22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er raunar þyngra en tárum taki að hlusta á þá harms- og raunasögu, sem hér hefur verið rakin í dag, og hugsa til þeirrar hörmulegu þróunar sem átt hefur sér stað í sambandi við fjárveitingar, framkvæmdir og meðferð alla á vegamálum í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Og eins og var vikið að áðan, þá hlýtur að vera hugsað til baka, aftur í tímann til ársins 1974, vorsins 1974, þegar hin fríða og fagra sveit hinna hreinu engla úr þáv. þingliði Sjálfstfl. barðist hér um á hæl og hnakka í gagnrýni og aftur gagnrýni á það, hversu litlu fjármagni ætti að verja þá til framkvæmda í vegáætlun fyrir það ár. Þetta hefur hér verið rifjað upp og ekki að ástæðulausu, því að það hlýtur að vera mönnum í fersku minni hversu mikil ósköp þá gengu á hjá þessum hv. þm. Allt ætlaði af göflum að ganga vegna þess sem þeir töldu hina hörmulegu frammistöðu þáv. hæstv. ríkisstj. varðandi framkvæmdir í vegamálum. Og eins og var vikið að áðan af hv. 11. landsk. þm., Geir Gunnarssyni, var lýst þeirri bjartsýni að þetta yrði eitthvað annað og með öðrum hætti ef Sjálfstfl. kæmist í valdaaðstöðu og gæti haft áhrif á þessar framkvæmdir á komandi árum.

En það er annað hörmulegt í þessu sambandi. Það er hörmulegt til þess að vita að sá öndvegismaður, hæstv. samgrh., einn af máttarstólpum þess flokks hér á landi sem markað hefur í orði hvað mest allt tal um byggðastefnu, — þessi hæstv. ráðh. skuli verða til þess að stjórna þeirri hörmulegu þróun, sem hér hefur átt sér stað á árunum 1975 og 1976, og því sem hér er nú lagt til í sambandi við framkvæmdir í vegamálum á árinn 1977. Ég hefði svo sannarlega óskað þess, að hæstv. samgrh. hefði ekki þurft að ganga undir þetta jarðarmen, að teljast höfuðábyrgur fyrir því hver þróun hefur orðið í þessum efnum á undanförnum árum, þó að ég vilji með engum hætti og síður en svo undanskilja ábyrgð þeirra hv. þm. Sjálfstfl. sem styðja núv. ríkisstj. og hafa stutt hana til þeirra verka sem framkvæmd hafa verið varðandi þróunina í vegamálum. Það er kannske tímanna tákn að enginn úr þeirri forustusveit, sem mest hafði sig frammi hér vorið 1974 af þáv. þingliði Sjálfstfl., enginn þeirra sést við umr. um þá vegáætlun sem nú er hér til umr., ekki einu sinni hv. 1. þm. Suðurl., sem hvað lengst gekk í gagnrýninni á sínum tíma vorið 1974. Ég minnist þess ekki að hann hafi vantað við umr. um vegáætlun fyrr en nú. Og það er kannske það tímanna tákn sem takandi er mark á, að nú finnst honum að öllum líkindum, eins og kannske sumum fleirum, best að vera í skugganum af því sem hér er verið að ræða nú.

Eins og hér hefur komið fram áður, þá er þetta þriðja vegáætlun sem lögð er fram af hálfu hæstv. núv. ríkisstj. Hin fyrsta var fyrir árið 1975. Þá var niðurskurðurinn 25%. Þá var að vísu tæpt ár síðan Sjálfstfl. komst í ríkisstj. og kannske fyrirgefanlegt að ríkisstj. hefði ekki tekist umsköpunarverkið, að skapa allt fjármagnið sem þeir töluðu um á vorinu 1974 til aukinna framkvæmda og meiri hraða í vegamálum. En niðurskurðurinn var 25%. Nákvæmlega sama gerðist varðandi framkvæmdir í vegamálum á árinu 1976. Þá var einnig niðurskurður um 25%. Og þá voru komin tæp tvö ár frá því að þeir umsköpunarmeistararnir í Sjálfstfl. tóku við stjórnvelinum og hefðu átt að geta verið búnir að bæta um samkv. eigin kenningu og líklega sannfæringu frá vorinu 1974. En niðurskurðurinn var eigi að síður einnig 25% árið 1976. Og hér er nú í þriðja skiptið lagt til að skera niður nýframkvæmdir í vegum um 30% til viðbótar öllu hinu árin 1975 og 1976.

Það er vissulega þungbært, þó af stjórnarandstæðingum sé, að þurfa að horfa upp á þróun mála með þessum hætti og vera lagt það ok á herðar að búa við slíkt a. m. k. 3–4 ár undir forsjá þeirra sem nú fara með stjórnartaumana í þessum málum. Það voru rakin hér áðan vinnubrögð í sambandi við framlagningu vegáætlana, og ég skal ekki endurtaka það. Það var líka komið inn á það, að kannske væri ein orsökin fyrir því, hversu erfiðlega hefur gengið hjá hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstj. í heild að koma fram þáltill. um vegáætlun, að það hefði verið að endurskoða vegalögin og það mætti fyrirgefa hæstv. ráðh. vegna þess að þeirri endurskoðun lauk ekki fyrr en nú rétt fyrir áramótin 1976 og 1977. En ég held að það skipti engu varðandi þetta mál. Teknanna þurfti að afla eigi að síður, nema þá því aðeins að fyrir fram hafi verið ákveðið að skera niður með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Það er tímanna tákn að í þessari vegáætlun er á árinu 1977 gert ráð fyrir að skera niður í krónutölu frá framkvæmdum ársins 1976. Ég skil ekki hvað hæstv. samgrh. hefur átt við áðan, þegar bann sagði að heildarfjárhæðin á árinu 1977 hefði svipað gildi og sambærilegt við árið 1976. Hér er um hreinan niðurskurð í krónutölu að ræða, og síðan eru allar þær verðhækkanir sem hafa átt sér stað á þessu tímabili, þannig að hreinn niðurskurður varðandi raungildi framkvæmda er í kringum 30% milli þessara ára, 1976 og 1977. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að á árinu 1977 verði varið um 2 milljörðum 260 millj. kr. til nýframkvæmda í vegum, en voru 2 milljarðar 274 millj. árið 1976. Þegar menn hafa fyrir sér staðreyndir af því tagi sem hér er um að ræða, þá er náttúrlega um tómt mál að tala að halda áfram að lemja höfðinn við steininn og halda því fram, að hér sé uppbyggingarhraði í þessum málaflokki, hér sé fullkomin byggðastefna á ferðinni fyrir þá staði sem verst hafa verið settir og eru settir að því er varðar vegakerfið. Að tala um byggðastefnu í orði, en hafa framkvæmdina með þessum hætti á borði er hreint öfugmæli og fær alls ekki staðist, að með neinum hætti sé hægt að flokka þær ákvarðanir og þá stefnu, sem verið hefur í vegamálum, að einu eða neinu leyti undir aukna byggðastefnu.

Það væri auðvitað ástæða til að fara hér út í hina ýmsu þætti þessarar vegáætlunar. Ég ætla þó ekki að gera það á þessu stigi. Það má vera að breytinga megi vænta í meðförunum, þannig að hér komi meira í raun og veru til skipta heldur en vegáætlunin gerir ráð fyrir, þó að ég sé hins vegar vondaufur um það. Á árinu 1976, í þeirri bráðabirgðavegáætlun sem þá var afgreidd eftir að hæstv. ríkisstj. hafði gefist upp við að afgreiða fjögurra ára áætlun eins og lög gerðu ráð fyrir, var varið 1 milljarði 707 millj. til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta. Auk þess voru á þess árs áætlun, 1976, sérstakar áætlanir eins og Austurlandsáætlun, Norðurlandsáætlun, Djúpvegur og Norður- og Austurvegur. Ég hef því miður ekki komist til botns í því enn hvað hugsanlega verður ofan á í sambandi við þessar séráætlanir. Ég heyri ekki betur en um það séu mjög deildar meiningar, ekki síst innan stjórnarliðsins, með hvaða hætti verði farið með þær séráætlanir sem voru í gangi árið 1976 og í sumum tilfellum eru gildandi lög, eins og nú er varðandi t. d. Norður- og Austurveginn. Það er ekki ljóst enn með hvaða hætti verður að þessu staðið. En vonandi skýrist það innan tíðar hvort slá á striki algerlega yfir allar séráætlanir með þeirri breytingu sem gerð var á vegal. á s. l. hausti og eins og hér er gert ráð fyrir í framlagðri vegáætlun eða hvort eitthvert tillit á að taka til þessa. Mér skildist á hæstv. samgrh. áðan að hann teldi nauðsynlegt að taka tillit til þessara áætlana næstu 2–3 árin, þannig að þetta yrði ekki aflagt með einu pennastriki, ef svo má segja, heldur yrði það að hafa aðlögunartíma að strika þetta allt saman út.

En það er athyglisvert, að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. leggur til að skerða raungildi nýframkvæmda í vegum um 30%, þá leggur hún á sama tíma til að hækka verkfræðilega þjónustu um 80%, þ. e. a. s. minni framkvæmdir þýða stórkostlega hækkun á undirbúningi og verkfræðilegri þjónustu. Þetta kemur ekki heim og saman við það sem í mínum huga býr. Ég kem því ekki heim og saman að það sé nauðsynlegt, á sama tíma og lagt er til að minnka framkvæmdir um 30%, að hækka verkfræðilegan undirbúning um 80%, nema þá því aðeins að grundvöllurinn að þessari hækkun sé hin geysilega tæknilega og verkfræðilega þjónustu sem hlýtur að vera samfara þeirri yfirlýsingu hæstv. samgrh., að nú skuli næst byggð brú yfir Ölfusárósa. Ef svo er, þá skil ég ósköp vel að það skuli lagt til að hækka verkfræðilegan undirbúning um 80% á sama tíma og hann ætlar að skera framkvæmdirnar niður um 30%. Þó að enginn tæknimaður sé hér nú að tala, þá sýnist mér líklegt að þetta mikla mannvirki, sem búið er að setja stefnúna á að loknu því ævintýri sem nú er að gerast í Borgarfirði, þurfi allmikinn undirbúning, sérfræðilega þjónustu og tæknilega áður en af framkvæmdum verður. Þannig má skýra þessa hækkun, að ég bygg, að verulegu leyti. Það kemur sem sagt fram eins og rauður þráður í gegnum þetta plagg, sem hér liggur nú fyrir, stórkostlegur niðurskurður á framkvæmdum að ráungildi. En hitt skal viðurkennt, að nokkuð er til hins betra í sambandi við viðhaldið. Það er aukið, þó að það sé víðs fjarri því að vera neitt í námunda við það sem það ætti í raun og veru að vera til þess að hafa fylgt hækkandi tilkostnaði. En það er eigi að síður aukið. Og það er aukið hvað mest á þeim hinum góðu vegum sem hraðbrautasérfræðingar, sérfræðingar bundins slitlags og varanlegrar gatnagerðar, hafa haldið fram hér á þingi ár eftir ár að væri forsenda fyrir því og hin hagkvæma lausn við byggingu vega með bundnu slitlagi væri sú, að þá hyrfi allt viðhald. Nú er hér lagt til að nálægt því ein millj. fari á hvern km til viðhalds vega með bundnu slitlagi. Nú er þetta alveg öfugt orðið allt í einu, miðað við það sem haldið hefur verið fram af spekingunum hér innan þings varðandi hina miklu hagkvæmni í því að framkvæma gatnagerð með varanlegu og bundnu slitlagi, þannig að mér sýnist að ekki hafi vegalagabreytingin orðið til hins betra fyrir hina verr settu að því er þetta ákvæði varðar.

Og svo mun að öllum líkindum verða um fleiri ákvæði vegna þeirrar breytingar sem gerð var á vegalögunum á s. l. hausti.

Það hefur borist í tal hér í umr. og raunar hefur það gerst áður og ekki nema eðlilegt, að hin sérstaka löggjöf um Norður- og Austurveginn hafi verið samþykkt á þeirri forsendu að til þeirrar framkvæmdar kæmi sérstakt aukið fjármagn fyrir utan þetta almenna, en ætti ekki að takast þar af. Nú er allt í einu gert ráð fyrir því að hér verði um að ræða að taka svo og svo stóran hluta, — ég skal enga tölu nefna á þessu stigi, við skulum bíða og sjá hverjar till. koma fram —- en nú er talað um að taka svo og svo stóran hluta af því, sem gert er ráð fyrir að fari í stofnbrautir samkv. vegáætluninni, til Norður- og Austurvegarins, taka af þessu sameiginlega fé, sem er auðvitað algert brot á þeirri hugsun sem á bak við stóð í sambandi við löggjöfina um Norður- og Austurveginn. Það fjármagn, sem þar átti að koma, átti að koma til viðbótar hinu, en ekki taka af því til framkvæmdanna. Væntanlega skýrist þetta eins og allt annað í sambandi við þetta mál. En ég held að það sé nauðsynlegt að menn glöggvi sig á því, að ef það er meiningin að fara á þennan hátt með þetta, að ekki komi til sérstök fjáröflun varðandi Norður- og Austurveginn, þá sé, sjálfsagt að nema þau lög úr gildi þá hafa þau engan tilgang. Og ég veit ekki hvað forsvarsmenn þeirrar löggjafar á sínum tíma mundu segja við slíku. Ég er ansi hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni. (Gripið fram í.) Já, það yrði vart minna, sem þá gengi á heldur en var í sambandi við hrútsmálið á sínum tíma, þannig að það er enginn vafi á því að þar yrði vel tekið til hendi í orði og verki. (Gripið fram í: Hvern á að skjóta?) Ja, ætli það yrðu ekki helst þeir sem leggja til að lögin verði brotin? Ég hygg að það væri réttlætanlegast. Og hv. þm. Páll Pétursson veit sjálfsagt hver það er sem það leggur til.

En ég held sem sagt að það sé svo ótalmargt óljóst í sambandi við þetta mál, að það sé ekki í raun og veru sérstök ástæða til þess að tína hér út hina ýmsu þætti, sem að sjálfsögðu koma þó til verulegrar skoðunar, fyrr en menn sjá nokkurn veginn með hvaða hætti skipting á að eiga sér stað í sambandi við hinar ýmsu framkvæmdir.

Ég sagði hér ekki alls fyrir löngu í ræðu, að það væri gert ráð fyrir því, og það er enginn vafi, hvað sem hver segir, hvort sem hæstv. ráðh. mótmælir og þeir spekingar hjá Vegagerðinni eður ei, — það er enginn vafi á því að hugmyndir hafa komið fram um þá skiptingu á þeim 1700 millj. sem gert er ráð fyrir að fari til stofnbrauta, að 700 millj. af þeim fari í Borgarfjarðarbrúna á árinu 1977 og álíka upphæð í Norður- og Austurveginn á árinu 1977, þannig að þá eru eftir — ja, við skulum segja 300–400 millj. í allar aðrar stofnbrautir á landinu. Og þá sjá menn hvað verður um rifist í hinum ýmsu kjördæmum, hver sú upphæð verður. Það er enginn vafi að þessi hugmynd hefur komið fram, hvort sem menn treysta sér til að leggja hana fram á pappírnum þegar að því kemur eður ei, en þessi hugmynd hefur komið fram og sjálfsagt þá á réttum stöðum. (Gripið fram í: Hvar er það?) Hvað heldur hv. þm. að sé rétti staðurinn í þessu?

Það kom fram hjá hæstv. samgrh. áðan, að í þessari vegáætlun er gert ráð fyrir að það verði endurgreiddar um 1300 millj. á árinu 1977 í vexti og afborganir, og 1400 millj. í sama tilgangi á að greiða á árinu 1978, í vexti og afborganir af lánum. Þetta er auðvitað gífurlega há upphæð. Einnig kom fram hjá hæstv. samgrh. að það væri gert ráð fyrir, að mér skildist, — ég hef kannske ekki skilið það alveg rétt, — en mér skildist að það væri gert ráð fyrir 1 milljarði sem færi í sölu happdrættisskuldabréfa varðandi Norður- og Austurveginn í ár og af því á að endurgreiða a. m. k. 350 millj., ef ég man rétt, vegna ársins 1976 sem þá var tekið að láni í aðrar framkvæmdir. Hvort það verður eða ekki skal ég ekki um segja. En hvað sem gerist í þessum efnum, þá er ljóst að sú vegáætlun, sem hér er nú til umr., er slíkt hörmungarplagg að ég efast um, að hv. stjórnarþm., aðrir en þá hæstv. samgrh., hafi í raun og veru gert sér ljóst hvað hér er verið að leggja til. Það er engu líkara en þessum málaflokki hafi að engu leyti verið sinnt, þegar það getur gerst ár eftir ár þrjú ár í röð, að skera niður um 25–30% á hverju einasta ári þennan þó lífsnauðsynlega málaflokk að því er varðar þá hugsjón að halda uppi eða auka byggðastefnuna í landinu.

Það hefur talsvert borið á góma í umr. um vegamál á undanförnum árum, þegar vegáætlun hefur verið hér til umr., hina óæskilegu skiptingu annars vegar milli hraðbrautaframkvæmdanna og hins vegar landsbrauta og þjóðbrauta. Það var svo í vegáætlun fyrir árið 1976, að um eða yfir helmingur alls framkvæmdafjárins fór til hraðbrauta, og hraðbrautir voru ekki viðurkenndar nema á tiltölulega afmörkuðu svæði á landinu. Því hafa geysilegir fjármunir farið til framkvæmda einmitt í þessum málaflokki í vegakerfinu á undanförnum árum samanborið við landsbrautirnar og þjóðbrautirnar. Menn hafa gert sér vonir um, og sjálfsagt vona það enn sumir hverjir, að hér hafi átt að gera á breytingu með breyttum vegalögum frá s. l. hausti, þannig að réttlátari skipting ætti sér stað milli þessara framkvæmdaflokka með því að taka upp þá stefnu sem nú er í lögum um stofnbrautir og síðan þjóðbrautir að nokkru leyti. Ég hef verið talsvert vantrúaður á að þetta yrði svo í raun. Ég óttast að hér hafi einungis verið reynt að festa á blað orðalag sem einhverjir halda kannske að sé breyting frá því sem áður var og verði í framkvæmd, en ég held því miður að reynslan verði sú, að hér verði status quo, ekki betra en var ef ekki verra, varðandi þá ,staði sem fyrst og fremst þurfa á þessum auknu framkvæmdum að halda. En einnig þetta kemur í ljós, kannske innan fárra daga, hver var í raun og veru meining manna með þessu og hvað verður lagt til og hvort útkoman verður hugsanlega betri samkv. hinum nýju vegalögum en var áður en breytingin átti sér stað.

Það er þó einn þáttur í þessu sem a. m. k. ég tel að fagna beri, en það er, að mér skilst, að í þessari nýju vegáætlun sé gert ráð fyrir að taka inn hinar nýju snjómokstursreglur sem búnar eru að vera á blaði og hafa beðið framkvæmda líklega í tvö ár. En í þessu plaggi er gert ráð fyrir að þær komi til framkvæmda, og það verður að minni hyggju talsverð breyting til hins betra á ýmsum hinum fámennari stöðum a. m. k. og fámennari landssvæðum, þannig að það er jákvætt. En það auðvitað vegur ekkert upp á móti hinni ófreskjunni, sem niðurskurðurinn er á nýframkvæmdunum. Það er eins og dropi í hafið til samanburðar við það.

Mér skilst að til þess að halda svipuðu raungildi framkvæmda á árinu 1977 í nýframkvæmdum vega og var á árinu 1974 þyrfti fjárveiting til þessa þáttar vegamálanna að vera um 4.5 milljarðar, en er 2.2 milljarðar. Menn sjá því glöggt hvað hæstv. ríkisstj., hæstv. samgrh., stjórnarliðið í heild hefur aðhafst á þessum þremur árum sem þeir eru búnir að vera í ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþ., ef við tökum með framkvæmdaárið 1977. Hér er svo hrikalegt dæmi á ferðinni um niðurskurðarstefnuna á þessum stóra málaflokki, að ég efast um, að finnist dæmi slíks þótt lengi og langt sé leitað aftur í tímann varðandi niðurskurðarpólitík valdhafa á hinum ýmsu tímum.

Ég skil ekki hvernig t. d. hv. þm. dreifbýliskjördæmanna, sem barist hafa í því ár eftir ár og áratug eftir áratug að fá umbætur, hvernig í ósköpunum þeir hv. þm. geta hugsað sér að ljá máls á því að leggja blessun sína yfir stefnu sem þessa sem ríkt hefur undanfarin tvö ár og hér er lagt til að ríki a. m. k. næsta ár og þar næsta. Ég botna ekkert í hvernig þessir hv. þm. geta hugsað sér að styðja slíka framkvæmd, enda efast ég um að þeir verði margir til að gera það. En það á líka eftir að koma í ljós.

Ég veit a. m. k. að það eru ærin verkefni og brýn, mjög svo nauðsynlegar framkvæmdir, sem bíða í mínu kjördæmi þess að fá grænt ljós hjá valdhöfum til þess að hægt sé að fara í framkvæmdir, — framkvæmdir sem síður en svo eru ónauðsynlegri en þær sem núna eru í framkvæmd sumar hverjar og þær sem búið er að taka stefnuna á á næstunni. Ég á erfitt með að hugsa mér að þm. stjórnarliðsins úr Vestfjarðakjördæmi geti hugsað sér að neita um allar framkvæmdir í því kjördæmi á þeirri áætlun sem hér er lagt til að samþykkt verði fyrir næstu 4 árin, allar þær nauðsynlegu framkvæmdir sem nú knýja á um að hafist verði handa við og eru a. m. k. á okkar mælikvarða ekki ýkjastórar eða fjárfrekar samanborið við sumar aðrar sem unnið hefur verið að, þó að vísu sé annars staðar á landinu. En einnig á eftir að koma í ljós með hvaða hætti að þessu verði staðið.

Áður en ég lýk hér máli mínu nú, langar mig til þess að fara örfáum orðum um mál sem ég hef alltaf við hverja vegaáætlun verið talsmaður fyrir og er enn og enginn bilbugur þar á. Og þess vegna vek ég máls á því nú að aldrei hefur verið minna um fjármagn til þeirra framkvæmda sem hér er lagt til að fara í, aldrei hefur verið verri staða að því er varðar það að veita fjármagn til hinna ýmsu framkvæmda, og því ætti ekki að þurfa mann eins og mig til þess að brýna það fyrir ráðandi mönnum, sem hér ráða ferðinni, að nýta hvern og einn einasta tekjustofn sem hugsanlegur er, ekki síst þegar hann er kannske allra tekjustofna réttlátastur í viðbót, en þar á ég við vegskattinn. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn, að það sé í alla staði réttlætanlegt að innheimta slíkt gjald, ekki hvað síst þegar við erum í slíkri gryfju eins og við virðumst vera nú að því er varðar það að fá fjármagn til framkvæmda í vegamálum. Og það ætti ekki að þurfa stjórnarandstæðing til þess að benda hæstv. samgrh. á að það sé sjálfsagt að hagnýta þennan tekjustofn.

Við afgreiðslu síðustu vegáætlunar, fyrir árið 1976, bar ég ásamt fleiri hv. þm. fram till. um að tekinn skyldi upp vegskattur á svipuðum grundvelli og hann var innheimtur á sínum tíma, — vegskattur sem gæfi nokkur hundruð millj. á áætlunartímabilinu og engin ástæða til þess að sleppa. Í umr. um þetta mál við afgreiðslu vegáætlunar 18. maí taldi hæstv. samgrh. öll tormerki á því að afgreiða þessa till. við afgreiðslu þeirrar vegáætlunar sem þá átti sér stað, vegna þess að hann taldi að slík upptekning á skattheimtu þyrfti að koma fram í undirbúningi að gerð vegáætlunar og þyrfti þannig að bera að með eðlilegum og skikkanlegum hætti, eins og ég held að hann hafi orðað það, hæstv. ráðh. Mér kemur það því illa að hæstv. ráðh. skyldi ekki nýta sér þennan tekjustofn og taka hann upp í þessa vegáætlun, því að ég veit, hvað sem hæstv. ráðh. kann að segja, að hann er innst inni í hjarta sínu nákvæmlega sammála mér um að þetta er réttlætanlegt, ekki síst þegar slíkir erfiðleikar eiga sér stað eins og menn standa frammi fyrir nú. Mig langar því til þess að spyrja hæstv. ráðh., af því að þetta var ekki tekið með í þessa vegáætlun, þetta plagg, hvort hann mundi ekki taka jákvætt till. svipaðs eðlis og lögð var fram við afgreiðslu síðustu vegáætlunar og leggja nú sitt af mörkum til þess að hún næði fram að ganga, till. sem mundi gefa nokkur hundruð millj. á þessu áætlunartímabili. Mér finnst ólíklegt annað en hæstv. ráðh. mundi taka slíku fegins hendi í þeirri erfiðu raun sem hann nú stendur í. Það er enginn vafi á því að slík till. kemur fram, og það er mikill stuðningur og fengur í því, ef strax nú við 1. umr. væri hægt að fá liðsinni hæstv. ráðh. í þeirri baráttu sem hugsanlega yrði þá framundan við andstæðinga þessa réttlætismáls sem ég tel vera.