28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

51. mál, skotvopn

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég tel það ekkert eftir mér, ef hv. þm. Jónas Árnason skortir fræðslu um eitthvert mál og ég er í stakk búinn til þess að hafa einhverja þekkingu á því, að veita honum hana. Ég vil t. d. minna á það, að hv. þm. hefur flutt hér á Alþ. í vetur, að mig minnir, till. um aukna friðunarráðstafanir gagnvart rjúpunni. Ég man eftir því, að það var fræg saga þegar ég var í menntaskóla norður á Akureyri, að einu sinni hafi þar ágætur kennari, Brynleifur heitinn Tobíasson, verið að kenna og þá hafi komið dúfa, og sest í gluggann, og þá hafi hann sagt: Ja, alltaf er hann nú tignarlegur, krummi greyið. Það getur vel verið að það sé ástæða til þess, ef þm. ruglast svo á fuglategundum að halda að þeir séu að tala um gæsir þegar þeir eru að tala um rjúpur eða eitthvað slíkt, þá vilji menn bara láta það vera og ekkert reyna til að leiðrétta það. En mér finnst alveg sjálfsagt, ef kemur fram hjá einhverjum þm. vanþekking á einhverju atriði, sem hann leggur til. og aðrir þm. vita betur, að þeir reyni þá að leiðrétta það hjá honum.

Ég vil enn fremur taka fram til þess enn að leiðrétta frekar það sem hv. þm. hefur sagt, að mér er ekki kunnugt um að maður, sem kann að handleika haglabyssu, þótt hann komist yfir 5 skota haglabyssu sem, eins og ég sagði hv. þm., er almennt milli rjúpnaveiðimanna kölluð haglapumpa, skjóti nokkurn tíma 5 skotum í hrinu úr byssunni, enda mundi hann ekki hitta nokkurn skapaðan hlut með síðustu tveimur skotunum. Hér er aðeins um það að ræða, alveg eins og þegar farið er með tvíhleypu, að það er möguleiki á því, ef fyrsta skot misheppnast, að þá getur veiðimaðurinn náð til særðs fugls með öðru skoti. Mér er ekki kunnugt um og hef aldrei orðið var við að maður, sem kann að handleika vopn eins og þessi, skjóti 5 skota hryðju úr 5 skota haglabyssu, þannig að það er í sjálfu sér ekkert atriði hvort slíkt vopn sé bannað eða ekki. Menn geta gert það ef þeir kæra sig um. Þá er auðvitað langbest að þm„ sem samþykkja slíkt, viti um hvað þeir séu að tala. Hins vegar hafa þessar byssur verið eftirsóttar einfaldlega vegna þess, að þær eru þannig byggðar að þær slá miklu minna en einskota og tvískota byssur og eru því ekki fyrir vanan veiðimann eins erfiðar í notkun.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram, vegna þess að mér er kunnugt um hvernig þessi mál standa, og mér finnst að hv. þm. Jónas Árnason geti ósköp vel tekið því vel ef hann er upplýstur um einhver efni sem hann er ekki kunnugur um, jafnvel þó að það séu þingræður hans sem verða að gegna hlutverki kennarans í því sambandi. Ég sé ekki að hv. þm. þurfi að vera mér neitt sérstaklega reiður fyrir það.