29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

177. mál, veiting prestakalla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég var meðflm. að samhljóða þáltill. þeirri, sem hér er um fjallað, á fyrra þingi. Ég er enn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að taka fyrirkomulag prestskosninga til endurskoðunar. Ég er alls ekki viss um með hvaða hætti. E. t. v. væri hægt að nefna enn fleiri möguleika en hv. þm. Magnús T. Ólafsson gerði áðan. Ég tel nauðsynlegt að hugleiða þessi mál. Hv. síðasti ræðumaður tók raunar af mér ómakið með lýsingu sinni á afleiðingum prestskosninga með þeim furðulega og ógeðþekka hætti sem þær nú fara fram.

Er mál þetta var til umr. hér í fyrra leyfði ég mér að komast svo að orði og mun endurtaka það, að fornir vinir mínir í prestastétt, hinir mestu sómamenn, fengu þess háttar meðhöndlun í prestskosningum að þeir biðu þess ekki bætur. Ég er enn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar.

Ég missti því miður af fyrri hluta ræðu hv. 5, þm. Vestf., sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson lýsti litríkum orðum nú fyrir skemmstu, og ætla að ég hafi þar farið á mis við allmörg fuss og svei og fruss og skyrpingar, sem, eins og hv. þm. Magnús T. Ólafsson lýsti því, einkenndu mjög framferði fjölkunnugra kvenna á þeim tíma þegar ekki þótti við hæfi að skipta orðum við hinn illa, heldur að fæla hann burt með þess háttar blásturshljóðum.

Aftur á móti hlýddi ég á ræðu hv. þm. Helga Seljans fyrr í dag, og ég verð nú vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns að taka það fram, að ég heyrði hann hreint ekki segja að eftir sjónvarpsþátt þann, er á var minnst, hafi ýmsir prestar hringt í hann til þess að hæla honum fyrir frammistöðuna. Það sagði Helgi ekki. Hann var þar að greina frá því að þessir prestar hefðu lýst yfir andstöðu sinni við þáltill. sem þá var til umr. og lýsa yfir því, að þeir vildu ekki gera breytingar á fyrirkomulagi prestskosninga.

Um hið innra starf kirkjunnar sagði hv. síðasti ræðumaður: Við vitum það, kristnir menn, hvaðan það líf kemur. Það kemur frá Kristi. — Og hann bætti því síðan við, að það væri eins gott að hv. alþm. vissu það. Hér erum við komin að ákaflega þýðingarmiklu atriði og síst vildi ég á nokkurn handa máta snúa út úr því sem hv. ræðumaður sagði. Þessi þjóð er svo til öll, að þeim fáu einstaklingum undanskildum sem hafa gert til þess sérstakar og að því er mér finnst hjákátlegar ráðstafanir að skilja á milli sín og þjóðkirkjunnar, — við erum öll dæmd inn í þessa þjóðkirkju, við erum öll aðilar að henni. Ómálga börn erum við samkv. hefðinni tekin inn í söfnuðinn, og mættu alþm. minnast þess, jafnvel sjá á yfirhöfnum sínum hvíta bletti eftir aðgerðir manns, sem stundað hefur það að mótmæla þessari aðferð við inntöku íslendinga í söfnuðinn. En hvað sem því líður, þá erum við á þeirri stundu tekin inn í söfnuðinn. Og stóra spurningin er hvort það er einstaklingunum að kenna þótt þeir verði þar aldrei virkir félagar. Hverjum er þar um að kenna?

Ég sagði það fyrir u. þ. b. ári, þegar þessi mál bar hér á góma, að ég væri til viðtals um að við legðum okkur fram um að gera ítarlega úttekt á stöðu kirkjunnar í samfélagi okkar, hugleiða hvort ekki beri að skilja að ríki og kirkju, jafnvel að leggja niður prestskap í landinu. En ég vil að þetta verði gert í einlægni og raunverulega með hag þessarar öldnu stofnunar fyrir augum. En vegna þess að ég tel að þetta mál, sem hér um ræðir, prestskosningarnar, sé þess háttar að prestskosningarmál eigi að fá úrslit lýðræðisleg úrslit, þá er ég nú frekar þeirrar skoðunar að rétt sé að freista þess með þeim hætti að láta fara fram þjóðaratkvgr. um prestskosningarnar, ef við gætum leitt þetta mál til lykta með þeim hætti. Ég er alveg viss um að hægt væri að leiða það til lykta með betri hætti, en ég fæ ekki séð fram á að hv. Alþ. muni gera það um sinn, og ég held að það liggi á að leiða þetta mál til lykta og lýsi sem sagt yfir stuðningi mínum við það að leitað verði þjóðaratkvgr. um málið.