sér að einn fluglæs fréttamaður gæti komist yfir að lesa fréttirnar á hverju kvöldi, og það mætti ímynda sér að fréttamaður gæti líka komist fram úr veðurfréttunum. Það mætti láta sér detta í hug að ekki væri mikils misst í öllum tilfellum þó að útsendingartími væri nokkuð styttur, t. d. á sunnudögum, eða styttur útsendingartími á sumrin. Sjónvarpsmenn gerðu verkfall í haust. Ég hygg að það hafi ekki valdið verulegri óánægju eða röskun á háttum landsmanna þótt sjónvarpsmenn mættu ekki til vinnu í nokkra daga og þjóðfélagið hafi borið sitt barr eftir það. Það er hægt að benda á ýmislegt af því skemmtiefni, sem sjónvarpið hefur látið gera, sem er bæði dýrt og jafnvel misheppnað. Bæði á þetta við um skemmtiþætti og eins á þetta við um leiklistarþætti, leikrit sem hafa sum verið mislukkuð, þó að margt hafi þarna verið vel gert og ekki megi skilja orð mín svo að ég telji ekki margt af þessu eftirsjárvert.

Endurflutningur sjónvarpsefnis er ótrúlega dýrkeyptur samkv. núgildandi samningum, og ég trúi ekki öðru en það væri allra hagur að breyta þeim. Svo má líka hugsa sér vinnuhagræðingu þarna á annan hátt. Það er ákaflega mikið álag á þessa starfsmenn og mætti hugsa sér að yfirvinna gæti orðið minni.

Ég hef undir höndum skriflegt svar við fsp. frá hv. þm. Oddi Ólafssyni. Þetta svar er frá fjmrh. um yfirvinnu í sjónvarpi 1974, en þá var hún 55% af launagreiðslum. Ég held að þetta hlutfall ætti að geta minnkað með styttum útsendingartíma og bættum skipulagsháttum, jafnvel þó að starfsfólkinu væri eitthvað fækkað. Það mætti hugleiða atriði eins og sameiginlega fréttastofu útvarps og sjónvarps og svona mætti lengi telja, en ég læt hér staðar numið.

Ég óska eftir því að umr. verði frestað hér í dag og allshn. fái till. til athugunar. Ég treysti formanni n., hv. þm. Ellert B. Schram, sem vill nú svo vel til að er varaformaður útvarpsráðs, til þess að fallast á þetta sjónarmið okkar þegar hann er búinn að athuga það vandlega. En ef svo ólíklega vildi til að hann féllist ekki á það og till. næði ekki fram að ganga og tolltekjunum af litsjónvarpstækjunum yrði ekki varið til verulegra framkvæmda við nýbyggingu stöðva í sumar, þá er ég vís til þess að hreyfa þessu máli aftur á næsta þingi.