07.03.1977
Neðri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs þegar þessi mál voru til umr. á sínum tíma fyrir helgina til þess að taka undir það sem fram hafði komið hjá þeim þm. sem þá höfðu tekið til máls, þ. e. a. s. hjá þeim hv. þm. Ellert B. Schram, Jónasi Árnasyni og Páli Péturssyni. Ég held að það sé vissulega tímabært, að hæstv. menntmrh. og starfsmenn menntmrn. og skólamenn í landinu verði áþreifanlega varir við að það eru einnig alþm. sem farnir eru að hafa áhyggjur af þróuninni í skólamálum.

Við höfum ekki aðeins áhyggjur af þróuninni eins og hún hefur orðið varðandi hina ýmsu skóla og framkvæmd grunnskólalaganna, heldur einnig vegna þess, að það virðist hafa sýnt sig á undanförnum árum að ef eigi að framkvæma grunnskólalögin eins og framkvæmd menntmrn. gerir ráð fyrir, þá muni það kosta íslenska ríkið og íslenska þegna óhemjumikið fé, og það er meira en vafasamt að mínu mati að sú fyrirhöfn eða þær fjárveitingar skili tilætluðum árangri. Ég vil t. d. aðeins leyfa mér að benda á að á þessu eina ári, árinu 1977, þarf að verja úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og sameiginlegum sjóðum borgara í Reykjavík um 500 millj. kr. til þess að vinna hluta af ráðgerðum framkvæmdum við svokallaðan Fjölbrautaskóla í Breiðholti. Þrátt fyrir það sé ég ekki enn að sá skóli hafi leyst nokkurn þann vanda sem átti að leysa einkum með tilliti til náms í hinum svonefndu faggreinum, þ. e. a. s. greinum sem ekki hafa verið flokkaðar undir bóknám, heldur frekar undir verknám.

Ég vil enn fremur taka undir það sem þeir sögðu, þm. sem töluðu hér áður, að þeir væru hræddir um að hráar erlendar kenningar í skólamálum ættu e. t. v. ekki alltaf við hér á Íslandi, og þá síst, hæstv. menntmrh., þegar það hefur komið í ljós að þær kenningar, sem verið er að flytja inn til Íslands, hafa þegar fengið talsverða reynslu í ýmsum nágrannalöndum okkar og menn eru þar óðum að falla frá þeim. Ég vil t. d. nefna þegar á sínum tíma var tekin upp mengjakennsla í stærðfræði í lægri bekkjum barnaskóla og svo áfram upp úr, þá var tekið upp danskt kerfi sem þá þegar var að ganga sér til búðar í Danmörku. Og síðan hafa menn verið að ástunda stöðuga tilraunastarfsemi við þessa kennslu, með þeim árangri, að þeim skólum fer sífellt fjölgandi sem eru teknir að kenna börnum, sem eru nýkomin á skólaskyldualdur, sömu kennslubækur í stærðfræði og ég og mínir jafnaldrar voru látnir læra fyrir 20 árum. Til hvers hefur þá öll fyrirhöfnin verið gerð ef þetta er niðurstaðan?

Í þessari gagnrýni okkar felst ekki nein lítilsvirðing á sérmenntun eða sérkunnáttu. En við teljum að sjálfsögðu farsælast að reynsla af skólastarfi og almenn skynsemi haldist í hendur við sérfræðikunnáttuna. En ég vil aðeins varpa þeirri hugmynd fram til þm. og biðja þá að athuga, — í því er ekki fólgin nein gagnrýni á þá menn, sem hlut eiga að máli, eða neinar árásir eða nein lítilsvirðing á hæfileikum þeirra, — þá vil ég biðja þm. að athuga — og hæstv. menntmrh. líka, hversu margir starfsmenn fræðsludeildar menntmrn. hafi reynslu í skólastörfum að öðru leyti en sem nemendur. Mér er það mætavel kunnugt, að á meðan embætti fræðslumálastjóra var og hét, þá sátu þar í skrifstofum menn sem yfirleitt höfðu mjög langa reynslu af skólastarfi sem kennarar og stjórnendur skóla. En mér er líka kunnugt um að t. d. skólamenn utan af landi komu varla til Reykjavíkur öðruvísi en að láta það verða sitt fyrsta verk að fara á skrifstofu fræðslumálastjóra til þess að ræða við þá embættismenn er þar störfuðu og höfðu langflestir reynslu af kennslu og skólastjórn að styðjast við. En ég er ansi hræddur um að það sé annað uppi á teningnum nú, vegna þess að mér er það mætavel ljóst og ef ég hefði haft meiri tíma, þá gæti ég sýnt fram á það með einstökum dæmum, að ýmislegt af þeim skýrslum og erindum og öðru því efni, sem hæstv. menntmrn. sendir frá sér til skólanna, er þannig úr garði gert, að það virðist vera því miður að þeir, sem þau skýrsluform hafa tekið saman, hafi sjálfir aldrei komið inn fyrir dyr skóla öðruvísi en sem nemendur einfaldlega vegna þess að ég hef sjálfur getað borið það augum, að mikið af þessum skýrslum, sem sendar eru út, er fyrir suma skóla, og þar á ég ekki við neina smáskóla eða sveitaskóla, heldur jafnvel mjög stóra skóla í kaupstöðum, ógerningur að útfylla eins og til er ætlast. Ég veit að ýmsir skólastjórar við slíka skóla hafa hringt til menntmrn. eða haft samband við það á einn eða annan hátt til þess að spyrjast fyrir um hvernig ætti að ganga frá þessum skýrslum, og þeir hafa ekki getað fengið svör.

Ég vil aðeins biðja menn að huga að þessu í leiðinni og jafnframt því, að skólamenn, og þar á ég við kennara og skólastjóra, hafa fyrir alllöngu hafið háværar umkvartanir yfir því, með hvaða hætti verið er að fjarstýra skólum frá stjórnarmiðstöðinni í Reykjavík án nokkurs samráðs við kennara eða skólamenn t. d. úti á landsbyggðinni og ekki aðeins úti á landsbyggðinni, heldur einnig í Reykjavík.

Ég er með hér í höndum félagsblað Landssambands framhaldsskólakennara og Sambands ísl. barnakennara, 2. árgang, 1977, 1. tölublað. Þar er grein eftir ungan kennara í Reykjavík, Guðrúnu Helgu Sederholm, þar sem hún lýsir því hvernig þetta svokallaða samráð, sem hæstv. ráðh. var að lýsa í ræðu sinni fyrr við þessar umr., kemur út gagnvart starfandi kennurum. Þar kemur m. a. fram, að það er haft samráð svokallað við kennara í þessum skóla, þar sem þessi ungi kennari starfar, um gerð námsskrár, en sú námsskrá er ekki lögð fram fyrir fund með þessum kennurum fyrr en talsvert eftir að hæstv. menntmrh. hafði áritað þessa námsskrá og staðfest hana og gefið hana út. Það má segja að það sé þarft og gott verk að ræða við kennara um námsskrárgerð nokkrum víkum eða mánuðum eftir að búið er að gera námsskrána, gefa námsskrána út og staðfesta hana, en það er ekki hægt að kalla, hæstv. menntmrh., að það sé samráð við kennara um gerð slíkrar námsskrár.

Mér er einnig mjög vel kunnugt um að þegar grunnskólalöggjöfin var í undirbúningi, — og mikið hefur verið rætt um að haft hafi verið samráð við kennara um setningu grunnskólalaganna og má það vera, — en mér er kunnugt um að t. d. í mínu kjördæmi var samráðinu hagað þannig, að kennarar voru kallaðir á fund og frv. lagt fyrir þá á þessum eina og sama fundi þar sem um málið átti að fjalla, þannig að þeim hafði ekki t. d. verið sent málið áður til kynningar, heldur komu þeir að þessum mikla lagabálki fyrst á sama fundinum sem samráð átti við þá að hafa.

Ég vil einnig geta þess, að í þessu sama tímariti, sem ég er með hér í höndunum, er birt ályktun sem samþ. er á almennum fundi í Félagi gagnfræðaskólakennara í Reykjavík 20. jan. s. l. Þessi ályktun hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fundur í Félagi gagnfræðaskólakennara í Reykjavík, haldinn í Ármúlaskóla hinn 20. jan. 1977, lýsir fullkominni andstöðu sinni við fjarstýringu í skólakerfinu. Undanfarið hafa ýmsar veigamiklar ákvarðanir í skólamálum verið teknar á næsta gerræðisfullan hátt í menntmrn., án þess að nokkurt samráð væri haft við starfandi kennara. Hér má t. d. nefna setningu nýrrar námsskrár og afdrifaríkar breytingar á tímasetningu samræmdra prófa grunnskólans. Fundurinn álitur þessa þróun mála vægast sagt horfa til óheilla og gerir þá kröfu til fræðsluyfirvalda, að framvegis verði meiri háttar ákvarðanir um skólamál ekki teknar án þess að þær séu fyrst bornar undir álit kennarafunda í skólunum og fullkomið tillit tekið til þess álits, sem þar kann að koma fram.“

Þessi ályktun var samþ. shlj. í Félagi gagnfræðaskólakennara í Reykjavík 20. jan. s. l. Ef gagnfræðaskólakennarar í Reykjavík, í höfuðstjórnstöð íslenska fræðslukerfisins, hafa þessa sögu að segja af samskiptunum við menntmrn., hvaða sögu skyldu þá kennarar grunnskólastigsins utan Reykjavíkur hafa að segja af þessum sömu samskiptum?

Í sjónvarpinu var fyrir nokkrum mánuðum rætt um áhrif embættismanna í stjórnkerfi okkar íslendinga. Þar var eitt sem ég saknaði frá þeim mönnum sem gagnrýndu of mikil völd embættiskerfisins, en það var sú einfalda ábending, að það virðist vera a. m. k. nú í seinni tíð að embættismenn ríkisvaldsins séu farnir að stjórna meira og minna með reglugerðum, þ. e. a. s. með útgáfu reglugerða geta þeir, að manni virðist, hart nær sniðgengið ákvarðanir sem teknar hafa verið af Alþingi íslendinga í sambandi við lagasmíð, allténd breytt mjög verulega inntaki þessara ákvarðana. Við skulum taka eitt dæmi, ekki um að niðurstöðum Alþ. sé breytt, heldur um óvænta útkomu á slíkri reglugerðarsamningu í sambandi við menntamál.

Öllum hv. þm. eru væntanlega í fersku minni grunnskólalögin, a. m. k. þeim þeirra sem um þau lög fjölluðu á sínum tíma. En skyldu menn á þingi hafa gert sér það í hugarlund, að í framkvæmdinni yrðu grunnskólalögin túlkuð þannig, að það væri einn höfuðglæpur af kennurum eða skólastjórum að láta getið eða ræða um einkunnir nemenda? Nú er búið með reglugerðarákvæðum að banna þetta. Skólastjórar og kennarar mega ekki geta um einkunnir nemenda í skólanum, t. d. ekki þegar skóla er slitið að vori. Þá mega þeir ekki geta þess, eins og oft hefur verið gert við sérstakar skólaslitaathafnir þegar verðlaun hafa verið veitt fyrir frammistöðu nemenda. Þetta er ákvæði sem mér er ekki kunnugt um að sé í grunnskólalögunum, en þetta hefur verið sett í reglugerð, að því er ég veit, og mælt fyrir um, að með þessum hætti skuli skólar starfa og þá sennilega út frá því sjónarmiði, að það muni hafa mjög slæm áhrif, muni fylla ungt fólk af komplexum og hvers kyns sálarkreppum ef skóli láti þess getið í umræðum eða við skólasetningu hvaða einkunnir nemandinn hafi borið úr býtum. Ég veit ekki annað en þessi gömlu ákvæði hafi gilt um alla hv. þm. í þeirra skólatíð, og verð ég nú ekki mjög var við að þeir almennt séu uppfullir af sálarkreppum og komplexum vegna þess að einhver hefur fengið að vita um hvernig þeim gekk í skóla á sinni tíð. En þetta er eitt dæmið af mörgum um það, hvernig framkvæmd getur, ég vil ekki segja breytt anda laga, en a. m. k. gert framkvæmdina þannig úr garði, að ég býst varla við því að nokkur þm. hafi á sinni tíð, þegar þessi mál voru til meðferðar hér í þinginu, búist við að þetta yrði ein af niðurstöðunum.

Ég vil einnig benda hv. þm. á að þessi svonefndu samræmdu próf eru harla lítið atriði í málinu í heild og harla lítilfjörlegt, þó að það hafi verið ástæðan fyrir því að umr. hófust um þessi mál hér á hv. Alþ., og ég tel fyllilega tímabært og eðlilegt, virðulegi forseti, að slíkar umr. skuli fara fram. En ég vil aðeins láta þess getið, og ég tek það fram sérstaklega: ég er enginn sérfræðingur í þeim málum, en ég hef af afspurn aflað mér upplýsinga um framkvæmd hvers konar nýmæla í skólum í nálægum löndum og mér er ekki kunnugt um að það sé gert nokkurs staðar, eins og það er gert hér, þar sem segja má að allt íslenska skólakerfið sé undir lagt af tilraunastarfsemi út og suður, bæði skipulagðri tilraunastarfsemi á vegum menntmrn. og skólarannsókna og óskipulagðri tilraunastarfsemi á vegum hinna og þessara aðila. T. d. fæ ég það ekki inn í mitt höfuð, hvernig það getur gerst, þegar á annað borð er búið að semja námsskrá fyrir einhverja grein á skyldunámsstigi, Ríkisútgáfa námsbóka er búin að gefa út með ærnum tilkostnaði námsbækur til þess að stunda nám samkvæmt þessari námsskrá, að þá skuli vera hægt að tilkynna foreldrum að að áliti — ekki skólarannsókna, ekki menntmrn., heldur einhverra einstakra skóla séu þessar bækur, sem Ríkisútgáfa námsbóka gaf út, oft í samráði við þá menn sem sömdu námsskrárnar, gersamlega óalandi og óferjandi, ómögulegar til að nota við kennslu, þannig að menn eru vinsamlegast beðnir um að útvega nemendum sínum, t. d. í erlendum tungumálum, aðrar bækur að nema, gefnar út af útlendum aðilum, sem að sjálfsögðu verða að greiðast af nemendum eða foreldrum nemenda: Þetta er eitt af mörgum furðulegum dæmum úr íslenska skólakerfinu sem leiðir það í ljós, að það er ekki aðeins undirlagt skipulögðum tilraunum menntmrn. og skólarannsókna, heldur einnig stjórnlausum fálmaðgerðum hinna og þessara einstaklinga innan skólakerfisins, sem hæstv. menntmrn. virðist ekkert eftirlit hafa með.

Ég verð enn fremur að lýsa furðu minni yfir því, að þetta sama skólakerfi virðist ekki vita hvað það er að gera með hægri hendinni, á sama tíma og það er að vinna ákveðin verk með þeirri vinstri. Eitt af stærstu vandamálum úti í hinum dreifðu byggðum er hin svonefnda farskólakennsla, þ. e. a. s. kennsla þar sem verið er að kenna saman börnum á mismunandi aldri og mismunandi þroskastigi. Það er niðurstaða allra þeirra, sem farið hafa með slík mál, að eitt mikilvægasta verkefni í skólamálum dreifbýlisins sé að útrýma þessari farkennslu vegna þess að kennsla skili ekki árangri eða a. m. k. mjög slæmum árangri ef þurfi að kenna saman nemendum á mismunandi þroskastigi, og íslenska ríkið leggur talsvert að sér fjárhagslega til að útrýma þessu skipulagi í hinum dreifðu byggðum landsins. En á sama tíma og þetta á sér stað gerir hæstv. menntmrn. sér lítið fyrir og heimilar svokallaða opna skóla á Reykjavíkursvæðinu; þar sem kenna á í sama bekk nemendum, — ja, ekki kannske svo mjög misjafnlega gömlum og þó, allt upp í 2–3 ára aldursmunur á, og nemendum á ólíku þroskastigi, og telur þetta vera eitt merkasta nýmælið í kennsluháttum á Íslandi í seinni tíð vegna þess að það sé svo hollt fyrir börnin að láta kenna saman nemendum á mismunandi þroskastigi. Þannig sem sagt gerir hæstv. ríkisvald eða kerfið — eða hvaða nafn sem menn vilja gefa því — eitt með hægri hendinni, annað með vinstri hendinni og vantar svo algjörlega samræminguna þar á milli.

Ég vil að endingu benda á, að kennsla er að sjálfsögðu uppeldi. Þar er verið að fjalla um mannlegar verur og mannleg viðfangsefni, og það verður harla seint sem slík vandamál verða leyst með miðstýringu eða af tölvum.

Ég vil aðeins biðja hæstv. ráðh. í lokin að huga að því ákvæði til bráðabirgða, sem sett var í lög um grunnskóla á sínum tíma, þar sem segir: „Að 4 árum liðnum frá gildistöku þessara laga skal menntmrh. gera Alþ. grein fyrir framkvæmd laganna og þá einkum undirbúningi að 9 ára skólaskyldu, þannig að Alþ. gefist kostur á að álykta á ný um það ákvæði.“ Ég tel að þetta ákvæði sé þess eðlis, að það feli í sér endurskoðun á bæði grunnskólalögunum og ekki hvað síst á framkvæmd grunnskólalaganna eins og hún hefur verið hjá hæstv. menntmrn. Þessa úttekt á að vera búið að gera áður en þing kemur aftur saman á næsta vetri, vegna þess að næsti vetur er sá vetur sem lögin mæla fyrir um að hæstv. menntmrh. eigi að skila Alþ. þessari skýrslu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort á hans vegum eða hans rn. séu þau störf hafin, sem þetta bráðabirgðaákvæði gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. úttekt á grunnskólalögunum og framkvæmd þeirra, og hvort hæstv. menntmrh. verði reiðubúinn til þess að gera Alþ. grein fyrir niðurstöðum þeirrar athugunar þegar á næsta vetri, svo að Alþ. gefist á ný kostur á að álykta um þessi mál.