09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Sigurður Magnússon:

Hæstv. forseti, Ég ætla að gera stutta grein fyrir nál. minni hl. n., en í því segir:

„Lögin um dvalarheimill aldraðra, sem sett voru 1973, gerðu ráð fyrir að ríkissjóður greiddi þriðjung af kostnaði við byggingu slíkra stofnana, tækja þeirra og búnaðar.

Árið 1975 var þetta ákvæði numið úr lögum að frumkvæði núv. stjórnvalda undir yfirskini verkefnaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, og með því ákveðið að sveitarfélögin ein hæru kostnað þennan að fullu.

Þessi breyting, sem er mjög óréttlát, hefur valdið sveitarfélögunum margvíslegum erfiðleikum og geysilegu misrétti milli sveitarfélaga.

Dvalarheimili fyrir aldraða eru stofnanir sem nauðsynlegt er að koma á fót sem víðast á landinu. Það er hins vegar ljóst, að fjöldinn allur af sveitarfélögum víðs vegar um land hefur ekki bolmagn til að fjármagna slíkar framkvæmdir að öllu leyti, og hlýtur því að teljast eðlilegt að ríkisaðstoð komi hér til, eins og lögin frá 1973 gerðu ráð fyrir.

Það er því skoðun minni hl. heilbr.- og trn., að allt mæli með því að breyta lögunum í hið fyrra horf, og leggur hann því til að frv. verði samþ.

Að þessu minnihlutaáliti stendur auk mín hv. þm. Karvel Pálmason.

Hér er sem sagt fyrst og fremst um það að ræða, að reynslan hefur sýnt að sveitarfélögum í landinu er ofviða að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum á þessu sviði nema með ríkisaðstoð, og því er þetta lagt til hér.