29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

179. mál, mengunarvarnir og heilbrigðisgæsla í álverinu í Straumsvík

Forseti (Ásgeir Bjarnason) :

Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég í fyrsta lagi benda á það, að löglega var til þessa fundar boðað, í öðru lagi vissu allir þm. hvaða mál voru á dagskrá, og í þriðja lagi vissi ég ekki til þess að fyrri flm. þessa máls hefði neitt við það að athuga að mæla fyrir þessari þáltill. á þessum tíma. Ef hv. flm. hefði eftir því óskað, þá hefði ég að sjálfsögðu við því orðið. Ennfremur vil ég minna á það, að fleiri voru hér í þingsal þegar umr. þessi hófst, og einnig vil ég á það benda, að hæstv. iðnrh. var hér líka staddur meðan hluti af þessari umr. fór fram. Þannig tel ég að það hafi ekki verið á neitt óheiðarlegan hátt af minni hálfu stofnað til þeirra umr. sem hér hafa verið. Umr. er frestað nú og verður haldið áfram síðar.