03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessum umr. Ég ætla á engan hátt að fara að andmæla þeirri þáltill. sem hér er til umr. Það er nokkuð ljóst að það þarf mjög að bæta aðstöðu í landi til þess að hægt sé að hagnýta þann afla sem líkur eru á að hægt sé að ná.

En það hefur nokkuð spunnist inn í þessar umr. að til þessa vantaði fjármagn, og auðvitað er það rétt. Það verður ekki gert nema með fjármagni. En það virðist ekki vanta fjármagn til annarra hluta. Það er ekki svo að sjá. Það virðist ekki skorta fjármagn til verksmiðjubyggingar t. d. á Grundartanga upp á nokkrar þúsundir milljóna. Þá virðist vera nægilegt fjármagn til að standa straum af slíkum framkvæmdum. Og það virðist vera nægilegt fjármagn til að vinna við Kröflu. Þar skortir ekkert fjármagn. Þarna eru tvær risaframkvæmdir á ferðinni sem ekki er að sjá að nokkurn tíma hafi skort fjármagn til framkvæmda. En svo þegar komið er að hlutum sem snerta sjávarútveginn, undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, þá koma alltaf upp þessar raddir: Það er ekki hægt að gera allt í einu. Það verður eitthvað að bíða. — Með þessu tali eru menn að gefa í skyn að uppbygging aðstöðu í landi til þess að vinna þann afla, sem úr sjónum fæst, verði að bíða svo að Grundartangi og Krafla, svo ekki sé fleira nefnt, geti gengið fyrir.

Ég held að það sé tími til kominn að menn fari að velta því frekar fyrir sér hvort það er ekki meiri nauðsyn á uppbyggingu á öðrum sviðum heldur en t. d. er á Grundartanga og víðar, sé ekki meiri nauðsyn á annarri uppbyggingu og þarflegri. Það er ekki að sjá að þjóðhagsleg sjónarmið ráði hjá þeim sem nú ráða ferðinni, þjóðarhagur ráði framkvæmdaröðuninni. Það hefur verið minnst hér á Þórshöfn þar sem ekki er talið vanta nema um 60–70 millj. til þess að hægt sé að nýta atvinnutæki sem er þar fyrir hendi, og mér skildist á hv. 3. þm. Norðurl. e. að þetta fjármagn fengist ekki. Hér er þó verið að tala um að byggja verksmiðju sem afkastar um 1000 tonnum á sólarhring og muni kosta 1400–1600 millj. kr. Er líklegt að það fáist þegar þeim hörkutólum á Norðurlandi eystra er neitað um 60–70 millj.? Ég spyr.

Ég gerði grein fyrir því hér í umr. fyrr í vetur að á Bolungarvík er verið að stækka loðnuverksmiðju um helming, sem á þá að afkasta um 500 tonnum á sólarhring. Til þess þarf 240–260 millj. Mér er ekki um það kunnugt að það hafi verið gefið endanlegt vilyrði fyrir fjármagni til þeirra framkvæmda. Þá verksmiðju, sem er fyrir hendi, er þó verið að stækka og Bolungarvík liggur hvað best við þeim nýju miðum sem fundust á s. l. sumri. Þar er að vísu einkaframtakið sem um er að ræða, það er kannske skortur vegna þess.

Ég vil sem sagt undirstrika það, að því miður virðist vera meiri vilji fyrir því hjá núv. valdhöfum að greiða götu annars konar uppbyggingar heldur en í sambandi við sjávarútveginn. Meðan fjármagni á að verja til þeirra framkvæmda sem ég nefndi hér áðan, Grundartanga, Kröflu og annarra slíkra, meðan ekkert er sparað eða í haldið í þeim efnum, þá er vart hægt að búast við því að ég eða aðrir trúi því að ekki sé hægt að gera meira en raunverulega hefur verið gert og á að gera í sambandi við þá uppbyggingu sem fyrst og fremst snertir grundvallaratvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn og fiskvinnsluna. Það er erfitt að fá mig til að trúa slíkum fullyrðingum þegar við sjáum dæmin fyrir okkur víða á öðrum sviðum.