27.10.1976
Neðri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

18. mál, skylduskil til safna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég get nú í raun og veru tekið undir svo til allt það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Þetta frv. til l. um skylduskil til safna hefur sætt mikilli andstöðu frá ýmsum aðilum. Ég kem hér upp fyrst og fremst til þess að koma á framfæri sjónarmiðum bæjarstjórnar og bæjarráðs Ísafjarðar að því er varðar þetta frv. og afleiðingar af því ef það verður samþ. Bæjarráð Ísafjarðar bendir sérstaklega á það, að með þessu frv. er verið að leggja mjög auknar fjárhagslegar byrðar á örfá söfn í landinu, og það er það sem í raun og veru mun gerast, eins og hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á. Einnig færa menn rök fyrir því, að eðlilegt sé að skilaskyld eintök séu varðveitt í hverjum landsfjórðungi. Sérstaklega benda þeir ísfirðingar á að ástæða sé til að hafa það í huga, að minni líkur séu á að slíkt safn fari forgörðum vegna þess að Vestfirðir eru ekki á jarðskjálftasvæði og því meiri líkur fyrir að þar varðveitist slík gögn sem þar kæmu til með að vera. Ef frv. þetta yrði að lögum, þá fæli það í sér m.a. að skylduskil til bókasafnsins á Ísafirði mundu falla niður. Það mun vera ljóst.

Á bókasafninu á Ísafirði var um að ræða 405 bækur á árinu 1972 sem voru yfir 48 síður, 212 bæklinga og 286 tímarit og árbækur. Og það er ljóst að um þriðjungur þessara bóka, sem bárust, var bundinn eða heftur og þannig nothæfur á lestrarsal bókasafnsins. hetta mundi, ef að þessu yrði horfið, hverfa út. Og það er augljóst að verði þetta frv. samþ., þá verður þetta safn og önnur, sem eins er ástatt um, að kaupa megnið af þeim bókum sem þau annars fengju í skylduskilum. Bæklinga og tímarit má segja sama um. Og það er talið að aukinn kostnaður að þessu leyti mundi a.m.k. nema um hálfri millj. kr. bara fyrir bókasafnið á Ísafirði.

Ég held að það sé varhugavert að fara inn á þessa braut, sem hefur í för með sér þverrandi möguleika bókasafna úti á landi til þess að reka þær stofnanir sem þar er um það að ræða. Það er ekki síður, miklu frekar ástæða til þess að hafa tiltækar bækur og tímarit í safni úti á landi heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem má a.m.k. í flestum tilfellum treysta á hin stóru ríkissöfn og sérfræðisöfn. Ég vil því eindregið mælast til þess við þá hv. n., sem þetta frv. fær til umfjöllunar, að hún taki tillit til þessara sjónarmiða, einmitt þessara safna sem verst eru sett, verst hafa verið sett og verður gengið á hluta þeirra ef af samþ. þessa frv. verður eins og það nú liggur fyrir. Og ég vil segja það strax, að fáist engin breyting á þessu í meðförum n. á þessu frv., Því mun ég greiða atkv. gegn því.