17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

139. mál, lausaskuldir bænda

Flm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Ég vil gera örstutta aths. Það er vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni. Hann vitnaði til fyrirgreiðslu, sem drepið er á í grg. með till. minni, um vaxta- og afborganafrestinn sem veittur var við Stofnlánadeildina árið 1971. Þannig var að árið 1971 var ráðist í að gera þetta. Þá var góðæri, en þetta var náttúrlega vegna skulda sem myndast höfðu á erfiðum árum þar á undan. Það var verið að hjálpa mönnum við að komast á réttan kjöl. Stofnlánadeildin fékk 10 millj. kr. árið 1971 og 5 millj. árin 1972 og 1973, 5 millj. hvort ár, til þess að hjálpa þessum mönnum eða umlíða þá þessi ár. Stéttarsambandið athugaði hvernig þeim hefði vegnað, og það er ótrúlegt hvað þetta virtist koma að miklu gagni. Yfirleitt heppnaðist það í langflestum tilfellum. Þetta sannar að svona fyrirgreiðsla getur átt rétt á sér. Svona fyrirgreiðsla á náttúrlega ekki rétt á sér æ ofan í æ, og menn geta ekki farið að reikna með því að fá svona fyrirgreiðslu annað hvert ár. En hún á rétt á sér í sérstökum tilfellum til þess að hjálpa mönnum að komast á réttan kjöl í trausti þess að þeir kollsigli ekki aftur.