30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

211. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, felst heimild fyrir ríkisstj. til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyríssjóðsins. Ísland gerðist aðill að sjóðnum við stofnun hans 1945. Með l. nr. 82/1968 var ríkisstj. heimilað að staðfesta breytingar á og viðauka við stofnskrá sjóðsins. Með breytingum þessum var m. a. komið á fót kerfi sérstakra dráttarréttinda. Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að gjaldeyrissjóðnum og hefur því með höndum fyrir hönd ríkisins öll viðskipti við sjóðinn.

Starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á undanförnum áratugum og hið frjálsa kerfi til greiðslu viðskipta, sem honum er tengt, hefur tvímælalaust komið að miklu gagni og átt drjúgan þátt í þeim öru efnahagsframförum sem orðið hafa eftir síðari heimsstyrjöldina.

Ísland hefur nokkrum sinnum tekið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Skuld Íslands við sjóðinn nemur nú 62.5 millj. sérstakra dráttarréttinda eða jafnvirði um 13 600 millj. kr. Kvóti Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er nú 23 millj. sérstakra dráttarréttinda, en í öðru frv., sem legið hefur fyrir Alþ., er óskað heimildar til þess að hækka kvótann í 29 millj. sérstakra dráttarréttinda og hefur það frv. nú þegar verið afgreitt.

S. l. 4 ár hefur verið unnið mikið starf á sviði alþjóðagjaldeyrismála til að reyna að móta nýtt kerfi sem komið gæti í staðinn fyrir stofngengisfyrirkomulagið sem kallað hefur verið. Haustið 1972 var á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sett á fót ráðherranefnd sem falið var það verkefni að endurskoða alþjóðagjaldeyriskerfið. Starf n. var vel á veg komið þegar hinar miklu olíuverðhækkanir urðu í árslok 1973 sem gerbreyttu öllum viðhorfum í gjaldeyrismálum. Í júní 1974 skilaði n. lokaskýrslu og skiptist sú skýrsla í tvo meginkafla. Fjallaði annar um megindrætti í framtíðarskipan gjaldeyrismála, en hinn um bráðabirgðaaðgerðir í þessum efnum. Í fyrsta lagi var komið á fót bráðabirgðanefnd sem var ætlað að fylgjast með þróun alþjóðagjaldeyrismála, gefa ráð þar að lútandi og vinna áfram að endurskoðun á stofnskrá sjóðsins. Í öðru lagi voru settar reglur um framkvæmd sveigjanlegrar gengisskráningar. Í þriðja lagi var ákveðið að reikningseining sjóðsins yrði sérstök dráttarréttindi með ákveðinni samsetningu þjóðmynta í stað gulls. Í fjórða lagi var komið á sérstökum olíulánasjóði sem starfaði fram í maí 1976. Á þessu tímabili lánaði sjóðurinn samtals 6.9 milljarða sérstakra dráttarréttinda, en þar af tók Ísland 39.2 millj. þessara sérstöku dráttarréttinda eða jafnvirði um 8600 millj. kr.

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gekk endanlega frá tillögum um nýja stofnskrá í mars 1976. Tillögur þessar að annarri breytingu stofnskrárinnar eru hinar viðtækustu sem lagðar hafa verið fram frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var settur á stofn. Fela þær í sér að staðfestar skuli til frambúðar þær bráðabirgðabreytingar sem ég gat um áðan, en þar að auki koma aðrar mikilvægar breytingar.

Breytingunum er í aðalatriðum hægt að skipta í sex þætti:

Í fyrsta lagi er hverju aðildarlandi í sjálfsvald sett hvaða gengisfyrirkomulag það velur sér. Gert er ráð fyrir að síðar meir verði hægt að ná samkomulagi um nýtt almennt gengisfyrirkomulag, þar með talda hugsanlega endurreisn stofngengisfyrirkomulags í einhverri mynd sem aðildarlönd ættu þá kost á að taka þátt í.

Ákvæði um gengisfyrirkomulag taka mið af því, að grundvallartilgangur alþjóðagjaldeyriskerfisins er að koma á sem frjálsustum viðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn milli landa. Aðildarríkin skulu eiga samvinnu við sjóðinn og önnur aðildarríki um að tryggja skipulegt og stöðugt gengisfyrirkomulag. Getur þetta ákvæði náð til stefnunnar í efnahags- og fjármálum bæði inn á við og út á við, en tillit skal taka til aðstæðna hvers ríkis fyrir sig. Með þessu ákvæði er ætlast til að sjóðurinn hafi viðtækt eftirlit með gengismálum aðildarlandanna og ráðgist við þau á reglubundnum grundvelli um skráningu gengis þeirra og réttmæti skráningarinnar á hverjum tíma. Er þetta sennilega eitt mikilvægasta ákvæðið í allri stofnskrárbreytingunni, enda er eftirliti sjóðsins ætlað að miklu leyti að koma í stað þess aðhalds sem stofngengisfyrirkomulagið átti að veita þegar heimild sjóðsins þurfti til stofngengisbreyt.

Með fylgi 85% atkvæðameirihl. getur sjóðurinn ákveðið, að aðstæður í alþjóðaviðskiptum leyfi að komið verði á nýju stofngengisfyrirkomulagi. Undir slíkum kringumstæðum er hverju aðildarlandi ætlað að koma á stofngengi, nema það hyggist beita öðru gengisfyrirkomulagi.

Önnur meginbreytingin er, að hlutverk gulls í alþjóðagjaldeyriskerfinu skal minnkað og gullforði sjóðsins seldur. Mikilvægustu breytingarnar samkvæmt þessum lið eru eftirfarandi: 1) Hætt verði að nota gull sem grunneiningu stofngengisfyrirkomulagsins og sem verðmæliseiningu sérstakra dráttarréttinda. 2) Hætt verði að skrá opinbert gengi á gulli. 3) Hætt verði að skylda aðildarríki til að greiða í gulli til sjóðsins eða frá sjóðnum til aðildarríkjanna. Sjóðnum verði ekki lengur leyft að taka við greiðslum í gulli nema að fengnu leyfi aðildarríkjanna með miklum meiri hl. atkv. 4) Sjóðurinn ljúki við að ráðstafa 40 millj. únsa af gulli, þ. e. þriðjungi gulleignar hans. 5) Sjóðnum verði heimilað að selja afganginn af gullforða sínum, annaðhvort á markaðsverði eða á því opinbera verði sem gilti fyrir aðra stofnskrárbreytinguna. 6) Hagnaður, sem til fellur vegna gullsölu, verði færður á sérstakan reikning til að nota í almennum viðskiptum sjóðsins svo og til aðstoðar við þróunarlöndin. 7) Sjóðnum verði gert að sjá svo um, að þegar hann verslar með gull skuli hann forðast að stjórna verðinu eða leitast við að koma á föstu gullverði á heimsmarkaðinum. 8) Aðildarríkjunum verði gert að skyldu að eiga samvinnu við sjóðinn um að haga stefnu sinni við uppbyggingu gjaldeyrisvarasjóða á þann hátt, að hún verði í samræmi við alþjóðleg stefnumið sem miði að skipulegri uppbyggingu alþjóðlegrar gjaldeyrisverslunar og að sérstöku dráttarréttindin verði höfuðgjaldmiðillinn í gjaldeyrisvarasjóðum aðildarríkjanna. Mikið af þeim völdum, sem sjóðnum er ætlað að fá samkvæmt þessu, er háð 85% meiri hl. atkv. aðildarríkjanna.

Þá er þriðja meginbreytingin að breytt verði formi og umfangi sérstakra dráttarréttinda, þannig að þau geti orðið að höfuðgjaldmiðli fyrir gjaldeyrisvarasjóði í heiminum. Aðalbreytingarnar, sem felast í þessum meginlið, eru þær, sem hér segir: 1) Að aðildarríkin geti átt viðskipti í sérstökum dráttarréttindum án þess að sérstakt samþykki sjóðsins komi til. Viðskipti í sérstökum dráttarréttindum eru ekki lengur byggð á því að aðildarlöndunum sé nauðsyn á að nota sérstök dráttarréttindi til greiðslu milli landa. 2) Sjóðnum verði heimilt að leyfa viðskipti milli þátttökuríkja, sem ekki er gert ráð fyrir í stofuskránni. 3) Sjóðnum verði heimilt að endurskoða ákvæði um lágmarkseign þátttökuaðila í sérstökum dráttarréttindum. Er honum leyfilegt að koma á, breyta eða fella niður reglur í þessu efni með minni meiri hl. atkv. en nú er leyfilegt, þ. e. a. s. ekki er þörf á í þessum tilfellum jafnmiklum auknum meiri hl. atkv. og annars er, þannig að í þessu tilfelli er miðað við 70% í stað 85% sem má kallast almenna reglan. 4) Notkunarmöguleikar sérstakra dráttarréttinda í viðskiptum þeim, er fara fram á almennum reikningi sjóðsins, verði auknir. 5) Sjóðurinn getur leyft öðrum en núv. þátttökuaðilum að eiga sérstök dráttarréttindi, en þó ekki öðrum en opinberum aðilum. Þá má sjóðurinn fjölga þeim tegundum viðskipta er nota má sérstök dráttarréttindi til.

Fjórða meginbreytingin, sem felst í þessari nýju skipulagsskrá eða stofnskrá, má segja að sé sú, að viðskipti sjóðsins séu einfölduð, sérstaklega þau sem fara fram á almennum reikningi hans, eins og kallað er.

Þá hefur og tækifærið verið notað til að gefa ýmsum viðskiptaháttum, er þar hafa viðgengist í nokkur ár, lagagrundvöll með því að taka þá inn í stofnskrána. Má nefna þá ætlun sjóðsins að sjá svo um, að almenn lán sjóðsins verði endurgreidd á 3–5 árum, nema annað sé ákveðið. Hin nákvæmu ákvæði um endurgreiðslu lána í núverandi stofnskrá eru felld niður. Og tekin eru upp ákvæði er gera sjóðnum kleift að nota alla gjaldmiðla aðildarríkja í viðskiptum sínum.

Fimmta meginbreytingin er svo sú, að gert er ráð fyrir því að hægt verði að koma á fót sérstakri nefnd eða ráði sem skal vera stofnað með 85% atkvæða meiri hl. N. þessi mundi að mestu leyti líkjast bráðabirgðanefnd þeirri sem ráð sjóðsins setti á laggirnar og áður er minnst á, en þó hafa ákvörðunarvald og ekki eingöngu ráðgjafarhlutverk.

Sjötta meginbreytingin er svo sú, að stofnskrárbreyting þessi gerir ráð fyrir ákveðnum skipulagsbreytingum á sjóðnum, þ. á m. er að finna ákvæði um kosningu manna í framkvæmdastjórn og nauðsynlegan atkvæðameirihl. við að koma á eða breyta ýmsum ákvæðum stofnskrárinnar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara nánar út í að rekja efni það sem felst í þessari stofnskrá. Stofnskráin er prentuð með þessu frv. sem fylgiskjal. En á því er sá agnúi, sem skylt er að biðjast afsökunar á, að hún er þar prentuð á ensku án þess að þýðing fylgi. Ástæðan er sú, að þetta er óskaplega langt skjal og hefði verið því samfara verulegur kostnaður að þýða hana á íslensku og láta hana fylgja með á íslensku einnig, svo sem að jafnaði hefur verið gert þegar um þess háttar löggildingar á stofnskrám er að ræða. Þó hygg ég að þessi aðferð sé engan veginn fordæmalaus. En ég vona að úr þessu sé bætt með því að í athugasemdum við frv. er rakið allítarlega hvert efni felst í þessari stofnskrárbreytingu og í þessari nýju stofnskrá sem hér er um að ræða. Auk þess er þess að geta, að það er mjög tæknilegt mál á þessu og hætt við, jafnvel þótt því hefði verið snarað á íslenska tungu í flýti, að það hefðu orðið dálitlir gallar á þeirri þýðingu.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess að frv. verði að umr. þessari lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.