17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

89. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í þágu áfengisvarna

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að þm. allir viti að ég er ekki bindindismaður, hef ekki verið það og geri vart ráð fyrir að ég fari að breyta um stefnu í þeim málum, úr því sem komið er. Hins vegar vil ég láta það koma fram hér, að ég er eindregið samþykkur þeirri till , sem hér er lögð fram, og tel hana stefna í rétta átt í þessu máli.

Eitt kom fram hjá hv. frsm. till. varðandi framkvæmd málsins að því er varðar fræðslu í skólum. Hún taldi að sú fræðsla ætti að innast af hendi af kennurum viðkomandi skóla. En ég tel að það mál þurfi að athuga miklu betur. Við vitum það öll að kennarar eru eins og aðrir menn, misjafnir, og í þessum málum hafa þeir misjafnan áhuga. Ég tel að það þurfi að koma þar aðrir aðilar til utan skólans, til að veita þá fræðslu sem nauðsynlegt er að veita í sambandi við áfengismál.

Hv. frsm. benti á það réttilega, að í 31. gr. áfengislaga, sem í gildi eru, er gert ráð fyrir þeirri fræðslu sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir. En úr framkvæmdum í samræmi við gildandi lög hefur, eins og hún sagði réttilega, ekki orðið. Ég tel að það sé e. t. v. það alvarlegasta hjá okkur í þessum málum, að ekki hefur örlað neitt á því að þau ákvæði um fræðslu, sem á að framkvæma, hafi komið til framkvæmda. Það vill þannig til, að ég get talað af nokkurri reynslu að því er varðar fræðslu um neyslu áfengis, því að fyrir 30–10 árum var ég í skóla erlendis, í Danmörku, og þá skeði það nokkurn veginn í upphafi skólatímabilsins að sú bekkjardeild, sem ég var í var kölluð inn í hátíðarsal skólans og okkur tilkynnt að þar ætti að halda fyrirlestur um ofneyslu áfengis. Þar var ekki neinn kennari skólans, heldur var þar kominn yfirlæknir við eitt af geðsjúkrahúsunum í Danmörku, og undir hann heyrði sérstaklega sú deild þar sem áfengissjúklingar höfðu endað æviskeið sitt, eins og hann sagði, orðnir ólæknandi vegna ofneyslu áfengis. Hann tilkynnti það í byrjun, að hann væri ekki bindindismaður og í landi eins og Danmörku, þar sem vín væri selt svo að segja á hverju götuhorni hlyti það að vera matsatriði hjá hverjum einstaklingi hvort hann vildi neyta áfengis eða verða bindindismaður. En hann gerði annað sem verkaði þannig á mig að ég man enn í dag margar setningar úr fyrirlestri hans. Hann sýndi okkur mynd af mönnum sem höfðu lent í því að verða áfenginu að bráð, rakti sögu þeirra í myndum og útskýrði fyrir okkur hvernig færi ef menn réðu ekki við það að meðhöndla áfengi eins og best væri, án þess þó að vera bindindismenn. Það, sem hann sagði valda því að menn gerðust ofdrykkjumenn, var að þeir drykkju meira en einn dag í röð. Hann sagði að manni, sem neytir áfengis kannske við viss tækifæri, lætur það síðan vera á milli, væri yfirleitt ekki hætt við að verða áfenginu að bráð. Aðeins þeim, sem hefðu ekki þrek til þess að neita sér um áfengi daginn eftir að þeir hefðu drukkið það, væri hætta búin. Það var einmitt þess vegna sem þeir enduðu á þeirri stofnun sem hann var að lýsa fyrir okkur og sýndi okkur kvikmyndir af hvernig ástandið væri þar.

Ég verð að játa að óhugnanlegt var að horfa á þessa kvikmynd, og þær látlausu útskýringar, sem hann hafði við myndina, hlutu að verka á hvern þann sem hlustaði á. Hann gerði okkur alveg ljóst að það væri á okkar valdi einna, hvaða stefnu við tækjum í þessum málum eftir að við hefðum fengið að heyra og sjá það sem hann sagði okkur. Hver einasti nemandi, sem á þetta hlustaði, hlaut að gera sér það ljóst, að ef hann leyfði sér að misnota áfengi, eins og sagt er, drekka meira en einn dag í röð, þá þyrfti mikil átök — átök sem hann sagði að því miður allt of fáir hefðu styrk til — til þess að verða ekki áfenginu hreinlega að bráð.

Ég tel því að það þurfi að taka upp breytta stefnu í þessu máli og að þetta eigi að framkvæma á annan hátt en kom fram í framsögu hv. frsm., hv. 9. landsk. þm., að það eigi ekki að fela kennurunum í skólunum þá fræðslu sem þar á fram að fara, heldur eigi að fá til þess viðurkennda lækna sem geta rakið og sýnt bæði með myndum og á annan hátt þá skaðsemi sem áfengið veldur mönnum ef þeir hafa ekki á því hemil. Ef öllu ungu fólki er gert þetta ljóst á þennan hátt og það hefur það á tilfinningunni og veit að það er alveg á þess valdi, hvaða stefnu það tekur varðandi misnotkun áfengis, þá eru minni líkur fyrir að það verði áfenginu endanlega að bráð. Ég hygg að ef þannig væri að staðið, þá væri það mjög gott veganesti fyrir alla unglinga, sem í skólum eru, og yrði þeim örugglega til mikillar umhugsunar og uppfræðslu, miklu meira en þó að kennarar væru vissan tíma í viku eða mánuði að stagla um áfengismál, kannske með mismunandi miklum áhuga. Ég tel einnig, eins og 2. töluliður þessarar till. gerir ráð fyrir, að ef slíkir fyrirlestrar væru fluttir og sýndar myndir í sjónvarpi, þá mundi það vissulega hafa miklu meiri áhrif en sú fræðsla sem hingað til hefur verið veitt um þessi mál.

Það, sem ég hef alltaf fundið að í sambandi við allt tal um áfengismál frá hendi þeirra aðila sem eru bindindismenn og vilja þessu máli svo sannarlega vel, eru þær öfgar sem yfirleitt hafa komið fram í öllum umr. frá þeirra hendi um þessi mál. Það þýðir ekki fyrir okkur að vera að reyna að ætla að bannfæra áfengið. Við vitum að áfengi verður ekki útilokað hér á landi né sennilega annars staðar. Jafnvel þó það væri sett hér á áfengisbann, þá mundi áfengið fljóta eftir ýmsum leiðum inn í landið, hjá því verður ekki komist. Það er því að mínum dómi fræðslan ein sem getur bjargað í þessum málum. Ég tel að þessi till. stefni í alveg rétta átt, en ég tel að það þurfi að koma þarna inn aðilar sem fólkið verulega tekur mark á að sýna mönnum bæði í gegnum sjónvarp og eins unglingum í skólum hver áhrif það hefur ef misnotkun áfengis á sér stað. En boð og bönn, eins og mest hefur borið á undanfarið, held ég að verki jafnvel öfugt við við það sem til er ætlast af þeim aðilum sem áhuga hafa á bindindismálum. Ég tel að þessi boð og bönn og hörðu dómar um náungann verki á allt annan veg en æskilegt er.

Ég hef hlustað á einn ágætan mann, — mann sem ég hef metið einna mest um ævina, — segja, þar sem var fjöldi manns, að hann teldi að enginn einasti maður, sem víns neytti, ætti að vera hlutgengur í nokkrar opinberar stöður, hvorki eiga sæti á Alþ. né gegna nokkru trúnaðarstarfi fyrir hið opinbera, hvorki hjá sveitarstjórnum né ríkinu. Ég tel að slíkar öfgar verki hreinlega öfugt og ef menn, sem annars vilja kannske hugsa um málin, fá ekki annað en slíka hleypidóma og slíka harða dóma, þá verki þetta á allt annan veg en til er ætlast af þeim mönnum sem þó sannarlega vilja þessum málum vel.

Mér finnst vanta eitt atriði inn í þáltill , það sem hv. frsm. aðeins kom að, en það er í sambandi við neyslu fíkniefna. Ég tel að inn í þessa till. mætti einnig koma 3. töluliður sem væri um fræðslu í sambandi við skaðsemi af neyslu fíkniefna. Það mál er að verða ekkert minna vandamál en áfengið og miklu hættulegra ef það nær frekari útbreiðslu. Það hefur verið reynsla annarra þjóða. Við heyrum orðið næsta daglega í fjölmiðlum að fíknidómstóllinn hefur haft til meðferðar aðila sem hafa verið staðnir að því annaðhvort að selja fíkniefni eða að flytja þau inn ólöglega til sölu. Ég tel að einmitt þetta mál sé í samhengi við áfengismálin og að þessi till., sem hér liggur fyrir, mætti einnig gjarnan fjalla um þennan þátt, fíknilyfjaneyslu. En eins og ég sagði tel ég að ef þessi till. verður samþ. væri best að fela ekki endilega kennurum áfengisfræðsluna. Þeir geta vel verið góðir og eru án efa margir góðir og gegnir, en hafa misjafnan áhuga á áfengisvarnamálum. En kennarar eru bæði bindindismenn og ekki bindindismenn, og ég hygg að þegar börn í skólum eru búin að hlusta á kennara sinn dag út, dag inn og kannske ár eftir ár, þá verði miklu áhrifameira að til kæmi einhver nýr aðili sem þau hlytu að taka tillit til. Væri það þekktur starfandi læknir, þá mundu þau taka miklu meira tillit til þess, sem hann segði, heldur en þó að þetta væri tekið inn í hið almenna fræðslukerfi í skólum landsins.