26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Mín aths. verður ákaflega stutt. Ég hef að vísu tilhneigingu til þess að ræða þessi mál miklu meira eftir síðari ræður bæði hæstv. iðnrh. og hv. 2. þm. Vestf., en ég verð því miður að sitja á strák mínum og get ekki rætt þessi mál eins og ég hefði gjarnan viljað, en þeir gáfu vissulega tilefni til þess að rætt yrði dálitið víðara og meira um þessi mál. En mig langar til að taka undir mál hv. síðasta ræðumanns. Það var mjög gagnlegt innlegg sem þar kom fram. Hann minnti þar á till. sem hann mun hafa flutt hér fyrir nokkrum árum og ég skal játa að ég minnist ekki nægilega vel, en þegar hann minnir á hana, þá finnst mér að þarna hafi einmitt verið farið rétt að. Hann flytur till. Hv. þm, hefur flutt þáltill. um það að Alþ. kjósi stóriðjunefnd, og ég vil meina eftir að hafa skoðað þessi mál betur en áður að þetta sé sú rétta aðferð. Ég sakna þess sérstaklega að hæstv. iðnrh. skyldi ekki taka betur undir orð mín um að stóriðjunefnd gæfi reglulega skýrslu til þingsins. Ég sakna þess að það skyldi ekki vera tekið betur undir þau orð.