14.10.1976
Efri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

21. mál, leiklistarlög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins í sambandi við niðurlag 2. gr. og vegna aths. síðasta hv. ræðumanns, hv. 12. þm. Reykv., sem ég vildi koma fram með skýringu, Ég hef ekki gildandi lög fyrir framan mig sem stendur, en efnislega er þetta eins. Nú eru leikfélögin, ef ég man rétt, flokkuð eftir þeirra starfsemi í eina þrjá flokka, og er kveðið svo á í gildandi lögum að til þess að sveitarsjóðir veiti tiltekna hámarksupphæð öðlist leikfélögin kröfu til sams konar upphæðar frá ríkinu, þannig að efnislega er þetta nánast það sama í dag. Það má vera að það sé öðruvísi orðalag. En í dag er það þannig, að ef sveitarstjórn veitir ekki tilteknu leikfélagi þá hámarksupphæð sem það gæti fengið eftir því sem starfsemi þess er metin, þá lækkar og framlag ríkisins, ef ég man rétt, þannig að ríkisframlagið er bundið því að jafnhá upphæð komi frá sveitarfélaginu. Það má kalla að þetta sé fjarstýring. En ég lít nú þannig á að þarna sé um samvinnu ríkis og sveitarfélaga að ræða um að leggja fram jafnháa upphæð í hverju tilviki til þessarar starfsemi, og það er ekki síður á valdi sveitarstjórnarinnar að ákveða hvort þarna verði um fullháa upphæð að ræða af hálfu sveitarfélagsins og það sama af hálfu ríkisins. (Gripið fram í.) Ja, það er ekki síður á valdi sveitarstjórnarinnar að ákveða það.