28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

51. mál, skotvopn

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað búnar að vera fróðlegar umr., en á þessu stigi máls hef ég því miður engum upplýsingum við að bæta sem mér liggja mjög svo þungt á hjarta. En ég hafði, þegar þetta frv. lá fyrir til umr. á síðasta þingi, búið mig undir að gera við það ýmsar aths., en af alveg sérstökum ástæðum, sem eru óframbærilegar, er ég ekki við því búinn nú, þegar málið kemur til 1. umr. í dag, og verð þess vegna að geyma mér aths. mínar til 2. umr. Ég hafði ýmislegt við ýmsar gr. frv. að athuga, og sá raunar á dögunum að frv. hafði ekki tekið breytingum í þá veru sem ég hafði áhuga á. Þess vegna er það, þótt nokkuð seint sé, að ég verð að geyma mér rétt minn í þessu efni að flytja brtt. við 2. umr. málsins. En e. t. v. er það ekki í sjálfu sér neitt úr vegi að ég komi þeim til þeirrar n. sem væntanlega fær málið til meðferðar.

En hér hefur, auk þess sem rætt hefur verið um þetta frv., lítillega verið minnst á fuglafriðunarlögin, sem eru önnur lög og heyra undir annað rn. Vissulega væri ástæða til að mínum dómi að Alþ. tæki þau lög til sérstakrar athugunar. Ég vil þó minna á að allvel er fyrir friðun fugla séð í fuglafriðunarlögunum. Ég held að ég muni það rétt, að aðeins 5 tegundir fugla séu ófriðaðar allt árið, það munu vera veiðibjalla, kjói, hrafn, sílamávur og silfurmávur, en aðeins rúmar 30 eða 34 tegundir sem heimilt er að skjóta einhvern hluta ársins og sumar í mjög skamman tíma.

Ég hef mjög farið með — alveg frá barnæsku — skotvopn. En því lengur og meir sem ég hef haft slík vopn undir höndum, þeim mun meiri áhuga hef ég fengið á verndun t. d. fugla og friðun þeirra. En það má auðvitað ganga um skör fram í þeim efnum eins og öðrum og er orðið lítt bærilegt þegar fuglafriðunarlögin eru svo ströng, að jafnvel skólum tekst ekki að afla sér uppstoppaðra fugla til kennslu. En uppstoppaður fugl er auðvitað miklu lærdómsríkari fyrir fólk að kynna sér heldur en jafnvel hinar gleggstu litmyndir, svo sem menn auðvitað geta séð í hendi sér. Ég held einmitt að þessi tvö mál séu skyld og ástæða sé til að taka fuglafriðunarlögin til endurskoðunar.

En mála sannast er það, að þótt settar verði strangar skorður við misnotkun skotvopna og ströng lög um fuglafriðun, þá verður aldrei siglt fyrir öll sker með það, að ekki fyrirfinnist menn sem sniðganga slíkar reglur, því er nú verr og miður. Eins þótt settar verði miklu strangari reglur um hvernig menn geti náð í byssuleyfi, þá hygg ég að ekki verði loku skotið fyrir að í þessum efnum sem svo mörgum öðrum verði margur gikkurinn í veiðistöðinni. En það er hins vegar ljóst að mínum dómi, að það þarf nokkurra viðbragða við. Það er lítt bærilegt að menn í hópum saman fari um landið með þessi lífshættulegu vopn og skjóti á allt dautt og lifandi, eins og reyndin hefur viða verið. T. d. þegar leyft er fyrst hinn 20. ágúst að hefja gæsaveiðar, þá fara þessir skotglöðu menn með vopnum sínum þannig að menn mega vara sig með búsmala sinn. (Gripið fram í.) Búsmalinn má víða vara sig á skotglöðum mönnum, annað mál er það.

Ég vildi aðeins á þessu stigi málsins taka undir það, að fuglafriðunarlögin verði endurskoðuð, því að þótt um þessi mál gildi sérlög, hvorn um sig þessara málaflokka, þá eiga þau í mörgu skylt.