28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun vegna tilmæla forseta hafa þetta mál mitt ákaflega stutt, en tek það fram, beint ofan í beiðni hv. þm. Ingvars Gíslasonar um að fá orðið, að ég tel þessum umr. ekki lokið og ber að líta á þessi fáu orð mín núna sem upphaf að lengri ræðu í því trausti að umr. verði aðeins frestað.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við þessum fsp. Að vísu láðist honum, eflaust vegna tímaskorts, að gefa mér svar við því hver hlutur Vals Arnþórssonar, forseta bæjarstjórnar Akureyrar, væri í þessu máli, þar sem hann sýnir Gunnari Kristjánssyni bónda á Dagverðareyri og oddvita þeirra í Glæsibæjarhreppi hið lauslega riss Norsk Hydro af verksmiðju á landi hans og þeirra Glæsibæjarhreppsmanna, þar sem málið er þó komið á það stig að um það virðist vera að velja hvort verksmiðjan snúi austur og vestur eða suður og norður og að eitt af bestu býlum sveitarinnar fari undir verksmiðjugrunninn. Ég bað um skýringar á hlutdeild Vals Arnþórssonar í þessu máli, hvaða hlutverki hann gegndi í því. Ég efast ekki um að hæstv. ráðh. muni segja okkur nánar frá þessu þegar tími gefst til að ræða þetta mál til hlítar.

Ég hét forseta því að hafa aths. mína mjög stutta, verð þó að eyða tíma í ítrekun á þeirri staðhæfingu minni, sem hæstv. ráðh. afgreiddi með sínum fágaða „elegans“ á þriðjudaginn var, þegar hann sagði að ég virtist vita meira um þetta mál heldur en hann. Ég ítreka það, að þetta álverksmiðjumál er lengra á veg komið en menn vilja þér vera láta.