26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég held að það, sem okkur í raun og veru vantar mest í sambandi við okkar stefnu í þessum málum, sé að gera okkur grein fyrir því hvernig við viljum byggja upp okkar atvinnulíf. Það er ekki nægilegt að gera bara umhverfisrannsóknir. Það þarf líka að gera rannsóknir á því hvers konar félagsleg og atvinnuleg röskun verður t.d. í ekki stærra byggðarlagi en Eyjafjörður er ef svona verksmiðja eins og þessi álbræðsla er fyrirhuguð væri reist þar. Það er ekki nóg að taka einn þátt inn, það verður að taka aðra þætti líka til skoðunar áður en að ákvörðunartöku kemur. Ég hef fyrir mitt leyti alls ekki neitt við það að athuga þó að þetta sé raunsakað og kannað. En ég hef enga trú á því að svona verksmiðja verði nokkurn tíma byggð við Eyjafjörð, — hef ekki nokkra trú á því.

Ég var í hópi þeirra sem gengu um iðnaðarfyrirtæki á Akureyri s.l. föstudag, og ég spurði alls staðar sömu spurninga: Er nóg fólk hér — er nóg vinnuafl? Það var aðeins í einum stað sem ég fékk það svar að það mætti heita að það væri nóg vinnuafl. Sem sagt, eins og stendur á Akureyri, þá vantar alls staðar fólk í iðnaðinn. Ég held því að umr. um þessi mál þurfi fyrst og fremst að fara þannig fram, hvað henti okkur á hverjum og einum stað miðað við það fámenni sem er í okkar landi og miðað við þá stefnu að við viljum byggja allt landið. Eigum við ekki frekar að færa iðnaðinn til fólksins heldur en að færa fólkið að iðnaðinum? Og þá eru þessar einingar, sem þarna er verið að hugsa um, hvað sem um mengunarhættu er að ræða sem ég vil ekkert fullyrða um, — þá er þetta nokkuð stórt.