28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og kom fram í grg. minni á þriðjudaginn, þá var ákveðið á s.l. ári að fulltrúar frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað ásamt fulltrúum frá Norsk Hydro skyldu kanna og gera till. um hvernig haga skyldi umhverfisathugunum ef til kæmi. Þessir fulltrúar voru á Akureyri nú seinni hluta sumars og höfðu þá samband við forseta bæjarstjórnar Akureyrar, Val Arnþórsson, og mun fulltrúi viðræðunefndar hafa afhent honum þá skýrslu og grg. með þeim lauslegu teikningum sem ég gat um og Norsk Hydro hafði sent 5. febr. 1975. Það er rétt að taka það fram, að vitanlega hefði verið rétt að fulltrúi viðræðunefndar léti oddvitann einnig fá þessa skýrslu. Af einhverjum ástæðum hefur það farist fyrir, en úr því hefur nú verið bætt.

En varðandi þátt Vals Arnþórssonar, þá vil ég algerlega mótmæla ummælum hv. fyrirspyrjanda, því að ég sé ekki annað en hann hafi aðeins gengt skyldu sinni sem forsvarsmaður bæjarstjórnar Akureyrar og tekið við þeim upplýsingum sem þessir fulltrúar höfðu að gefa. Ég sé ekki að nokkur minnsta ástæða sé til þess að áfellast Val Arnþórsson fyrir eitt eða annað í þessu máli.