23.02.1977
Neðri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

163. mál, atvinnulýðræði

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja neitt fyrir framgangi þessa máls, en vil þó mega segja nokkur orð.

Ég er efnislega sammála ýmsu því sem fram hefur komið í umr. um þetta mál, en ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni, að mér mislíkar mjög formhlið málsins. Það tel ég atriði sem kæmi til athugunar í þeirri n. sem fengi málíð til meðferðar, hún gæti lagfært það ef henni sýnist svo. Auk þess held ég að það sé miklu eðlilegra og heppilegra að málið fái að fara sem fyrst til n. og þar verði málið rætt og leitað umsagnar þeirra aðila sem menn álíta að sé rétt og eðlilegt að fá umsögn frá um málið, heldur en að halda hér dag eftir dag áfram 1. umr.

Ég vil minna á að það hefur verið mikið rætt um þessi mál fyrr og síðar innan Sjálfstfl., bæði utan þings og á þingi, og hef ég átt, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, nokkurn þátt í því. En það má segja að það, sem þar hefur verið um að ræða, sé aðallega að laða saman fjármagnið og vinnuna. Ég álít að það sé miklu mikilvægara en þetta atvinnulýðræði sem enginn skilur hvað er, að þetta væri frv. í þá átt að laða saman fjármagn og vinnu. Það kynni líka, ef eitthvert samkomulag verður um það, að hafa heppileg áhrif á vinnulöggjöfina sem hvað eftir annað hefur verið talað um hér í þinginu og utan þings, en samt sem áður búum við alltaf við þessa gömlu vinnulöggjöf sem er að mínum dómi meingölluð og mætti bæta mjög mikið báðum aðilum til hags, vinnuveitendum og verkamönnum.

Meira ætla ég í raun og veru ekki um þetta mál að segja núna. Ég tel mjög æskilegt að það komist sem fyrst til n. og þar verði málið athugað og menn reyni að laða saman hugmyndir sínar, sem virðast vera að ýmsu leyti allverulega samstæðar í þessu atriði. Það er auðvitað mjög erfitt að finna réttu leiðirnar og réttu ákvæðin um það, hvernig á að laða saman fjármagn og vinnu eða koma á atvinnulýðræði, ef menn vilja kalla það svo. Ég hef á síðari árum orðið var við hjá nágrannaþjóðum okkar ýmsar ráðstefnur og umr. um atvinnulýðræði. Ég man eftir því, að þegar ég var iðnrh. sendi ég fulltrúa á eina slíka ráðstefnu um atvinnulýðræði sem haldin var í Noregi. Og ráðstefnur hafa einnig verið haldnar um þetta bugtak hér af ópólitískum aðilum.

Ég hef ekki orð mín fleiri, en við skulum vinna að málinu, vanda löggjöfina og reyna að samræma hugsjónirnar.