30.03.1977
Neðri deild: 64. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

201. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt fjórum öðrum þm. till. til þál. um tónmenntarfræðslu í grunnskóla. Ég leyfi mér að lesa till., með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj., að hún hlutist til um að hafin verði nú þegar af hálfu menntmrn. skipulegur undirbúningur að tónmenntunarfræðslu í formi námskeiða eða farkennslu í þeim grunnskólum landsins, þar sem engin slík fræðsla er veitt nú og verður ekki við komið með venjulegum hætti.

Hugað verði sérstaklega að því, hvernig tengja megi starf tónlistarskóla, þar sem þeir eru fyrir hendi, við tónmenntunarfræðslu grunnskólanna.

Stefnt skal að því, að fræðsla sú, er till. gerir ráð fyrir, geti hafist þegar á næsta skólaári.“ Þetta mál hefur lengi verið á döfinni í mínum huga. Ég held að eitt mitt fyrsta verk sem alþm. hafi einmitt verið að skrifa hæstv. menntmrh. og lýsa áhuga mínum og áhyggjum í þessu máli. Ég vil — með leyfi forseta — lesa kafla úr því bréfi, því ég tel það í beinu samhengi við þessa till. sem hér liggur fyrir, en í bréfinu segir m. a.:

„Úti á landsbyggðinni eru nemendur skyldunámsstigsins enn í mjög mörgum tilfellum algjörlega afskiptir í þessu efni“ — þ. e. a. s. að því er varðar tónlistarfræðslu. „Það er tilviljun einni háð, hvort börn og unglingar fá þar nokkurt tækifæri til að iðka söng og almenna tónmennt innan skólans. Sóknarpresturinn eða áhugasamur kennari, þar sem þessir aðilar á annað borð eru fyrir hendi, bæta hér hvað helst dálítið úr skák. Faglærðir tónmenntarkennarar eru enn allt of fáir til í landinu og alls ófáanlegir út í dreifbýlið, í fámenn skólahverfi þar sem kennsla í tónmennt gerir hvergi nærri að uppfylla kennsluskyldu fagkennara.

Það er tilgangur þessa bréfs að fara þess á leit við hið háa rn. að athugað verði á hvern hátt megi sem fyrst bæta hér eitthvað úr. Hugmynd um eins konar farkennslu í tónmennt í dreifbýlinu tel ég athugunarverða. Hæfur og áhugasamur tónmenntarkennari gæti ferðast á milli skóla og kennt hugsanlega nokkrar vikur á hverjum stað í námskeiðsformi. Mér er kunnugt um að innan Tónmenntakennarafélags Íslands ríkir áhugi á þessu máli og fullur vilji til úrbóta, en samráð og stuðningur fræðsluyfirvalda þarf að koma til. Í samtali mínu fyrir skömmu við formann félagsins, Egil Friðleifsson í Hafnarfirði, kom fram að hann hefur þegar áætlun allt að því tilbúna um undirbúning þessa máls úti um land og kveðst reiðubúinn til að ríða á vaðið sjálfur fengi hann til þess leyfi frá sínu starfi við Öldutúnsskóla og greiddan ferðastyrk. Egill hefur í huga stutta heimsókn, 2–3 daga, í skóla sem nú hafa enga kennslu í tónmennt. Tímann mundi hann nota til að kanna jarðveginn meðal kennaraliðsins, glæða og virkja áhuga, sem fyrir hendi væri, og veita leiðbeiningar um hvernig mætti innleiða söng- og tónmennt í skólann án þess að bein fagleg kennsla kæmi til, þar sem lærðir kennslukraftar eru ekki fyrir hendi. Þarna er að vísu talað um mjög stuttan tíma við hvern skóla, en gæti markað upphafið að frekari aðgerðum. Eðlilegt væri að landið allt yrði tekið fyrir með skipulegum hætti eftir landsfjórðungum, athugun væri gerð á hvaða svæði og hvaða skólar væru afskiptastir á þessu sviði.“

Hér lýkur tilvitnun úr bréfi mínu, sem er dags. 25. sept. 1974. Þetta bréf og erindi mitt fékk jákvæðar undirtektir hjá hæstv. menntmrh., og ég veit að það hefur verið til athugunar og þessi mál raunar öll á breiðara sviði. Hingað til hefur þó ekkert verið gert til almennrar samræmingar, en eins og ég bendi á, þá er þessi kennsla, sem í till. felst, þegar framkvæmd á vissum skólasvæðum, eins og t. d. í Árnessýslu og í Borgarfjarðarsýslu. En þetta þarf að ná lengra, verða skipulagðara og almennara.

Ég bendi á það í grg., sem ég hygg að megi teljast alluggvekjandi staðreynd, að af 225 grunnskólum á landinu eru rúmlega 60 skólar, sem ekki veita neina tónmenntarfræðslu, og allmargir til viðbótar, þar sem þessari fræðslu er meira og minna ábótavant. Langsamlega verst settir að þessu leyti eru að sjálfsögðu þeir landshlutar þar sem dreifbýli er mest og erfiðast um samgöngur, og þarf það að sjálfsögðu ekki að koma á óvart.

Í grg. er einnig bent á að af 29 skólum í fimm sýslum, Vestur-Barðastrandarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu, veita 8 skólar einhverja tónmenntarfræðslu, hinir alls enga. Nú er það mjög svo greinilega fram tekið í grunnskólalögunum, 42. gr., að þessa fræðslu skuli veita, að vísu nokkuð af skornum skammti eða eina kennslustund vikulega. Ég vil í því sambandi benda sérstaklega á, til viðbótar við tónlistaratriðið, að þá stendur þar einnig í 42. gr. að veitt skuli fræðsla í „þroskun fagurskyns, listhneigðar og hagleiks, með kennslu í tónmennt, myndlist og handiðum“. Mér er ekki grunlaust um að þessi liður, eins og hann leggur sig allur, sé yfir alla skóla landsins nokkru siður ræktur en skyldi. Aðrar námsgreinar hafa sótt á. Hér er í lögunum gerð heiðarleg tilraun til þess að sinna þessum þætti almennrar menntunar meir en hefur verið, en ég veit að jafnvel hér á þéttbýlissvæðum og í höfuðborginni jafnvel er þessum nauðsynlega þætti sinnt minna en skyldi og minna heldur en lög gera ráð fyrir. Það er nú svo, að iðkun þeirra þátta í almennri menntun, sem lýst er í þessari lagagr., verður eins og dálítið út undan í öllu brauðstriti okkar í dag.

Það er búið að semja allítarlega og vel unna námsskrá fyrir tónmennt í grunnskóla. Þar er fjallað á skipulegan hátt um markmið, eðli og skipulagningu námsins og kennslunnar í grunnskólunum. En það þarf ekki að taka það fram að þessi bók hér, sem er einmitt námsskrá um tónmennt, er varla nema nafnið tómt enn. En hún markar framtíðarstefnu í þessum málum og ég hygg að hún eigi eftir að koma að góðu haldi á þessu sviði.

Ég bendi á í grg., að einn mesti þrándur í götu fyrir eðlilegri framkvæmd tónmenntarfræðslunnar er einmitt skortur á tónmenntarkennurum og það jafnvel þó að síðan 1959 hafi verið starfandi sérstök tónmenntarkennaradeild við Tónlistarskólann í Reykjavík. Reyndin er sú, að útskrifaðir kennarar þaðan leita gjarnan til tónlistarskólanna, hinna sérhæfðu tónlistarskóla, en fara síður út í hina almennu skóla og þá eiginlega alls ekki út í hina fámennu skóla, þar sem fámennið gerir það að verkum, að þeirra skyldukennslu, þ. e. a. s. kennslumagni, verður engan veginn fullnægt.

Ég bendi á jafnframt, og ég vil leggja áherslu á það, að mikil þörf sé á að hlúa að tónmenntarkennaramenntuninni og þá sérstaklega með þeim hætti að láta hana koma að nokkru leyti inn í hina almennu kennaramenntun í Kennaraháskóla Íslands og þá ekki hvað síst með þarfir hinna fámennu dreifbýlisskóla í huga.

Það er einnig bent á í grg. hin nýju lög um tónlistarfræðslu, sem afgr. voru frá hv. Alþ. fyrir rúmlega tveimur árum. Þar er kveðið svo á að ríkið greiði launakostnað skólastjóra og kennara til hálfs á móti sveitarfélögum. Áður var þetta sáralítið styrkt af hinu opinbera. Með þessum nýju lögum er gert mikilsvert átak til stuðnings tónlistarlífi í landinu. Enginn vafi er á því. En eins og bent er á í grg. hefur reyndin orðið sú sums staðar, að með tilkomu tónlistarskóla hefur kennslan í tónmennt í hinum almenna grunnskóla hreinlega fallið niður, og við þessa þróun er náttúrlega ekki hægt að una. Það er í alla staði eðlilegt og nauðsynlegt að tengja starf tónlistarskólanna og almennu grunnskólanna þegar tónlistarskólarnir njóta nú með nýjum lögum verulegs stuðnings frá ríki og sveitarfélögum.

Með tilliti til þessa telja flm. þessarar till. tímabært að yfirvöld fræðslumála geri skipulegar ráðstafanir og sinni þannig lögboðinni skyldu sem í dag er vanrækt. Flm. sýnist vænlegasta og sennilega eina færa leiðin vera sú að stofna til tónmenntarfræðslu í formi námskeiða eða farkennslu í þeim grunnskólum landsins þar sem aðstæður eru þannig að fræðsluskyldu í þessari námsgrein verður ekki sinnt með venjulegum hætti. Í bréfi því, sem ég las upp hér í upphafi, er lauslega minnst á hugmyndir sem kæmu til greina, en að sjálfsögðu yrði að athuga þær betur og færa í ákveðnara form en þar er drepið á.

Við bendum á í grg. að líklegt sé að nokkur kostnaður fylgi framkvæmd þessarar till., en fyrst og fremst muni það þó vera skipulagning fremur en fjármagnsatriði sem þyngst er á metunum. Við bendum á að hver grunnskóli á lögboðinn rétt til þessa þáttar skyldunámsins sem annarra og að ríkið sparar sér í rauninni, eins og nú er, launagreiðslur til tónmenntarkennara í þeim 60–70 grunnskólum sem enga slíka fræðslu veita í dag. Er því eðlilegt að þeir fjármunir verði látnir renna til að bæta upp með einhverjum hætti það sem þeir nemendur fara á mis við er alls enga tónmenntarfræðslu fá á skyldunámsstigi.

Við bendum á að það mætti jafnvel hugsa sér að ein til tvær vandaðar tónlistarkynningar yfir veturinn væru betra en ekki, þó að ekki væri um neina frekari tónmenntarfræðslu að ræða, en slíkar tónlistarkynningar gætu orðið nokkur uppbót. Það liggur í augum uppi að einmitt þessir skólar og þessir nemendur, sem till. höfðar fyrst og fremst til, hafa harla fá tækifæri út í mestu dreifbýlishéruðunum til þess að njóta neins af því sem á boðstólnum er í stærri kaupstöðum, að ég ekki tali um höfuðborgina, þar sem listsýningar, tónleikar og hvers konar menningarstarfsemi stendur með mestum blóma.

Ég er viss um að margir almennir kennarar við skólana reyna að bæta úr þessari vöntun eftir bestu getu með því að iðka almennan söng í skólunum, sem er sannarlega mikils virði, en það bregst auðvitað til beggja vona eftir áhuga og hæfileikum kennaranna á hverjum stað. Því er talið af okkur flm. alveg nauðsynlegt að til komi skipuleg athugun fræðsluyfirvalda á tiltækum leiðum til að tryggja eftir því sem nokkur kostur er, að fjöldi nemenda í grunnskólum landsins fari ekki algjörlega á mis við þennan fræðsluþátt vegna búsetuástæðna. Við bendum á, að þó að naumt sé skammtað til tónmenntarfræðslunnar, ein kennslustund á viku, þá felst þó í henni viðurkenning á því, að þekking og iðkun á tónlist skuli ekki teljast til munaðar og sérréttinda fárra útvalinna, heldur sem sjálfsagður hluti af menntun og menningarlífi almennings. Við íslendingar höfum frá fyrstu tíð verið iðnir við lestur bóka og lagt rækt við bókmenntir okkar og bókmenntaarfleifð. „Betra er berfættum en bóklausum að vera“ og „blindur er bóklaus maður“. Fleiri slíkir orðskviðir íslenskir bera þessari staðreynd ótvírætt vitni. Hið sama verður því miður ekki sagt um tónmennt og almenna iðkun tónlistar. Þar er flest af miklum vanefnum gert þótt vissulega verði vart vaxandi skilnings og áhuga bæði meðal almennings og af hálfu stjórnvalda. Íslenska skólakerfið hefur þar mikilvægu undirstöðuhlutverki að gegna og það hlutverk verðum við að rækja svo vel sem framast er kostur eigi tónmennt og tónlist ekki að vera hornreka í menningarlífi íslensku þjóðarinnar.

Ég vona að hv. alþm. hafi skilning á þessu máli og því verði hraðað eftir föngum hér á hv. Alþ., þannig að það fái afgreiðslu á þessu þingi sem nú sér senn fyrir endann á, þannig að unnt verði að hefjast handa um framkvæmd till. þegar á næsta skólaári.

Ég vil, hæstv. forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn.