03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

79. mál, nýsmíði skips til úthafsrækjuveiða

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. Ég ætla ekki að gera aths. við málið sjálft nema að mjög litlu leyti.

Hér er hreyft mjög merku máli. Eins og kom fram hjá flm. hefur þetta mál nú þegar komist á nokkurn rekspöl. Snorri Snorrason, sem hann gat hér réttilega um að hefur haft forustuhlutverk í úthafsveiði á rækju, hann ásamt félögum sínum hefur fest kaup á togara til þess að hefja útgerð á úthafsrækju. Það kunna að vera skiptar skoðanir um hvort þetta skip henti, en reynslan verður að skera úr um það. Mér fannst að hv. flm., Stefán Jónsson, öðrum þræði gerði því skóna fyrir fram að þetta skip væri e. t. v. ekki hentugt, það væri ekki nægilega traust. Ég held að við ættum að láta reynsluna skera úr í því efni og ekki hefja um það umr. hér eða láta í eitt eða annað skina um þau efni. Ég hef þá skoðun að þeim mönnum, sem að þessu máli standa, sé fullkomlega treystandi til þess að velja þar og hafna.

Það er kannske rétt að geta þess í því sambandi, sem raunar kom hér fram hjá Stefáni Jónssyni, að í þetta skip er verið að setja sérstakan búnað til úthafsrækjuveiða og til þess að vinna rækjuna um borð, og það er jafnframt verið að gera á því nokkrar breytingar til þess að það henti betur til þessara veiða. Það er rétt að geta þess, að þó að þessar breytingar séu teknar með í reikninginn, þá kostar þetta skip ekki nema brot úr því sem nýtt skip mundi kosta, og það út af fyrir sig ætti að létta eitthvað róðurinn við þessa útgerð, sem er náttúrlega að því leyti til áhættusöm, að hún hefur ekki áður verið stunduð hér á landi.

Ég get tekið undir langflest af því sem hv. flm. sagði um forustuhlutverk Snorra Snorrasonar í þessum efnum og eins þá göngu milli Heródesar og Pilatusar sem hann og fleiri menn áttu milli aðila í sambandi við hans mál þegar hann hugsaði sér að láta smíða nýtt skip í þessum efnum. Ég get tekið undir það sem hv. þm. sagði í sambandi við það. Það mál er allt þess eðlis að ég vil sem allra minnst um það hér tala. En ég vil vekja athygli á því sem mér finnst vera kjarni málsins. Hann er sá, að 1970 höfðum við þegar fundið hér fyrir Norðurlandi úthafsrækjumið. Á svipuðum tíma finnast úthafsrækjumið við Grænland. Eins og kom fram í máli hv. flm. er afli við Grænland af úthafsrækju orðinn núna yfir 70 þús. tonn. En ég held að hann hafi verið á s. l. ári hér hjá okkur um 400 tonn. Þetta er hryggileg staðreynd. Það er að vísu ekki hægt að segja að þessar tölur segi allt um það hvernig að þessum málum hefur yfirleitt verið staðið hjá okkur, þ. e. a. s. að því að leita að úthafsrækju og að því að gera út á úthafsrækju. Það má gera ráð fyrir að okkar mið þoli e. t. v. minni sókn heldur en grænlensku miðin, og það er líka vitað að á grænlensku miðunum hefur verið stunduð rányrkja. Það er óhætt að fullyrða að þar hefur verið tekið allt of mikið magn til þess að stofninn þoli það. En þetta segir samt þá sögu, að við höfum því miður beint allt of litlu bæði fjármagni og atorku til að róa á þessi mið. Þetta er gífurlega mikilvægt atriði, og þetta verður aldrei gert, álít ég, með neinni skynsemi öðruvísi en menn byrji að gera út á úthafsrækjuna.

1968 held ég það hafi verið sem skip frá Hafrannsóknastofnuninni eftir mikla hvatningu og eftirgangsmuni Fjórðungssambands norðlendinga fór að leita að úthafsrækju og fann mið bæði við Grímsey og Kolbeinsey — álitleg mið. Síðan má segja að í raun hafi fátt eitt gerst í þessu efni annað en það, að Snorri Snorrason skipstjóri á Dalvík hefur æ ofan í æ reynt að sækja á þessi mið og hann hefur á slíkri sókn langyfirgripsmesta þekkingu af öllum sjómönnum hér á landi. Síðan gerist í rauninni sáralítið frá opinberri hálfu þangað til í fyrra, að þá er farið að leita að úthafsrækju og þá finnast í viðbót allálitleg mið bæði að mér skilst fyrir vestan og fyrir Norðurlandi og Norðausturlandi. Það er álit fiskifræðinga, eins og kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að á þessum slóðum getum við fundið allmiklu meira magn af rækju heldur en nú er vitað um.

Eins og hv. flm. tók hér fram er þetta mikilvægt mál, bæði vegna þess að auðvitað þurfum við að nýta þessa auðlind okkar, en svo er einnig að rækja er verðmæt útflutningsvara, bæði fryst og niðursoðin. Og það er rétt hjá honum, sem hann tók hér fram, að niðursuðuiðnaðurinn, sem er, eins og hv. þm. þekkja, hér hjá okkur ekki margbrotin iðngrein og því miður er enn þá að slíta barnsskónum hér á landi, ef svo mætti segja, — hann stendur frammi fyrir mjög miklum vanda vegna þess að hann getur ekki fengið þetta dýrmæta hráefni til vinnslu. Þar er náttúrlega ekki einvörðungu um það að sakast, að ekki hafi verið sótt úthafsrækja, heldur eru um þetta mál í gildi reglur sem eru afskaplega þröngar og hafa þröng sjónarmið að leiðarljósi, svo ekki sé meira sagt.

Ég vildi sem sagt aðeins vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að hér er stórmál á ferðinni. Við þurfum að standa miklu betur að því að leita að úthafsrækju heldur en við höfum gert, og við þurfum að finna til þess nýjar leiðir, m. a. þá að standa við bakið á þeim sem vilja fara í þessa útgerð. Ég er sammála hv. flm. um það.