28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það hefur nú ekki mikið upp á sig að halda hér langa ræðu að viðstöddum 7 þm. og ráðh. fjarstöddum, en þar sem ég flyt nú allnokkrar till. við afgreiðslu þessa máls þykir mér hlýða að fara um þær fáeinum orðum.

Hér hafa margir ræðumenn látið í ljós þá skoðun sína, að fjárveitingar til vegamála séu allt of naumar, og undir það get ég tekið. Það er tæpast hægt að hafa uppi nægilega sterk orð til að lýsa ástandi mála í þessum efnum. Þessar fjárveitingar eru fáránlega lágar. Og þegar hæstv. samgrh. gengur í salinn er kannske ekki úr vegi að bæta því við, að eftir að hann tók við embætti ráðh. vegamála hafa fjárveitingar til vegamála verið svo naumar að um hefur verið að ræða afturför í vegakerfinu í heild á hverju ári, eins og ég mun víkja að hér á eftir. Það má að vísu vel vera að finna megi ákveðna þætti vegamálanna þar sem um framför er að ræða og þó einkum á sviði stofnbrauta, en hið sama gildir alls ekki um þjóðbrautirnar. Þar er það staðreynd málsins að um er að ræða meiri eyðingu á ári hverju en uppbyggingu. Ég ætla að taka hér eitt dæmi úr mínu kjördæmi, Norðurl. y. Þar eru þjóðbrautir 708 km að lengd. Samkv. upplýsingum, sem sérfræðingar Vegamálaskrifstofunnar hafa veitt, er talið að malarvegir úti um dreifðar byggðir landsins endist í á að giska 25 ár. Til þess að halda í horfinu miðað við ýmissa km-tölu, 708 km af þjóðbrautum í Norðurl. v., þyrfti að byggja á hverju ári 28 km hið minnsta. En á vegáætlun eru nú veittar 80 millj. kr. á hverju ári næstu þrjú árin, og þessar 80 millj. duga til þess að byggja upp 10 km langa vegi. Það þarf sem sagt þrisvar sinnum hærri upphæð en veitt er til þjóðbrauta á Norðurl. v. til þess bara einfaldlega að halda í horfinu, til þess að ekki sé um meiri eyðingu að ræða heldur en uppbyggingu.

Nú er það að vísu svo, að þjóðbrautirnar fá aðeins 16% af því fé sem veitt er til vegaframkvæmda, og er þá allt talið: stofnbrautir, þjóðbrautir, fjallvegir, sýsluvegir og brúargerðir. En ef á heildina er litið mun það sannast sagna, að til þess að halda í horfinu í vegakerfinu í heild þyrftu fjárveitingar til vegamála á þessu ári að hækka um 30%, þær þyrftu að vera um það bil þriðjungi hærri en þær eru, bara til þess að halda í horfinu. En þær þyrftu sem sagt, eins og ég sagði hér áðan, að vera 300% hærri ef við lítum einungis á þjóðbrautirnar, vanræktasta hlutann af vegaframkvæmdum hér á landi.

Ég hef heyrt menn nefna það í þessum umr. að réttast væri að taka erlend lán til að byggja upp vegi. En ég vil strax lýsa því yfir að ég tel að slíkar hugmyndir séu algerlega fráleitar, og ég er gersamlega andvígur því að sú leið sé farin. Ég tel ekki að vegaframkvæmdir séu í hópi þeirra framkvæmda sem forsvaranlegt er að staðið sé í fyrir erlent lánsfé. Ég veit að vísu að það er tiltölulega auðvelt að koma með grunnfærnislega útreikninga á því hversu mikill gjaldeyrissparnaður sé fólginn í því að vegur er byggður. En ég held að það sé ansi lítið mark takandi á slíkum útreikningum. Ég held að vegaframkvæmdir verði að fjármagna einfaldlega af innlendum sparnaði, með framlögum úr ríkissjóði og með skattlagningu á umferðina. Ég vil hins vegar taka það sérstaklega fram, að ég tel að útgáfa vísitölutryggðra skuldabréfa til vegaframkvæmda eigi nú sem fyrr lítinn rétt á sér og ætti alls ekki að eiga sér stað. Það er ekkert annað en ávísun á framtíðina, skuldabaggi sem verið er að leggja á herðar skattgreiðenda eftir nokkur ár og ætti ekki að þekkjast.

Með þetta í huga, sem ég hef nú sagt, flytjum við hv. þm. Lúðvík Jósepsson till. á þskj. 434 þar sem við gerum ráð fyrir því að helmingurinn af söluskattstekjum ríkissjóðs af bensíni renni til vegamála, til aukinna vegaframkvæmda. Við teljum, að auðvelt sé fyrir ríkissjóð að fylla það skarð með öðrum hætti, og höfum reyndar oft bent á það, m. a. við umr. um skattamál hér, að ríkissjóður gæti aflað sér miklu meiri tekna en hann gerir.

Jafnframt flytjum við nokkrir þm. till. á þskj. 439 þar sem við gerum ráð fyrir því að sérstakt hraðbrautagjald verði lagt á bensín- og dísilolíu á þeim stöðum sem tengjast vegakerfi með varanlegu slitlagi. Hér á Alþ. hefur oft áður verið rætt um það, hvort ekki sé eðlilegt að nota þá heimild sem er í 95. gr. vegalaga um álagningu umferðargjalds, og þá hefur venjulega verið talað um það í því formi að innheimt sé gjald af tilteknum vegum eða brúum. En Alþ. hefur ekki viljað fallast á að sú heimild yrði notuð nú í seinni tíð, og við teljum því rétt að umr. fari í annan farveg og stingum upp á öðru fyrirkomulagi á greiðslu slíks hraðbrautagjalds. Ég held að ekki verði á móti mælt að innheimta slíks gjalds væri fyllilega sanngjörn og eðlileg og hún gæti þá orðið til þess að Vegasjóður gæti staðið undir vöxtum og afborgunum af lánum sem tekin hafa verið til að standa undir lagningu slitlags á hraðbrautir, svo að aukið fjármagn sé til annarra framkvæmda. Í þessum töluðu orðum tek ég eftir að í tillgr. mun vanta eina setningu sem fallið hefur niður, og vona ég, að það verði leiðrétt. Það vantar orðin „til að standa undir vöxtum og afborgunum lána, sem tekin hafa verið til lagningar slitlags á hraðbrautir“, það vantar þarna alveg heila setningu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessa till., en vil svo að lokum geta þess, að við flytjum á þskj. 438, hv. þm. Stefán Jónsson og ég, till. um að Norðurlandsáætlun verði áfram sérstakur líður í vegáætlun. Um þessa till. er engin ástæða til að fjölyrða. Það var samþykkt fyrir nokkrum árum að varið skyldi sérstöku fjármagni til vegamála á Norðurlandi, eins og gert hafði verið um fleiri landshluta. Upphæðin, sem ætluð var til þessara framkvæmda, hefur hins vegar rýrnað mjög verulega ár frá ári, en upphæðin, sem hér er nefnd, 200 millj., er sú sama sem ætluð var 1 þessu skyni í vegáætlun fyrir tveimur árum, 200 millj. á ári. Síðan fylgir á þskj. 438 sundurlíðun þessara framkvæmda. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja þær framkvæmdir í einstökum atriðum. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Stefán Jónsson geri grein fyrir þessum fjárveitingum að svo miklu leyti sem þær renna til Norðurl. e. Um fjárveitingar til Norðurl. v. er það að segja, að samkv. þessari till. er gert ráð fyrir að vegur, sem mjög hefur verið vanræktur, Siglufjarðarvegur, fái þarna nokkra fjárveitingu, en að öðru leyti er mjög mikil áhersla lögð á svonefnda Laxárdalsheiði sem liggur út á Skaga. Þessi heiði er mikill farartálmi að vetri, og sú sveit, sem þar er, er algerlega slitin úr samhengi við vegakerfið oft mánuðum saman, en þar er þó enginn flugvöllur og heldur engin höfn, og þegar samgöngur yfir Laxárdalsheiði eru tepptar, þá er þessi sveit algerlega einangruð. Það hefur lengi staðið til að byggja upp þennan veg, en ekki orðið af því. Þessi vegur er í hópi þessara margumræddu þjóðbrauta sem eru mjög vanræktar og hafa verið það á undanförnum árum og einmitt þess vegna er í þessari till. lögð mest áhersla á þær.