29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

167. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Mín ætlan var að ræða helst ekki þessa till. til þál. nema hæstv. samgrh. væri viðstaddur, en þar sem það hefur nú dregist mjög lengi að slíkt gæti átt sér stað tel ég ástæðulaust að bíða öllu lengur, þar sem nú er langt líðið á þinghald, og ætla því nú að fylgja þessari þáltill. úr hlaði með örfáum orðum.

Á þskj. 327 flyt ég svo hljóðandi till. til þál.: „Alþingi ályktar að skora á samgrh. að láta athuga nú þegar með hvaða hætti best verði tryggðar sem öruggastar flugsamgöngur við Vestfirði.

Athugun þessi skal fyrst og fremst beinast að eftirfarandi:

1. Lýsingu og öryggistækjum vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli.

2. Endurbótum og lengingu á flugbrautinni við Holt í Önundarfirði og flugbrautinni í Bolungarvík með það í huga að þær gegni því hlutverki að vera varavellir fyrir Ísafjarðarflug.

3. Lýsingu vegna aðflugs og lendingar á Patreksfjarðarflugvelli.

Athugunum þessum skal hraðað svo sem frekast er kostur með það fyrir augum að niðurstöður geti legið fyrir hið allra fyrsta og í síðasta lagi haustið 1977.“

Á yfirstandandi þingi hafa orðið miklar umr. um alla helstu þætti samgöngumála og fram hafa komið þáltill. í þeim efnum. Ekki alls fyrir löngu var hér á dagskrá fsp. frá hv. 9. landsk. þm. í sambandi við flugsamgöngur við Vestfirði, og í svari hæstv. samgrh. í þeim umr. kom í ljós að n. hefur starfað að því að gera athuganir og úttekt á flugsamgöngum innanlands í heild og fyrir liggur nú niðurstaða þeirrar athugunar. Þessi till. er hins vegar um það að Vestfirðir verði teknir út úr þessari almennu athugun vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem vestfirðingar búa við að því er varðar ekki bara flugsamgöngur, heldur og samgöngur bæði á landi og sjó, þetta sé tekið út úr því er Vestfirði varðar vegna þeirrar sérstöðu og þeirra erfiðleika sem þar er um að ræða. Ég held að það sé vart nokkur vafi á því, að Vestfirðir eru sá landshluti sem er langsamlega verst settur samgöngulega séð, þó að litið sé til allra þessara helstu samgönguþátta, b. e. a. s. bæði samgangna á landi, í lofti og á sjó. Það hefur verið rakið hér og skal aðeins vikið að því í örfáum orðum, að í samgöngum á landi eru Vestfirðir einangraðir frá aðalvegakerfi landsins 7–9 mánuði á ári. Í sjósamgöngum eru Vestfirðir einangraðir á sama tíma og samgöngur eru lokaðar á landi allt upp í þrjár vikur, og varðandi flugsamgöngur eru Vestfirðir einnig einangraðir á þessu sama tímabili svo að dögum skiptir. Og það er kannske fyrst og fremst með hliðsjón af þessum staðreyndum, að þessi till. til þál. er flutt, og einnig vegna hins, að ekki er að sjá að neinar líkur séu á því að hálfu stjórnvalda að gerðar verði neinar sérstakar ráðstafanir vestfirðingum til handa til þess að bæta þetta vandræðaástand.

Eins og flugsamgöngum við Vestfirði er nú háttað, þá er um að ræða aðeins þrjá flugvelli á Vestfjörðum sem Flugleiðir halda uppi áætlunarflugi til. Þessir staðir eru Patreksfjörður, Þingeyri og Ísafjörður. Enginn þessara flugvalla er þannig útbúinn að á þeim sé hægt að lenda eftir að dimma tekur og myrkur er komið. Ég hygg að hér sé um eina landshlutann að ræða sem þannig er ástatt um að enginn flugvöllur í landshlutanum sé þannig útbúinn að hægt sé að lenda þar í myrkri.

Að því er varðar 1. lið þessarar þáltill., um lýsingu og öryggistæki vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli, þá er rétt að það komi fram, að hugmyndir hafa verið uppi um þetta manna á meðal alllengi. En því hefur verið haldið fram, að framkvæmdir í þessum efnum væru svo kostnaðarsamar að litlar sem engar líkur væru á að í framkvæmdir yrði ráðist vegna þess. Ég hef heyrt að fullyrðingar af þessu tagi hafi ekki við nein rök að styðjast, og mér er a. m. k. ekki um það kunnugt að nokkur athugun hafi átt sér stað eða fram farið í þessum efnum. Ég held að miðað við nútímatækni sé ekkert ólíklegt að ætla að hægt sé að framkvæma aðgerðir af þessu tagi, en um það skal ekkert fullyrt á þessu stigi. Það er m. a. til þess að fá úr því skorið sem þessi till. er flutt.

Það er einnig rétt að vekja á því athygli varðandi þennan þátt till., þ. e. a. s. lýsingu á Ísafjarðarflugvelli og vegna aðflugs að honum, að það er nokkuð umliðið síðan upp kom sú hugmynd frá einum vestfirðingi, sem nokkuð mikið þekkir til þessara mála, að hægt mundi að leysa þetta vandamál með flóðlýsingu sem einnig gæti lýst upp Ísafjarðarkaupstað. Það er fyllilega ástæða til þess að gengið verði úr skugga um það, hvort framkvæmanlegt er að gera þær öryggisráðstafanir með lýsingu á Ísafjarðarflugvelli, og það verði gengið úr skugga um það, hvort slíkt sé ekki framkvæmanlegt.

Að því er varðar 2. lið þáltill., um endurbætur á flugbrautunum í Holti og í Bolungarvík, til þess að þessar tvær flugbrautir gætu gegnt því hlutverki að vera varaflugvellir fyrir Ísafjarðarflugvöll, þá er þess að geta að aðflug á Ísafjarðarflugvöll er með þeim hætti og er undir þeim kringumstæðum, að það getur verið svo að dögum skiptir, þótt að öllu öðru leyti sé ágætisveður, að ólendandi sé á Ísafjarðarflugvelli vegna misvinda sem þar eiga sér títt stað, einmitt á þeim stað sem Ísafjarðarflugvöllur er staðsettur, svo og á þeim stöðum sem aðflug er þar. Er því brýnt að athugaðir verði möguleikar á því, hvort ekki sé hægt með framkvæmdum og lagfæringum á annaðhvort flugbrautinni á Holti í Önundarfirði eða í Bolungarvík að byggja upp þá aðstöðu að þeir geti verið varalendingarstaðir fyrir Ísafjarðarflugvöll. Það er nokkuð ljóst að mínu viti, að vart verður hægt að ráða bót á þeim annmörkum sem eru varðandi Ísafjarðarflugvöll vegna þessarar óhagstæðu vindáttar. þannig að það verður að öllum líkindum að leita annarra leiða heldur en breytinga varðandi Ísafjarðarflugvöll sjálfan. Þetta hefur, að því er ég best veit, ekki heldur verið athugað og bað er einmitt um það sem annar liður þáltill. fjallar, athugaðir verði möguleikar á því að leysa þessi vandkvæði að því er varðar ótryggt flug á Ísafjarðarflugvöll með því að lagfæra flugbrautir í Önundarfirði eða í Bolungarvík. Mér er sagt af einum reyndasta flugstjóra í innanlandsfluginu hjá Flugfélagi Íslands að það sé a. m. k. nokkuð ljóst við fyrstu sýn, án þess að nokkuð verði um það fullyrt nema að undangengnum frekari athugunum, að allt bendi til þess að hægt sé að búa til flugvöll utan til við Flateyri í Önundarfirði sem ætti að vera hægt að lenda á allan sólarhringinn, þ. e. a. s. þar muni vera hægt að útbúa flugvöll sem er upplýstur, þannig að myrkur ætti ekki að hamla því að hægt væri að nota flugvöll sem þar væri. Að sjálfsögðu þyrfti með þetta í huga einnig að kanna þennan möguleika, ef ekki sýnist fært að lagfæra svo flugbrautina í Holti að hún næði þessum tilgangi.

Að því er varðar 3. lið þessarar þáltill., sem er um lýsingu vegna aðflugs og lendingar á Patreksfjarðarflugveili, þá eru, að mér er tjáð, taldar á því líkur að ekkert sé því til fyrirstöðu að búa Patreksfjarðarflugvöll þannig úr garði að hann sé hægt að nota eftir að myrkur er komið, þ. e. a. s. með lýsingu flugbrautar og aðflugslýsingu. Um þetta skal að sjálfsögðu ekkert fullyrt heldur.

Þetta eru atriði sem ég tel nauðsynlegt að gengið verði úr skugga um, hvort og á hvern hátt eru framkvæmanleg, með það í huga að bæta eins og mögulegt er þennan þátt samgangna við Vestfirði. Auk þess er ljóst að bæta þarf öryggisbúnað bæði á Patreksfjarðarflugvelli og á Ísafjarðarflugvelli. En það er um þessi tilteknu atriði sem þessi þáltill. fjallar, að framkvæmd verði athugun á þessum verkefnum, sem hér er um að ræða, vegna þess að það er vart við því að búast að vestfirðingar uni því öllu lengur að þeir séu langt aftur úr öðrum landshlutum að því er varðar samgöngur í lofti.

Það kom fram í svari hæstv. samgrh. í áður tilvitnuðum umr. varðandi fsp. um flugsamgöngur við Vestfirði, að ekkert liggur fyrir um það og engin till. er uppi um að neitt sérstakt átak verði gert að því er varðar Vestfirði þrátt fyrir þessa sérstöku erfiðleika sem þeir eiga við að búa. Það er ekkert sem bendir til þess að neitt slíkt sé á prjónum þeirra aðila sem hér geta mestu um ráðið, þ. e. a. s. hæstv. ríkisstj., sem auðvitað gæti í þessu sem og mörgu öðru látið til sín taka ef vilji væri fyrir hendi. Í mínum huga er það sjálfsögð ósk og krafa af hálfu vestfirðinga að athugun þessi eigi sér stað og að hún sé framkvæmd á þeim tíma að henni geti verið lokið fyrir fjárlagagerð fyrir árið 1978, þannig að hægt sé að taka tillit við afgreiðslu fjárl. til þess sem þarna þarf augljóslega að gera eftir að þessari athugun lýkur. Ég get ekki látið mér detta annað í hug, ef menn á annað borð kynna sér þá sérstöku erfiðleika sem vestfirðingar eiga í varðandi samgöngur, hvaða nafni sem nefnast, að þá sé það í raun og veru augljóst mál, að það er full ástæða til þess að gera sérstakt átak á þeim stað vegna þessara tilteknu kringumstæðna, en ekki bíða eftir því að heildarúttekt og heildartillögur um lagfæringar varðandi flugsamgöngur á öllu landinu sjái dagsins ljós. Það er augljóst mál og til þess hefur verið vitnað oft hér í umr. á Alþ., að til þess að bæta þar allt, sem talið er nauðsynlegt að gera í þeim efnum, þarf óhemjumikið fjármagn. Ég hygg þó að það sé ljóst, að framkvæmdir, sem þarna yrði um að ræða, kæmu ekki til með að vera það miklar að þær væru ekki viðráðanlegar, og það er allt sem mælir með því að landshluti, sem er svona illa settur varðandi samgöngur, njóti forgangs og sé tekinn út úr með þeim hætti að reynt sé a. m. k. að gera þær úrbætur sem lífsnauðsynlegar eru til þess að vestfirðingar njóti sambærilegra samgangna við aðra landshluta.

Þegar fsp. hv. 9. landsk. þm. var hér til umr. svaraði hæstv. samgrh. hv. þm., þegar hann spurði um einstaka flugvelli og ástand þeirra, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað varðar spurningu hv. 3. landsk. þm. um einstaka flugvelli, þá tel ég ekki ástæðu til að fjalla um þá sérstaklega, enda hefur ekki verið unnið að því frekar en gert er í þessari skýrslu. Hins vegar,“ sagði hæstv. ráðh., „ef gera ætti þar sérstakar ráðstafanir yrði það að gerast í sambandi við afgreiðslu fjárl. og sérstök fjárveiting í slíku skyni til vallarins eða á annan hátt, sem samgrh. hefur að sjálfsögðu ekki yfir að ráða því að fjárlög fyrir árið 1977 eru löngu orðin afgreidd.“

Það er með hliðsjón af þessu og til þess að ekki þurfi að standa frammi fyrir þessu á næsta vetri án þess að fyrir liggi athugun á framkvæmdum í þessa átt sem þessi þáltill. er flutt. Hún er flutt til þess að það geti verið lokið athugun á úrbótum vegna flugsamgangna við Vestfirði nú á komandi sumri, þannig að niðurstöður geti legið fyrir áður en fjárlög verða afgreidd fyrir árið 1978 og þannig hægt að taka tillit til framkvæmda og veita fé á fjárl. næsta árs. Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð nema þá frekara tilefni gefist til. En ég vænti þess, að með hliðsjón af þeirri brýnu þörf, sem vestfirðingar eru í í samgöngumálum nái þessi þáltill. fram að ganga, og ég á ekki von á því að hún mæti andstöðu úr einni eða neinni átt. Ég legg talsverða áherslu á það, þar sem hér er aðeins um það að ræða að þetta verði athugað og niðurstöður liggi fyrir á komandi hausti, að þá sé ekkert því til fyrirstöðu að sú n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, geti afgreitt það til þingsins áður en þingi lýkur nú í vor, þannig að þessi athugun geti átt sér stað á komandi sumri.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til hv. allshn. til umfjöllunar.