27.10.1976
Efri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

37. mál, tollskrá

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem við hv. þm. Helgi Seljan fluttum á síðasta þingi, en náði þá eigi fram að ganga. Með öðru frv. um breyt. á l. nr. 30 frá 1941, um fjarskipti, leggjum við til að gefin verði eftir starfrækslugjöld af bifreiðum fólks sem er svo illa fatlað til gangs að öryggi þess sé í hættu ef bíll bilar á vegum úti eða bifreið festist vegna ófærðar.

„Landssími Íslands,“ segir í grg. með frv. okkar frá því í fyrra, „lætur nú smiða miðbylgjustöðvar, sem þykja allgóðar til notkunar í bilum. Kosta stöðvar þessar 380 þús. kr. og eru heldur ódýrari en innfluttar stöðvar samsvarandi.“

Það skal tekið fram að stöðvar, sem kostuðu um 380 þús. kr. í fyrra, munu kosta í kringum 460 þús. kr. núna, m.a. vegna hækkana á innfluttu smiðaefni til þeirra. Tollur af smíðaefni í stöðvar þessar nemur 35%. Talstöðvar af þessari tegund eru í tollflokki 85.15.32, og er tollur af þeim einnig 35%.

Þess má geta að algengt er að útgerðarmenn, sem láta smíða fiskiskip erlendis og búa þau tækjum þar, fái eftirgjöf innflutningstolla af talstöðvunum.

Síðan við Helgi Seljan fluttum þetta frv. í fyrra hefur það gerst, að Öryrkjabandalagið hefur gert þetta mál að sínu, fjallað um það á síðasta þingi sínu og leggur mjög mikla áherslu á það að því verði til leiðar komið að fólki, sem svo er illa fatlað að það verður að fara í hjólastól á milli húss og bifreiðar ellegar að öðrum kosti gengur við styrktarjárn á lömuðum fótum eða í þriðja lagi er aflimað á báðum fótum fyrir ofan hné, því verði gert kleift að hafa stöðvar af þessari tegund í bilum sínum.

Til sanns vegar má færa að það gæti e.t.v. orðið erfitt að draga línuna á milli þeirrar fötlunar, sem gerði notkun talstöðva af þessu tagi lífsnauðsynlega, og annarrar fötlunar sem þá ætti ekki að kalla á fyrirgreiðslu af þessu tagi. En ég hygg að sá vandi sé raunar auðleystur þar sem læknar geti um þetta dæmt á eðlilegan hátt.

Ég hef fengið upplýsingar um það frá samtökum fatlaðra og raunar viðar að verðið, sem tilgreint er í grg. með þessu frv. okkar Helga Seljans 380 þús. kr. — er nú 460 þús. kr., er óeðlilega hátt. Til sölu eru í landinu talsstöðvar sem virðast vera fyllilega jafngóðar og þær sem hér um getur frá Landssímanum og eru miklu ódýrari. Í notkun eru á Íslandi núna 7–8 þús. svokallaðar almenningstalsstöðvar í bílum og bátum. Þessar stöðvar hafa reynst ákaflega vel. Sú tegundin, sem mest er af í notkun hér á landi og hefur fengið mesta reynslu., eru svokallaðar Lavayette-stöðvar sem nota 27 megariða sendibylgju. Þær munu nú vera í 2800–3000 bilum hérlendis. Almannavarnir hafa keypt þessar stöðvar, Slysavarnafélagið, lögreglan notar þær og Landhelgisgæslan, og þær hafa reynst afburðavel. Þessar stöðvar kosta nú með öllum búnaði, tilbúnar til þess að setjast í bifreið, að meðtöldum tolli, vörugjaldi og söluskatti, í kringum 45 þús. kr. Án þessarar álagningar, þ.e.a.s. að frádregnum tolli, vörugjaldi og söluskatti og með þeirri lækkun á álagningu, sem af slíku mundi leiða, mundu þær ekki kosta nema í kringum 20 þús. kr. Hér er að vísu galli á gjöf Njarðar, ef við ímyndum okkur að hið illa fatlaða fólk notaði stöðvar af þessari tegund, en hann er sá að Landssíminn hefur afneitað með öllu þjónustu við slíkar stöðvar þó að hér sé um að ræða 7–8 þúsund stöðvar í farartækjum á landi hér. Landssíminn neitar að afgreiða þessar stöðvar í gegnum Gufunes, og hafa reynst torfengin svör við því, hvers vegna Landssíminn fæst ekki til þess að hlusta á sendingar frá þessum stöðvum og svara þeim og annast þjónustu fyrir eigendur þessara stöðva. Ég vil ekki fullyrða neitt um orsakirnar fyrir þessu, enda þótt notendur stöðvanna ýmsir hverjir, þ. á m. opinberir og einstaklingar frómir, tjái mér það að þeir geti ekki fundið neina aðra orsök en þá að Landssíminn, eins og þeir segja, sé þversum í málinu. En þetta mál má að sjálfsögðu kanna betur.

Það er ljóst mál að þessar stöðvar, sá fjöldi sem nú er kominn af þeim, eru þegar orðnar ákaflega þýðingarmikið öryggistæki á landi hér. Bílarnir, sem þessi tæki eru í, eru vægast sagt víðs vegar í þéttbýli og strjálbýli, og notkun neyðarbylgju frá þessum senditækjum gæti verið ákaflega þýðingarmikill fyrir hið almenna öryggi. En hér er fjallað fyrst og fremst um nauðsyn öryrkja sem svo mjög eru fatlaðir að líf þeirra getur við legið ef bílarnir festast í ófærð, fara út af vegi eða bila á jafnvel alfaraleið, — að líf þeirra er í veði að þeim takist að láta til sín heyra og kalla á hjálp. Liggur þá náttúrlega í augum uppi, þótt ekki væri nema vegna þeirra tiltölulega fáu tuga manna sem þessi lög eru að sniðin, að þá er forkastanlegt ef það er ekki hægt að tryggja vakt á þeim bylgjulengdum sem eigendur þessara tækja nota.

Næst á prentaðri dagskrá þessarar hv. d. er annað lagafrv. sem varðar þetta sama mál. Mun ég mæla með því með örfáum orðum nú á eftir og læt því þessa framsöguræðu með frv. til l. um tollskrá o.fl. nægja.