24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

131. mál, afurðalán

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 4. þm. Reykn. fyrir innlegg hans í þessar umr. Það vakti athygli mína alveg sérstaklega að hann beindi þeim í annan farveg og stærri en ég hafði ætlað mér að gera hér að umræðuefni. En þar sem skeð er skeð og búið er að beina umr. í annan farveg og stærri, þá þykir mér rétt að taka málið til umræðu frá því sjónarhorni alveg sérstaklega. Og það er spurningin um það, hvernig eigi að draga úr verðbólgunni, hvernig eigi að koma fólki til þess að leggja fé í bankana og hvernig við eigum með því móti að auka innlánsfjármagnið í bönkunum.

Ég vil byrja á því að minna á þá staðreynd, að þegar verið var að taka niður klukkuna á Þingvöllum forðum, Íslandsklukkuna, þá var ekki fjölmenni viðstatt. Og það er ekkert fjölmenni viðstatt þegar rætt er um gengi íslensku krónunnar í þessu þjóðfélagi. Því miður hefur svo farið, að við sem fullvalda þjóð höfum ekki reynst þess megnugir að verja þessa krónu. Samt var sérstök stofnun sett á stofn, Seðlabanki Íslands, sem hefur vaxið hratt að starfsliði og átti og á að hafa það hlutverk m. a. að sjá til þess að krónan haldi velli. Það er ömurleg staðreynd, en hún er sönn, að mannorði hennar björgum við ekki með því að hækka vexti. Berist sú fregn um landið, að Seðlabankinn hafi ákveðið að hækka vexti, hrekkur hver einasti sparifjáreigandi í kút og hugsar með sjálfum sér: Ja, hver fjandinn. Nú ætla þeir að fara að fella gengið. — Það var gamall sparisjóðsstjóri sem sagði mér þetta, og ég trúði honum. Þetta verkar eins og viðvörunarbjalla fyrir allan landslýð. Og þá kemur hin spurningin: Bjarga hærri vextir málinu? Bjarga þeir dýrtíðinni, hinni hliðinni á vandamálinu? Svo virðist ekki vera heldur. Fljótt á litið blasir þess vegna sú staðreynd við, að við erum komnir í sjálfheldu í þessu máli. Ef við ætlum að byggja upp íslensku krónuna, þá verðum við að snúa okkur að mjög ömurlegu verkefni. Við verðum að játa það að mannorð hennar er gersamlega hrunið. Við verðum að gefa íslendingum kost á því að eiga erlendan gjaldmiðil í íslenskum bönkum á þeim vöxtum sem viðkomandi þjóð hefur fyrir þennan gjaldmiðil. Við verðum að leggja niður það kerfi sem gerir ráð fyrir því að það sé alltaf viss hópur þjóðfélagsþegna sem eigi að tapa þegar verðbólguskriðan og gengisfellingarnar dynja yfir.

Ef við förum í það að veita íslenskum aðilum rétt á að eiga erlendan gjaldeyri í íslenskum bönkum, — ekki hvaða gjaldmiðil sem er, heldur einhverja ákveðna gjaldmiðla, — og þeir fái vexti eftir því kerfi sem er í heimalandinu, sömu vexti fyrir t. d. þýsk mörk eða bandaríska dollara eða pund og gilda í viðkomandi löndum, þá getum við um leið tryggt það, að ef fólk gerir ráð fyrir gengisfellingu, þá rýkur það ekki til og tæmir bankana af peningum. Það rýkur til og leggur peninga sína inn með það fyrir augum að breyta þeim í varanlega eign. Í dag rýkur það til og tekur peningana út og eyðir þeim í kaupæði. Ég hef ekki viljað fara út í það að flytja þáltill. um þetta mál, sem ég tel þó margfalt stærra en nokkuð annað sem hægt væri að ræða um í sambandi við það að stöðva verðbólguna, vegna þess að ég hef óttast að enginn mundi nenna að hlusta. En ég hóf þessar umr. út frá þessu sjónarmiði vegna þess að á það var bent, að sú þáltill., sem hér lægi fyrir, næði ekki yfir þetta stóra vandamál, hvernig við eigum að auka fjármagnið í íslenskum bönkum. Sú rödd verður að koma úr Seðlabankanum og úr bankakerfinu, sú rödd sem krefst þess að Alþingi íslendinga starfi með ábyrgari hluta þjóðarinnar að því að byggja upp íslensku krónuna á ný sem gjaldmiðil. En ég er hræddur um að þá verði líka að liggja ljóst fyrir í vitund þjóðarinnar að bankakerfið ætli sér ekki að hagnýta sér verðbólguna, eins og nú virðist gjarnan blasa við, með óhóflega dýrum og stórum byggingum. Það virðist nefnilega vera það ástand ríkjandi, að allir séu ákveðnir í að spila þennan póker af hörku, það vilji enginn breyta leikreglunum þannig að þær séu raunverulega viðunandi, séu réttlátar. Og það verða ekki réttlátar leikreglur í fjármálum þessarar þjóðar fyrr en það er tryggt að þeir, sem leggja peninga inn í banka, fái a. m. k. þá hina sömu peninga út úr bönkunum aftur. Þessu hlýtur hver einasti heilvita maður að gera sér grein fyrir.

Ég er hér búinn að tala nokkuð langt mál um aðra hluti en þessi þáltill. fjallar um. En ég get samt ekki gengið svo frá þessu máli að snúa ekki aftur að henni. Ef hún verður samþykkt, þá held ég að hún sé eitt af skrefunum í þá átt að stuðla að meira jafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap og stuðla að því, að ekki sé um að ræða óeðlilega samkeppni á milli hinna ýmsu bankastofnana um þær fáeinu krónur sem almenningur í landinu ákveður að leggja til hliðar til sparnaðar.