29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2966 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en þó gefa orð síðasta ræðumanns mér tilefni til þess að segja örfá orð. Hann sagði að það ætti að vera gullvæg regla fyrir alla að vita hvort þeir færu með rétt mál eða ekki. Hann vildi ekki fara með nema rétt mál. Þetta er góð regla. En menn þurfa þá að vita, áður en þeir fara að tala, hvað er rétt og fara þá rétt með af því þeir vita hver sannleikurinn er. En mér fannst koma fram í máli hv. síðasta ræðumanns að hann skorti upplýsingar um ýmis atriði, sem hann teldi sér nauðsynlegt að fá, og auðvitað hefði verið æskilegt að hann hefði aflað sér þeirra upplýsinga áður en hann lét á sínum tíma frá sér fara þau ummæli, sem eftir honum hafa verið höfð og e. t. v. hafa orðið tilefni til þess að um málið hefur verið skrifað á öðrum stöðum.

Ég er hv. þm. ekki sammála um að þau skrif megi ekki flokkast undir æsiskrif. Ég flokka þau undir æsifregnir. Fregnir af þessu tagi eru til þess skrifaðar að vekja æsing og eru óheppilegar. Það vænti ég að hv. þm. viðurkenni þegar hann hugsar málið betur. Auðvitað má skoða öll mál og endurskoða löggjöf og þar á meðal löggjöf um Seðlabankann eins og annað. En ég held að það hafi verið nokkuð ofmælt, sem hann sagði varðandi Seðlabankann, að hann hafi sett Útvegsbankanum einhvern sérstakan ramma. Auðvitað hefur Seðlabankinn ekki sett Útvegsbankanum neinn sérstakan ramma. Það hafa gilt alveg hliðstæðar reglur og sömu lánareglur fyrir Útvegsbankann eins og aðra banka. Ef hann á við með þessum ramma það þak sem sett hefur verið varðandi útlán bankanna, þá er þar um að ræða reglur sem bankarnir hafa gengið undir með samkomulagi við Seðlabankann. Og það er nú svo með banka, að þeir lána ekki annað fé og geta ekki lánað annað fé en þeir fá til meðferðar hjá sparifjáreigendum eða þá fá að láni hjá einhverjum öðrum lánardrottnum. Og það er auðvitað öllum kunnugt, að það ráðstöfunarfé, sem bankarnir hafa til útlána, er takmarkað af þeirri einföldu ástæðu að sparifé er ekki nægilegt fyrir hendi, og ég býst varla við að það þurfi að rekja það fyrir hv. alþm. hverjar ástæður liggja til þess a. m. k. að verulegu leyti, sem sé þær, að hér hefur verið mikil verðbólga og menn hafa gjarnan viljað setja fjármuni sína frekar í annað heldur en að legg,ja þá inn í banka. Þar af leiðandi hefur sparifé bankanna ekki hrokkið til að mæta þeim þörfum sem þeir hafa orðið að fullnægja. Og á bönkum hvíla vissar skyldur og þar af alveg sérstaklega á ríkisbönkum. Þeir eru bankar atvinnuvega og hafa talið sér skylt að vera það, eru það samkv. beinum lagabókstaf, og þess vegna hefur það verið þannig, að Útvegsbankann hefur í raun og veru skort fé — sparifé — til þess að mæta þeim þörfum, þeim kröfum sem til hans hafa verið gerðar, aðallega af þeim atvinnuvegi sem hann hefur fyrst og fremst þurft að hafa viðskipti við og fullnægja skyldum gagnvart.

Ég held að það sé mjög villandi, vægast sagt, þegar hv. síðasti ræðumaður var að tala annars vegar um 11% útlánsvexti, sem Útvegsbankinn hefði orðið að lána á, og hins vegar 40% vexti, sem hann hefði orðið að greiða Seðlabankanum. Ég hygg að Útvegsbankinn hafi hvorki á þessu ári né á a. m. k. síðari hluta fyrra árs greitt neitt þvílíka vexti sem hann nefndi, ekki þá sérstöku refsivexti sem hann er að tala um. Hygg ég að sú regla hafi gilt a. m. k. frá því í ágústmánuði s. l.

En það er svo, eins og ég sagði, að þessi mál eru viðkvæm og það er erfitt fyrir mig, jafnvel þó að ég viti nánar um vissa hluti í þessu sambandi, að fara að segja frá þeim hér. Það eru ýmis atriði í þessu sambandi trúnaðarmál sem ekki er gott fyrir mig að reifa hér. Hins vegar er auðvitað æskilegt að almannavaldið og þá ekki hvað síst Alþ. fylgist sem best með fjárreiðum þeirra hanka sem reknir eru af ríkisfé. Þeir hafa að vísu og eiga að hafa sjálfstæðan fjárhag og þannig er um hnúta búið. En það er einmitt með sérstöku kerfi, sem ætti að duga, reynt að sjá til þess að fjárveitingavaldið og þá sérstaklega Alþ. geti fylgst með ástæðum og fjárhag og starfsemi þessara stofnana. Og það er gert með þeim hætti að Alþ. kýs alveg sérstaka eftirlitsmenn eða ráðamenn sem eiga að fylgjast með starfsemi þessara banka. Það eru bankaráðsmennirnir, og seta í bankaráði á vissulega ekki að vera neitt puntstrá sem maður gæti veifað. Setu í bankaráði fylgja skyldur og það miklar skyldur. M. a. álít ég að það væri eðlilegt að setu í bankaráði fylgdu þær skyldur og það væri um leið gert heimilt að bankaráðsmennirnir gætu gert sínum þingflokkum grein fyrir stöðu þessara mála. Það er heppilegra að ræða þessi mál þannig í þingflokkunum að mínu mati. Þó að oft sé talað um það hátíðlega að allt eigi að fara fram fyrir opnum tjöldum, þá eru það sum mál sem betra er að ræða í þröngum hóp heldur en í glerhúsi eins og við erum nú í hér. En ég skal játa að vegna lagaákvæða, sem eru um bankaráðin, er e. t. v. takmarkaður réttur þeirra að þessu leyti, af því að þeir eru bundnir vissri þagnarskyldu, og þess vegna getur verið að þeir telji sér ekki fullkomlega heimilt að gefa jafnvel þeim, sem hafa kjörið þá, þingflokkunum, skýrslu um þessi efni. En ég held að það þyrfti að huga að því hvort þessu þyrfti ekki að breyta, því að auðvitað eru þessi bankaráð sett upp til þess að Alþ. — fjárveitingavaldið — geti með þessum óbeina hætti fylgst með þeim fjármálum ríkisins sem fara í gegnum þennan farveg, en koma ekki beint til kasta Alþ., eru ekki sett í fjárlög o. s. frv. Og ég get alveg fallist á að það þyrfti að reyna að gera þetta kerfi raunhæfara.

Ég held að það sé ekki rétt að hafa þann hátt á sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Albert Guðmundsson, stakk upp á, að fresta þessum umr. og taka þær upp siðar. Ég held að það sé best að láta þeim lokið nú. En auðvitað er svo hverjum þm. sem er í lófa lagið að bera fram formlega fsp. varðandi ákveðin efni í þessu sambandi, og þá verður auðvitað reynt að svara þeim. Þó getur verið að þar setji vissar skorður að það verður að gæta viss trúnaðar í þessu sambandi gagnvart viðskiptamönnum. Það getur t. d. verið spurning um það, ef farið er að spyrja á Alþ. um viðskipti eins ákveðins víðskiptamanns við banka, hvað heimilt er að upplýsa í því efni. En það má vera að opinberar umr. um banka og sérstaklega þá um banka almennt geri engan skaða. En ég held að það sé hugsanlegt, ef umr. fer að spinnast um einn sérstakan banka, að þá hafi það óheppileg sálræn áhrif, sem sagt þau sálrænu áhrif að traust tapist. En fyrsta og eitt höfuðatriðið fyrir bankastofnun er að njóta trausts.

Ég skal að öðru leyti ekki fara almennt út í þann inngang að efnahagsmálaumr. eiginlega almennt, sem hv. þm. Albert Guðmundsson minntist hér á, nema hvað ég vil segja það, að mér fannst hann heldur svartsýnn á þetta allt, og veit ég að ekki vill hann fara að verðlauna vanskilamenn. Ég hefði heldur haldið að hann mundi vera á hinni línunni, að allir skilamenn ættu að njóta góðs af því að vera skilamenn, en vanskilamenn væru kannske ekki of góðir til þess að gjalda sinna vanskila. En mér heyrðist hann telja það mjög eftir að vanskilamenn yrðu eitthvað að gjalda fyrir það að standa ekki í skilum á réttum tímum. En þá ætti hann að leiða hugann að því, hvers vegna bankarnir t. d. geta ekki greitt betur úr þörfum annarra en raun ber vitni stundum. Ætli það geti ekki stafað af því, að viðskiptavinirnir sumir hverjir hafa ekki staðið í skilum eins og um var samið og þess vegna sé lausafjárstaðan verri en annars hefði orðið og þess vegna erfiðara um vik fyrir bankana að leysa úr þörfum? Ég veit að hv. þm. er mér sammála um þessi atriði, þó að orð hans féllu á þá lund að mér virtist hann vera í heldur úfnu skapi yfir því ástandi sem honum fannst ríkja í þjóðfélaginu þessa stundina. Hann er mér sammála um það, að það er auðvitað höfuðatriðið að menn standi við skuldbindingar sínar og menn geti borið traust til viðskiptavinanna að bankarnir geti borið traust til viðskiptavinanna og að víðskiptavinirnir geti líka borið traust til bankans. Á því byggist þessi starfsemi. En það er ekki til þess að efla slíkt traust ef menn fara að tala um að allt sé að fara á hausinn, jafnvel bankar og jafnvel ríkissjóður sjálfur. Þannig held ég að menn megi ekki tala, jafnvel þó að góðir spámenn, eins og hv. fyrrv. þm. Bjarni Guðnason, hafi látið sér um munn fara orð sem eitthvað hafa gengið í þá átt.

Ég held að við ættum ekki að hafa þessar umr. nú öllu lengri, en það sé rétt fyrir menn að hugsa málið og koma þá síðar með formlegar fsp. að athuguðu máli.