21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Við höfum hér í höndum frv. sem flutt er til þess að lögfesta framkvæmd á lögum sem samþ. voru á Alþ. í maí 1975. Sú framkvæmd, sem var á þessum lögum, var í fullu samræmi við þau lög að mínu mati og í fullu samræmi við þann vilja sem fram kom hér á Alþ. þegar frv. var til umr. M. ö. o.: framkvæmdin var fyllilega eins og til var ætlast og til stóð.

N., sem samdi reglugerð samkv. þeim lögum, var á einu máli um að svo skyldi staðið að framkvæmdinni sem gert var á síðasta ári. Hér væri um að ræða bætur, sem væru annars eðlis en atvinnuleysisbætur í venjulegum skilningi. Þegar af þeirri ástæðu kæmu ekki til greina hin umræddu skerðingarákvæði sem frv. fjallar nú um að sérstaklega skuli tekin af tvímæli um. Engu síður var það svo, að upp reis ágreiningur síðast á árinu 1976 um túlkun þessa lagaákvæðis. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs bað um lögfræðilega umsögn frá lagadeild Háskóla Íslands, og á vegum lagadeildar Háskóla Íslands gaf umsögnina settur prófessor Stefán Már Stefánsson borgardómari, sem er mjög fær maður í sínu fagi. Hans mat var að taka hefði þurft af tvímæli um þetta atriði í lögunum er þau voru sett.

Ég vil undirstrika að þetta mál fjallar ekki á neinn hátt um efniságreining í þessu sambandi. Hér er einungis verið að tryggja að ekki komi til frekari ágreinings um túlkun á lögunum.

Í jan. s. l. gerði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samþykkt sem olli því, að skyndilega voru skertar greiðslur á fæðingarorlofi til mæðra sem áttu maka sem höfðu meira en 1 400 090 kr. í árstekjur, og þar eð þetta snertir mjög margar konur, m. a. allar sjómannskonur á landinu, þá fara menn nærri um það, að þessi ákvörðun olli mikilli óánægju og hefur sætt hörðum mótmælum í þeim verkalýðsfélögum landsins sem hafa konur innan sinna vébanda. Og þessi samþykkt hefur ekki aðeins sætt mótmælum kvenna. Bæði ég og vafalaust fjölmargir aðrir þm. hafa fengið upphringingar frá eiginmönnum viðkomandi kvenna þar sem þeir lýsa óánægju sinni yfir þessu atriði og beiðast þess, að þetta atriði verði hið snarasta leiðrétt á Alþingi.

Eins og menn sjá, þá standa að flutningi þessa frv. margir þm., þm. úr fjórum flokkum. Auk flutningsmanna þeirra, sem á sínum tíma fluttu frv. til þeirra laga um fæðingarorlof sem nú eru í gildi, bættust í hópinn flutningsmenn úr Alþfl. og þingflokki SF.

Það var að sönnu boðið að þm. úr Alþb. yrði meðflm. Var þm. eins og meðflm. fengið frv. ásamt grg. þess í hendur sem trúnaðarmál fyrir viku, sennilega um þetta leyti dags., og sem von var vildi hv. þm., sem var hv. 5. landsk. þm., hafa málið til athugunar fram eftir degi, ráðgast við sína flokksmenn. En ég óskaði eftir því, að ég fengi svar við þessari spurningu minni fyrir kl. 7 þann dag þar eð ég hugðist flýta því að leggja inn málið. Mér virtist að hv. þm. þætti það heldur bagalegt að þurfa að svara þessu tilboði svo fljótt og það var í sjálfu sér eðlilegt. En seinna um daginn, þegar flokksfundir stóðu yfir, fékk ég það svar að hv. þm. kærði sig ekki um að vera meðflm., heldur hefði raunar e. t. v. í hyggju aðra lausn. Það kom á daginn að þá stund, sem hv. þm. hafði þetta frv. undir höndum sem trúnaðarmál til athugunar, hvort hv. þm. vildi verða meðflm., þá rétt á meðan hafði þm. lagt inn í skjalasafn þingsins það frv. sem við vorum hér að ræða áðan og fjallar mikið til um sama mál. Ég fékk ekki upplýsingar um þetta fyrr en ég fékk frv. prentað í hendur næsta morgun, rétt í þann mund að ég ætlaði að fara að hringja í hv. þm. og spyrja hvort henni hefði unnist tími til að athuga það betur, hvort hún kærði sig um að vera flm.

Ég skýri frá þessu hér vegna þess að mér þótti vera ærið undarlegur svipur á framlagningu skjala þennan dag, að hér eru hlið við hlið tvö frv. um mjög svipað efni, þó með nokkuð ólíku sniði sé. Og ég verð að segja að það að standa með þessum hætti að málum kemur mér ákaflega óvenjulega fyrir sjónir. Ég hygg að ég hafi satt að segja aldrei orðið vör við slíkt, hvorki í hópi samherja né andstæðinga. En það er misjafn smekkur manna og sínum augum lítur hver á silfrið, og ég mun ekki ræða það atriði frekar.

Þetta frv„ sem við erum nú að ræða og er á þskj. 383, hafði verið til athugunar í þingflokkum á tveim þingflokksfundum stjórnarflokka: á miðvikudagsfundi og síðan á mánudagsfundi, að ég ætla, og það varð úr að allir þessir flm. stóðu að málinu. Ætlunin var að fá í flutning þessa máls pólitíska breidd, ef svo má segja, til að leggja áherslu á að hér væri síður en svo um efnislegt ágreiningsmál að ræða, hér væru menn sammála um að væri mál sem brýna nauðsyn bæri til að leiðrétta fljótt.

Ef ég má aðeins víkja að fyrra frv. á þskj. 386, með leyfi hæstv. forseta, þá vil ég geta þess, að ég er út af fyrir sig sammála þessu atriði efnislega. En hv. þm. vissi þegar hann flutti það frv., vegna þess að þess er getið í niðurlagi grg. sem hann hafði undir höndum sem trúnaðarmál frá mér, að ráðh. hafði ákveðið að skipa n. til að gera heildarendurskoðun á lögunum um atvinnuleysistryggingar. Segir í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Þar er margra lagfæringa þörf. Ljóst er að heildarendurskoðun verður flókið verk og tímafrekt. Það eina atriði, sem frv. þetta fjallar um (þ. e. a. s. 388), þolir hins vegar ekki bið og er í raun staðfesting á vilja Alþ. í þessu máli.“

Þetta er sagt til þess að varpa ljósi á þá framkomu mína og e. t. v. annarra hér við 1. umr. um frv. hv. 5. landsk. þm., að við tókum ekki sérstaklega til máls í sambandi við það frv. Ég veit ekki hver afstaða annarra hv. þm. er til þess, en efnislega er ég því samþykk. Mér sýnist það hins vegar vera þess eðlis, að það sé ákaflega eðlilegt að það verði upp tekið í sambandi við heildarendurskoðun laganna um atvinnuleysistryggingar. Þau lög hafa að geyma mörg atriði sem vissulega eru töluvert athugaverð og eru dálítið öðruvísi forsendur fyrir nú en þegar viðkomandi ákvæði voru sett. Sannleikurinn er sá, að menn hafa smátt og smátt bætt ýmiss konar ólíkum verkefnum inn í lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð. Sem dæmi má nefna að af um það bil 1600 millj. kr. áætluðum tekjum ársins 1977 reikna menn með samkv. venjum og reglum sjóðsins að varið verði um það bil 678 millj. í kaup á ýmiss konar bankavaxtabréfum vegna hinna ólíkustu verkefna. Hér er um að ræða verkefni sem fyrir löngu er búið að fela öðrum sjóðum sem stofnaðir voru eftir að þessar venjur voru upp teknar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, svo að þarna eru verulega stór verkefni til endurskoðunar.

Ef ég nefni dæmi um ýmis smærri verkefni, þá er það t. d. svo, að stjórn sjóðsins er heimilt að veita þátttakendum í starfsþjálfunarnámskeiðum styrk sem nema má allt að því jafnhárri fjárhæð og atvinnuleysisbætur fyrir hvern þátttakanda í slíkum námskeiðum, að viðbættri þátttöku í ferðakostnaði og öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum. Enn fremur má benda á eitt atriði og þá sérstaklega í sambandi við það, sem hv. 5. landsk. þm. nefndi, þegar viss hópur kvenna. missti atvinnu sína — þær sem unnið höfðu í mjólkurbúðum — eða missti a. m. k. þann möguleika að vinna í útsölum Mjólkursamsölunnar. Fyrir slíkan hóp, sem e. t. v. hefði ekki haft úrræði um aðra atvinnu, hafa þessi lög að geyma vissa úrlausn, en sjóðsstjórninni er heimilt að kosta námskeið fyrir fólk sem verður atvinnulaust vegna breytinga á atvinnuháttum. Mér sýnist að þar hefði e. t. v. verið möguleiki að hlaupa undir bagga með þessum konum. Þetta er aðeins dregið hér fram til ábendingar.

Herra forseti. Ef ég rétt aðeins rifja upp rökin fyrir því, að það er nauðsynlegt að breyta þessu máli í það horf sem lagt er til í frv., þá liggur það fyrir að það viðurkenna allir nú á dögum að þriggja mánaða fæðingarorlof hið minnsta sé nauðsynlegt til þess að tryggja heilsu nýfædds barns og móður þess. Þetta teljast í öllum velferðarþjóðfélögum sjálfsögð réttindi, sjálfsögð trygging fyrir heilsufari, líkamlegu og andlegu. Þær konur, sem hafa unnið hjá hinu opinbera, hafa haft þessi réttindi samkv. lagaheimild í rúma tvo áratugi. En þær konur, sem annars staðar voru launþegar, hafa hins vegar ekki fengið þessi réttindi fyrr en með lögunum frá því í maí 1975. Sem betur fer var Alþ. með yfirgnæfandi meiri hl. um það sammála, að úr þessu misrétti yrði að bæta, enda var ekki vansalaust að þjóð okkar væri hin eina meðal menningarþjóða á norðurhveli jarðar sem ekki hafði lögleitt þetta atriði. Eins og hv. 5. landsk. þm. nefndi, þá voru hér nokkrar deilur um fjármögnunina. Það var skoðun flm. og meiri hl. Alþ., að eins og sakir stóðu væri þetta eina leiðin sem fær væri og það væri ljóst að sameiginlegur sjóður, sem atvinnurekendur greiddu iðgjöld í, stæði undir þessum greiðslum. Það er ljóst að margur smáatvinnurekandi hefur engan veginn bolmagn til þessa um leið og hann verður að kosta annan vinnukraft í þessu þriggja mánaða fríi. Sú framkvæmd hefði smátt og smátt leitt til þess — og hefur gert á undanförnum árum — að konum hefði verið neitað um störf í mörgum tilfellum vegna þess að þær voru konur. Sérstaklega ef konu varð á að upplýsa að hún væri trúlofuð eða jafnvel gift, ég tala nú ekki um ef leit út fyrir að hún ætti barn í vændum, þá var í mörgum tilfellum vonlaust fyrir hana að fá vinnu við tiltekið starf, þó svo að hún hefði jafnvel menntun eða hæfileika til að bera enn meiri en karlmaður sem síðan var ráðinn í starfið. Um þetta veit ég nokkur dæmi og mun ekki tíunda þau hér. En regla eins og sú, sem fest var í lög þegar fæðingarorlofslögin voru samþ., dregur úr þessum erfiðleikum fyrir konurnar.

Eins og hv. 5. landsk. þm. var svo elskuleg að skýra hér frá, liggur það ljóst fyrir um hvað þetta frv. á þskj. 388 fjallar efnislega. Það eru tvær skerðingarreglur sem við ætlumst til að hafi ekki áhrif á fæðingarorlofsgreiðsluna, nánar tiltekið reglur um tekjumark maka og hins vegar bætur almannatrygginga. Það segir sig sjálft af þeim rökum, sem öllum eru ljós, að þetta er eðlilegt í þessu sambandi. T. d. má benda á það, að ef bætur almannatrygginga ættu að skerða fæðingarorlofsgreiðslur, þá mundi það útiloka einstæðar mæður, því að þær hafa að sjálfsögðu bætur úr almannatryggingum. Þannig kæmi það mjög óeðlilega út ef þessi skerðingarákvæði væru látin gilda.

Ég vona, herra forseti, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, og ég legg til að það verði heilbr.- og trn., veiti þessu máli mjög greiða afgreiðslu. Ég held að það sé engin ástæða til að vísa þessu máli til umsagna. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað hér er um að ræða. Hér er um að ræða staðfestingu á þegar fram komnum vilja Alþ., í raun og veru leiðrétting á framkvæmd.