23.02.1977
Neðri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

163. mál, atvinnulýðræði

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Benedikt Gröndal hefur raunar þegar tekið af mér ómakið við að svara ýmsum fram komnum aths. hv. þm. við frv. það sem hér er til umr. Þó vil ég nota tækifærið til þess að fjalla um örfá atriði.

Það er alveg rétt, eins og fram kom í máli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, að það getur verið varhugavert að setja í eitt lagafrv. í ýmsum köflum ákvæði um breytingar á mörgum lögum. Þó hefur það verið gert, eins og hún tók raunar fram í sinni ræðu, og þá einkum og sér í lagi af ríkisstjórnum. En eins og hv. þm. Benedikt Gröndal raunar benti á, þá er talsvert öðruvísi farið um þetta frv., sem hér er lagt fram, vegna þess að þær breytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að gerðar verði á ýmsum lögum, eru fyllilega sambærilegar og varða aðeins eitt tiltekið málefni. Ég vil benda þm. á það til glöggvunar, að ef þetta frv. verður samþ. og afgreitt eins og það liggur fyrir, þá verður III. kafli þessa frv. settur inn í lög um hlutafélög og verður þar tiltækur og fellur niður úr sérstökum lögum um atvinnulýðræði sem kæmu til með að standa eftir. Sama máli gegndi um IV. kafla, um breytingar á lögum um samvinnufélög. Hann yrði felldur inn í lög um samvinnufélög og félli því niður úr sérstakri lagasetningu. V. kafli, um breytingu á lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins, færi beint inn í þau lög og breytti þeim lögum, en félli niður úr sérstakri lagasetningu um atvinnulýðræði. Og VI kafli, um breytingu á lögum um sementsverksmiðju, sömuleiðis. Öllu skýrar og einfaldar er ekki hægt að útfæra þessa hluti heldur en með þeirri aðferð sem hér er höfð. Eftir stæðu þá í sérstökum lögum um atvinnulýðræði 1. kafli, um almennan tilgang laganna, og II. kafli, um samstarfsnefndir, svo og síðasti kafli frv., um gildistöku. Ég hef leitað mér upplýsinga um þetta hjá lögvísum mönnum, og þeir hafa tjáð mér að öllu einfaldari skipun væri ekki hægt að hafa á því, þegar svona breytingar stæðu fyrir dyrum eða ætti að gera, heldur en að leggja þær fram eins og hér er gert.

Ég ætla ekki að fara að deila, hvorki við hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur né hv. þm. Ingvar Gíslason, um sögulegan aðdraganda þessara mála. Ég skal ekki draga það í efa, að það sé rétt hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að nokkrir þm. Sjálfstfl., — ég tók nú ekki eftir því að í þeirra hópi væri neinn þm. sem nú situr á Alþingi, — en að nokkrir þm. Sjálfstfl. hefðu áður við ýmis tækifæri fjallað um þessi mál. Ég dreg það ekki heldur í efa hjá hv. þm. Ingvari Gíslasyni að það sé áhugi á þessum málum innan Framsfl., enda vil ég vísa til þess, að þegar þáltill. alþfl.- manna um skipun n. til þess að semja frv. um atvinnulýðræði var samþ. hér á Alþ., þá var það með atkvgr. allra flokka. Af því má marka að það sé pólitískur vilji á Alþ., sem þegar hafi komið fram í afgreiðslu Alþ. á þessum málum, fyrir því að einmitt lög um atvinnulýðræði verði sett. Og ég eins og ég segi, ég efa það ekki, enda hefur það fram komið, að það er áhugi fyrir því í öllum flokkum.

Ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, að nú eru liðin fjögur ár frá því að þessi þáltill. Alþfl. um atvinnulýðræði var samþykkt. N. sú, sem skipuð var í framhaldi af þeirri samþykkt, hefur ekki lokið störfum og mun að öllum líkindum ekki ljúka störfum, svo að Alþ. þarf að horfast í augu við þá staðreynd að sú afgreiðsla, markaði þar vilja Alþ., mun ekki bera árangur. Þá verður Alþ. að sjálfsögðu að staðfesta sinn pólitíska vilja, sem þegar er fram kominn, með því að taka sjálft frumkvæði til lausnar þessum málum. Og einmitt það frumkvæði hefur nú verið tekið af okkur þm. Alþfl. í þessari hv. d., og ef marka má orð og yfirlýsingar frá öðrum þingflokkum, þá trúi ég því ekki fyrr en ég tek á, að Alþ. heykist á því að framkvæma þann vilja sem þegar hefur komið fram frá Alþ. sjálfu í samþykkt þess á þáltill. Alþfl. um atvinnulýðræði. Hér er aðeins um það að ræða að gera tilraun til þess að Alþ. taki frumkvæðið og leysi þessi mál eftir að reynslan hefur orðið nákvæmlega sú sama hér á Íslandi og í öðrum löndum, að þessi mál verði ekki leyst af öðrum en löggjafanum sjálfum. Sú hefur reynsla okkar íslendinga þegar orðið, og sú var reynsla nágrannaþjóða okkar. Það var vegna þess sem nágrannaþjóðir okkar, norðmenn, danir og vestur-þjóðverjar og júgóslavar raunar einnig völdu þá leiðina að tryggja þetta með lagasetningu, en ekki með frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins, enda er ég fyllilega sammála hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, að hér er um mannréttindamál að ræða, réttindaveitingu, en ekki mál sem á að fjalla um á vettvangi kaup- og kjaramála, á t. d. alls ekki að meta á þann veg að verkalýðshreyfingin eigi að láta af hendi einhverjar kjarabætur eða beinar kauphækkanir í skipti fyrir mannréttindi eins og þetta frv. fjallar um.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði einnig í sinni ræðu, að það yrði að athuga hvaða skilyrði stjórnarmenn, sem kjörnir væru af starfsfólki, ættu að uppfylla til þess að öðlast kjörgengi í stjórnir, og einni hvert valdsvið þeirra í stjórnum ætti að vera. Ég vil aðeins benda hv. þm. og öðrum þm. á það að um þessi atriði er einmitt fjallað í þessu frv. Þar er nákvæmlega sagt hvaða skilyrði starfsmenn eigi að uppfylla til þess að öðlast kjörgengi í stjórnir atvinnufyrirtækja. Þau skilyrði eru tvíþætt. Starfsmaðurinn verður annars vegar að vera lögráður og fjár síns ráðandi og hins vegar að hafa starfað hjá viðkomandi fyrirtæki hið minnsta eitt ár áður en kosningin fer fram. Það kemur einnig glögglega fram í þessu frv. hvert valdsvið þessara fulltrúa starfsmanna í stjórnum á að vera. Það á að vera hið sama og annarra stjórnarmanna, sem kjörnir eru af eigendum á aðalfundi eða ársfundi. Þetta eru nákvæmlega sömu skilyrði varðandi bæði valdsvið og kjörgengi eins og t. d. í norskum lögum, og mér er ekki kunnugt um að þeir, sem um þessi mál hafa fjallað sérstaklega, hafi komist að niðurstöðu um að það eigi t. d. að setja fulltrúum starfsmanna í stjórnum slíkra fyrirtækja þrengri skilyrði en hér er frá sagt. Mér ekki kunnugt um að það hafi komið fram í einni eða neinni ályktun hjá Sjálfstfl., mér er ekki kunnugt um að það hafi komið fram í einni eða neinni ályktun hjá Framsfl., það hefur ekki komið fram í þeirri afgreiðslu sem Alþ. hefur þegar gert á þessum málum, og mér er kunnugt um að í þeim starfsmannafélögum og verkalýðsfélögum, sem um þessi mál hafa fjallað, er einmitt gengið út frá því að fulltrúar starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja sitji þar með sömu réttindum og aðrir stjórnarmenn, enda er eðlilegt og sjálfsagt, að svo sé, og í fullu samræmi við hvernig þessum málum er fyrir komið í öllum nálægum löndum.

Hv. þm. Ingvar Gíslason hafði það einkum við þetta frv. að athuga, að atvinnulýðræði væri þar ekki skilgreint. Ég vil aðeins taka það fram og benda hv. þm. á að þetta orð, atvinnulýðræði, kemur hvergi fyrir í frv. nema í fyrirsögn þess. Það kemur hvergi fyrir í einstökum greinum frv. Þar er ekki minnst á orðið atvinnulýðræði. Það, sem frv. segir, er mjög nákvæmlega útlistað og þarf ekki að draga neina dul á hvað þar er átt við, þannig að þessi viðbára hefur ekkert gildi gagnvart frv. Sú skilgreining, sem notuð er við samningu þessa frv. á orðinu atvinnulýðræði, kemur hins vegar fram í grg., en þar er rætt um að með atvinnulýðræði sé átt við aðild verkafólks og annarra launþega að stjórnun atvinnufyrirtækja með einhverjum hætti. Ég vil einnig benda hv. þm. á að pólitískt lýðræði hefur ekki heldur verið skilgreint til fullnustu. Þó sjá menn engin vandkvæði á að samþykkja lög sem menn telja almennt vera til lýðræðisframfara á hinu pólitíska sviði, þó að orðin sjálf, pólitískt lýðræði, hafi aldrei verið fyllilega skilgreint. Sú viðbára, að það vanti einhverja fullnægjandi skilgreiningu á orðinu atvinnulýðræði og því sé ekki hægt að samþykkja lög þar sem það orð kemur fyrir í fyrirsögn, er auðvitað markleysa ein.

Þá vék hv. þm. Ingvar Gíslason einnig að því, að um tvær leiðir væri að velja til þess að ná þessu markmiði: annars vegar löggjafarleið og hins vegar samningsleið. Það er auðvitað alveg rétt hjá þessum hv. þm., að þarna er um tvær leiðir að velja. En eftir að við erum búnir að velta þessu fyrir okkur áratugum saman út frá þeim grundvelli, að málin eigi að leysa eftir samningsleiðinni, og höfum fyrir augum að sú lausn skilar engum árangri, þá hljótum við að komast að sömu niðurstöðu hér á Íslandi árið 1977 eins og norðmenn og danir komust að árið 1940, að atvinnulýðræði sé þess eðlis að það fjalli um grundvallarmannréttindi sem ekki eigi að leysa á samningavettvangi aðila vinnumarkaðarins. Mér kemur þetta harla spánskt fyrir sjónir, og það lýsir raunverulega því, sem hv. þm. Benedikt Gröndal talaði um fyrr við umr. þessa máls, þegar hann sagði að hann ætti bágt með að skilja þá íhaldssemi og afturhaldssemi sem væri ríkjandi í félagslegum málefnum á Íslandi. Það skýrir þetta einmitt glöggt, að núna, árið 1977, skuli menn hér á Íslandi vera að velta fyrir sér hvernig leysa eigi félagsleg mál, sem allir nágrannar okkar komust fyrir mörgum áratugum að niðurstöðu um að væru hrein löggjafaratriði, en ættu ekkert skylt við samninga aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör.

Ég vil benda hv. þm. Ingvari Gíslasyni á það, að þó að við íslendingar séum orðnir talsvert á eftir nágrönnum okkar á hinu félagslega sviði, þá held ég að það sé óþarfi fyrir okkur að fara að taka þessar umr. upp á því herrans ári 1977, ekki síst þegar fyrir liggur samkv. þm. sjálfs og orðum hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur að einmitt þetta mál hafi ekki aðeins verið áhugamál verkalýðsflokkanna og stefnumál þeirra, heldur einnig sérstakt áhugamál Framsfl. og Sjálfstfl. En þrátt fyrir þennan eindregna pólitíska vilja í landinu hefur málinu ekki þokað nokkurn skapaðan hlut fram, einmilt vegna þess að allir hafa búist við því að þessi mál yrðu leyst eftir samningaleiðinni, í samningaviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins. Einhvern tíma hljóta menn að læra af reynslunni, og ég held að reynslan liggi alveg á borðinu og við hljótum að komast að sömu niðurstöðu í þessum efnum og allar nálægar þjóðir, sem sé þeirri, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að ef á annað borð á að veita launþegum slík grundvallarmannréttindi, þá sé það Alþingis að gera það, en hins vegar eigi ekki að þurfa að beita verkalýðshreyfingunni í verkföllum eða hörðum átökum á vinnumarkaðnum til þess að fá slík mannréttindi fram, e. t. v. á kostnað almenns kaups og kjara verkafólks.

Ég held að við alþm. og Alþingi íslendinga verði að gera sér grein fyrir því, að það þjónar heldur litlu hlutverki að vera stjórnmálamaður hér á Íslandi ef á að viðurkenna það í verki, að hver ein og einasta meiri háttar úrbót sem gerð sé í félagsmálum þessarar þjóðar, verði ekki gerð nema af verkalýðshreyfingunni í harðri kjarabaráttu. Það er hún sem hefur þurft að knýja í gegn atvinnuleysistryggingar. Það var ekki pólitísk ákvörðun, heldur varð verkalýðshreyfingin að berjast fyrir því í harðri kjarabaráttu, þó að hér væri um að ræða fyrst og fremst atriði sem löggjafinn átti að leysa. Það er ekki heldur verkefni verkalýðshreyfingarinnar að leggja út í harða baráttu við aðila vinnumarkaðarins til þess að fá einhverjar úrbætur í húsnæðismálum launafólks. Hér er um að ræða pólitíska ákvörðun sem pólitískir aðilar eiga að taka og leysa hér á Alþ. af alþm. án þess að verkalýðshreyfingin þurfi að fórna sér í langri og harðri baráttu til að fá því framgengt. Nákvæmlega sama máli gegnir um úrbætur á almannatryggingakerfinu. Nákvæmlega sama máli gegnir um úrbætur á hinu pólitíska lýðræðissviði. Eða á það t. d. að vera afsökun fyrir aðgerðarleysi Alþ. til þess t. d. að veita ungu fólki aukin pólitísk réttindi með því að lækka kosningaaldur niður í 18 ár, að þetta sé ekki verkefni Alþ., heldur eigi verkalýðshreyfingin að berjast fyrir þessu í samningum við aðila vinnumarkaðarins og fórna e. t. v. einhverju af kaupkröfum sínum fyrir að ungt fólk fái þessi sjálfsögðu mannréttindi? Það er nákvæmlega sama viðbáran sem hér er höfð uppi gagnvart umbótum í þeim grundvallarmannréttindum sem lúta að áhrifum hins vinnandi fólks á vinnustað sinn, starfsumhverfi og stjórn fyrirtækja, sem þessir launþegar vinna hjá, þegar sagt er að það sé ekki í verkahring Alþ. að leysa þetta, heldur eigi verkalýðshreyfingin að gera það í átökum við vinnuveitendur. Hérna eru Alþingi íslendinga, stjórnmálaflokkarnir og alþm. raunverulega að gefast upp við það meginverkefni sitt að leysa úr félagslegum umbótamálum eins og þessum með því að segja: Við ætlum ekki að berjast fyrir þessu. Það er verkalýðshreyfingin, sem á að gera þetta. Það er verkalýðshreyfingin sem á að taka við félagslegri framsókn landsmanna úr höndum stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn eiga ekki að láta þessi mál til sin taka, það er verkalýðshreyfingin sem á að leysa þau. — Svona viðbárur eru hrein uppgjöf. Þeir stjórnmálamenn, sem nota slíkar afsakanir til þess að koma sér hjá því að þurfa að taka afstöðu til svo sjálfsagðra réttlætismála eins og hér er um að ræða, slíkir stjórnmálamenn valda hreinlega ekki verkefni sínu, og ef þeir stjórnmálamenn svo í þokkabót orða sig við félagshyggju, eins og hv. þm. Ingvar Gíslason væntanlega gerir, þá er það orð í Framsfl. með nokkurri annarri merkingu en í verkalýðsflokkunum.

Ég vil enn fremur taka fram í sambandi við það sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði, að e. t. v. væri skýringin á því, að þessi mál hafi ekki náð eins langt hér og í nágrannalöndunum, sú að atvinnufyrirtækjum væri öðruvísi farið hér á Íslandi heldur en þar, launþegar hefðu meiri samskipti við stjórnendur slíkra fyrirtækja hér en þar og sú væri skýringin. Ég er ekki fyllilega ásáttur með þá niðurstöðu. Hún kann að vera rétt í sumum tilvikum, en þó held ég að þetta sé ekki skýringin. Ég held einmitt að skýringin sé sú, sem ég hef verið að lýsa, sem sé að það virðist ætla að verða niðurstaðan úr síðari tíma sögu stjórnmálabaráttu á Íslandi, að stjórnmálaflokkarnir og Alþ. sjálft hafi raunar látið lönd og leið að leysa úr ýmsum slíkum félagslegum vandamálum, en ætlað verkalýðshreyfingunni að gera það með kjarabaráttu. Þeir félagslegu þættir, sem verkalýðshreyfingin hefur hugsanlega getað metið sem ígildi kauphækkana eða beinna kjarabóta, hafa því náð fram að ganga, svo sem eins og umbætur á húsnæðismálum, umbætur í atvinnuleysistryggingamálum o. s. frv. En félagsleg framsókn sem verkalýðshreyfingin hefur ekki getað sætt sig við að hægt væri að meta til móts við einhverjar kauphækkanir, t. d. eins og framfarir í atvinnulýðræðismálum og hefur því ekki tekið til lausnar á vettvangi samninga, — úrbótum í þeim málum hefur ekki þokað áfram, einfaldlega vegna þess að Alþ. hefur ekki viljað leysa þau, sú skýring, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gaf og ég lýsti hér áðan, er því að mínu viti ekki rétt. Ég tel að það sé ekki síður nauðsynlegt fyrir íslenskt verkafólk og launþega almennt að öðlast íhlutunarrétt um stjórn þeirra fyrirtækja, sem þetta fólk vinnur hjá, heldur en það var talið nauðsynlegt fyrir t. d. norska verkamenn, danska verkamenn, vestur-þýska verkamenn eða júgóslavneska verkamenn að öðlast slík réttindi.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég held að eftir öll orðin, sem menn hafa haft í hinum ýmsu stjórnmálaflokkum árum og áratugum saman um hinn geysilega áhuga þeirra á því að einhverjar framkvæmdir verði unnar í atvinnulýðræðisátt, þá verði nú að reyna á hvað af þessum alþm. eru tilbúnir til að samþykkja. Eru alþm. tilbúnir að samþykkja ákvæði II. kafla um samstarfsnefndir? Eru þeir tilbúnir að samþykkja ákvæði III. kafla um beina aðild starfsmanna hlutafélaga að stjórnun þeirra? Eru þeir tilbúnir að samþykkja ákvæði IV. kafla um beina aðild starfsmanna samvinnufélaga að stjórnun þeirra?

Vissulega hafa þessi mál oft komið til umfjöllunar á Alþ. áður, en það hefur yfirleitt verið í formi þáltill., þ. e. a. s. hugmyndin hefur veríð sett fram, en síðan hafa viðkomandi þm. ætlað öðrum að vinna úr þessum hugmyndum, öðrum að sýna fram á hvernig ætti að framkvæma þetta. Það hefur komið í ljós að þessir „aðrir“ hafa ekki getað skilað því starfi. Þeir hafa ekki náð árangri, það hefur ekkert frá þeim komið. Það, sem nýtt er í málinu að þessu sinni er, að nú höfum við alþfl.-menn lagt vinnu og mikla vinnu í að sýna fram á ekki aðeins að við séum fylgjandi hugmyndinni um atvinnulýðræði, heldur einnig hvernig hægt sé að framkvæma hana, hvernig hægt sé að stíga fyrstu sporin í þá átt nú á næstunni hér á Íslandi. Og eftir öll fögru orðin er þá komið að þm. í öðrum flokkum að tjá afstöðu sína, ekki bara almennt til hugmyndarinnar án þess nokkurn tíma að þurfa að standa að því hvernig á að framkvæma hana, heldur ekki síður til einstakra framkvæmdaatriða, sem hér eru lögð fram í fyrsta sinn. Fram hjá því komast ekki þm. á Alþ., hvorki hv. þm. Ingvar Gíslason og hans flokksbræður né hv. þm. Ragnhildar Helgadóttir og flokksbræður hennar.