09.03.1977
Efri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

104. mál, sauðfjárbaðanir

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að frv. um sauðfjárbaðanir hefur miðað svo áfram sem raun ber vitni. Ég er samþykkur því að meginstofni til og tel það vera til mikilla bóta frá fyrri ákvæðum. Ég vil færa hér í tal ákvæði 2. gr. Ég átta mig ekki vel á hvað sú breyting þýðir sem Nd. hefur gert á frv. Í frv., eins og það var lagt fram, segir svo í 2. gr.: „Böðun skal fram fara annan hvorn vetur milli 1. nóv. og 31. mars, þó aldrei fyrr en lokið er haustslátrun og aldrei fyrr en fé er komið á hús.“ Nd. hefur breytt þessari grein þannig: „Böðun skal fram fara annan hvorn vetur milli 1. nóv. og 1. mars“ — sem sé stytt tímann þarna um einn mánuð, tekið aftan af tímanum sem baða má, — „þó aldrei fyrr en lokið er haustslátrun og aldrei fyrr en fé er yfirleitt komið á hús.“ Hvort er þarna verið að herða á eða er þetta tilslökun frá ákvæðunum? Ef þetta er tilslökun, þá er það til mikils ófarnaðar og öryggisleysis um að böðun geti heppnast. Það, sem öllu máli skiptir, er að ekki sleppi fram hjá böðun ein einasta kind. Ég hefði talið að það réttasta í þessu væri að leyfa ekki böðun fyrr en 1. des. Þá væri þó nokkur trygging fyrir að allt féð væri heimt.

Ég vildi aðeins bera þetta í tal hér við 1. umr. Þetta kemur að sjálfsögðu til athugunar í n. En mér líkar það ekki ef þarna er átt við að það eigi að hafa einhverja linkind á um það hvenær megi hefja böðun. Ég hef orðið vitni að því, því miður, oftar en einu sinni að einn og einn maður hefur tekið sig fram um að baða löngu á undan öðrum, og það þýðir að hans baðaða fé kemur oft og tíðum saman við óbaðað fé annarra og þar með böðun ónýt.