24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Stefán Valgeirsson er ekki staddur hér í salnum á þessari stundu, því ég hafði ætlað mér að þakka honum sérstaklega fyrir upphafið á ræðu hans um vegáætlun á þriðjudaginn, þar sem hann kvað svo að orði að vegirnir eru lífæðar byggðanna, sagði hann. Hér hygg ég að honum hafi orðið satt á munni eins og stundum oftar, og mér fannst hann kveða vel að þessari aths. sinni. Hann átti raunar aðeins ósagt frá því, hvers vegna hann styður með ráðum og dáð ríkisstj. sem heggur á þessar æðar.

Nú ætla ég ekki að eyða tíma hv. þm. í að rekja það, sem áður hefur verið gert mjög vel við þessar umr. á undan mér, með hvaða hætti þessi vegáætlun í heild brýtur í bága við fyrirheit nm svo við notum orð hv. þm. Framsfl. hér — þróttmikla byggðastefnu. Raunar hygg ég að hv. þm. Friðjón Þórðarson hafi á látlausan og eðlilegan hátt lýst þessari stefnu manna best í ræðu sinni áðan, þar sem hann rifjaði upp hina fornu íþrótt að fóðra margt fé vetrarlangt á litlu heyi, þessa aðferð sem venjulega var kölluð að setja á Guð og gaddinn, og þeir fjármenn, sem þá íþrótt stunduðu af mestu dirfsku, fengu yfirleitt fyrr eða síðar viðurnefnið horkóngar.

Svo við víkjum aftur að líkingu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar þegar hann nefndi vegina lífæðar byggðanna, þá má vera að hin nýja merking, sem hv. þm. Friðjón Þórðarson lagði í þessa fornu sögn: að vega; sé nokkuð nærri lagi, þegar það skaust upp úr honum að slíkt væru góð áform: að vega landið, — aðeins með því að víkja þessu örlítið við og segja sem svo, hvort það væri þá ekki nær að kalla þessa aðferð stjórnarliðsins að vega byggðirnar eða byggðafólkið í hinni upprunalegu merkingu sagnarinnar að vega.

Hv. þm. Pálmi Jónsson lét þau orð falla, að það þyrfti ekki að koma neinum á óvart þótt lítið sé nú ætlað til vegaframkvæmda, því allt þetta hafi komið fram við afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar fyrir jól. Það er alveg rétt, þetta blasti við okkur við afgreiðslu fjárl. Athygli var vakin á því, hvers konar plagg hv. stjórnarliðar voru að afgr. hér á þingi þá. En það var eins og fyrri daginn, það þarf ákveðna hæfileika til þess, andlega hæfileika, að verða af því vísari að mönnum sé sannleikurinn sagður. Það þarf líka ákveðna andlega hæfileika til þess að vera nákvæmlega jafnblankir eftir að hafa hlustað á sannleikann í grundvallaratriðum.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson lýsti hér yfir þeirri skoðun sinni að Norðurlands- og Austurlandsáætlanir hefðu ekki venjulegt lagagildi, heldur bæri að líta á þær sem óskalista. Nú hefði ég gjarnan viljað að hv. þm. Lárus Jónsson rifjaði það nú upp fyrir okkur með hvaða hætti hann notaði einmitt Norðurlandsáætlunina á sínum tíma til þess að réttlæta stuðning sinn við sérstaka fjáröflun í hringveginn, með þeim hætti að þá yrði til reiðu meira fé frá Norðurlandsáætlun til vegaframkvæmda í Þingeyjarsýslunum, á þeim stóru svæðum á Norðurlandi sem ætlað var að njóta einskis góðs af hringvegarfénu.

Ég er ekki vongóður um það að fjvn. vinni nein kraftaverk í umfjöllun sinni um það fé sem hér er ætlað til vegaframkvæmda. Ég ætla að fjvn.-menn muni tæplega taka glöðu geði við verkefnum horkónganna sem þeim eru hér ætluð. Og fari það nú svo, að hlutur Norðurl. e. verði ekki bættur frá því, sem hér er fyrirhugað, við umfjöllun í n., þar sem ætlað er 17 millj. minna fé að krónutölu til vegaframkvæmda á næsta ári heldur en á árinu sem leið, auk þeirrar 25% lækkunar á framkvæmdagildi sem hér hefur verið gerð grein fyrir, þá mun ég að sjálfsögðu bera fram till. um sérstaka lántöku til vegagerðar á Norðurl. e. þar sem reiknað yrði með sérstökum framkvæmdum við Víkurskarðsveg, sem mun kosta um 300 millj. kr., sáralítið fé samanborið við brúna yfir Borgarfjörð, og svo við Sléttuveginn, sem ætla má að leggja megi fyrir 200 millj. kr. Veginn yfir Víkurskarð má leggja, að sögn verkfræðinga vegagerðarinnar, hvað tæknihliðina snertir á tveimur árum ef ekki skortir til þess fé, og Sléttuveg mætti fullgera á sama tíma. Mun þá á það reyna hversu fúsir hv. þm. Framsfl., í kjördæminu eru til þess að styrkja lífæðar byggðarlaganna, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson kallaði vegina réttilega.