03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í tilefni þeirra umr., sem hér hafa orðið um till. um fiskimjölsverksmiðju í Grindavík og orðið hafa að öðrum þræði nokkuð almenns eðlis, vil ég láta örfá orð falla.

Ég minni á till. sem allir þm. Vesturl. fluttu fyrir tveim árum um byggingu fiskimjölsverksmiðju á Snæfellsnesi. Sú till. var samþ. á sínum tíma og liggur fyrir þál. um það efni, viljayfirlýsing frá hv. Alþ. Ég þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir vinsamleg orð sem hann lét falla um þetta mál, taldi nauðsynlegt að þessu máli yrði sinnt á Snæfellsnesi, sem ég held að hljóti líka að liggja í augum uppi. Á Snæfellsnesi eru að vísu nokkrir gamlir rokkar, sem eru við það að blása út, ef svo má segja, og eiga að sinna þessum verkefnum, en eru orðnir svo langt á eftir tímanum að til stórvandræða horfir. Það er því brýnt hagsmunamál snæfellinga og ég fullyrði alþjóðar að ráða fram úr þeim vanda sem þarna hefur skapast. Það er vitað að úti fyrir Snæfellsnesi og Vesturlandi eru ein fengsælustu loðnumið landsins. Ekki þarf að kvarta yfir því að þessi till. til þál. hafi ekki hlotið vinsamleg ummæli allra þeirra sem um hana hafa rætt. Ég vil aðeins af þessu tilefni minna á þessa þál. Ég veit að að þessu máli er unnið, og ég treysti á og vona og veit að sú n., sem hæstv. ráðh. minntist á og nú athugar þessi mál umhverfis allt land, muni leggja því máli, sem ég nefndi, fyllsta lið í samvinnu við heimamenn á Snæfellsnesi.