13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Flm. (Benedlkt Gröndal):

Herra forseti. Nokkur tími hefur liðið síðan mál þetta var tekið á dag­skrá og mér gafst kostur á að fylgja úr hlaði þeirri þáltill. sem nú liggur fyrir þinginu um undirbúning og aðdraganda að nýrri þinghús­byggingu. Svo vildi til að á þeim fundi var hæstv. forseti Sþ. fjarstaddur, og ég get því lýst því að mér er mikil ánægja að heyra það á orðum hans að við lítum svipuðum augum á þetta mál.

Ég rifja það upp, að ég sagði í máli mínu að ég væri ekki á þessari stundu að leggja fram al­varlegar umkvartanir um starfsaðstöðu Alþ. Það væri helst að kjósendurnir, borgararnir, hefðu ástæðu til kvörtunar hér í húsinu. Mikið hefur verið gert til að bæta starfsaðstöðuna, og ég tók einmitt fram að þótt n., sem um þetta mál hefðu fjallað, hefðu ekki komist að niðurstöðu hefðu forsetar þingsins jafnt og þétt unnið að málinu, sérstaklega á þann hátt að gangast fyrir kaupum húseigna og lóða hér í nágrenninu, nú síðast veigamiklum kaupum sem hæstv. núv. forseti Sþ. átti frumkvæði að.

Mér þykir einnig jákvætt að heyra það, að núv. forsetar hafa beðið húsameistara ríkisins um að athuga möguleika á byggingum á lóðum umhverfis þinghúsið. Ég vil þó minna á að þessu máli hefur oft áður verið vísað til embættis­manna. Þeir hafa í mörg horn að líta, og það er þörf á því að fylgja málinu eftir ef á að vænta nokkurra ákveðinna svara. Segi ég þetta að fenginni reynslu og án alls vantrausts á við­komandi embætti.

Í sambandi við framtíðarbyggingar þingsins koma vissulega fram ýmsar spurningar, eins og hæstv. forseti benti á. Spurning er hve stórt á þingið að vera. Ég tel að við munum ekki geta svarað þeirri spurningu á næstunni fyrir jafn­langan tíma og bygging á að standa og þinghús­byggingu verði að haga svo, að það verði fyrir hendi möguleikar á einhverri stækkun þingsins á næstu mannsöldrum ef það verður þá vilji þjóð­arinnar. Önnur spurning er sú, hvort gera eigi ráð fyrir deildaskiptu þingi eða ekki. Ég er þeirr­ar skoðunar að við eigum að svara þeirri spurn­ingu sem fyrst. En þó að henni verði ekki svarað með ákvörðun um breytingu á stjórnarskránni og afnámi deildaskiptingar virðist mér að það geti verið í samræmi við þær hugmyndir sem nú hafa verið lagðar fram í stórum dráttum. Verði önnur bygging — þinghússbygging — reist í næsta nágrenni við þetta hús væri sjálfsagt að gera þar ráð fyrir þingsal sem rúmaði Sþ., jafn­vel þó að það yrði á komandi áratugum eitthvað stækkað. Ef það yrði gert, þá væri þessi salur í gamla húsinu til reiðu fyrir Ed. á meðan hún væri til og jafnvel um alllanga framtíð ef þinginu og þjóðinni sýnist svo að afnema deildaskipting­una ekki, því ég tel sjálfsagt að það fylgi ákvörð­un um að byggja yfir þingið hér í kvos gamla bæjarins að þetta hús verði áfram þinghús og hluti af húsakynnum Alþingis.

Þegar ég mælti fyrir till. gat ég þess, að það mundi ekki vera fordæmi fyrir því að vísa máli til forseta þingsins. Ég gerði það því að till. minni að málinu yrði aðeins frestað, en ekki vísað formlega til n. Hins vegar væri þess vænst af þingheimi að forsetar þingsins tækju till. til umr. og ef þeim sýndist svo gætu þeir látið frá sér fara eitt eða fleiri álit áður en till, verður endanlega afgreidd.

Ég vil ítreka það, að meginhugmyndin á bak við þessa till. er að taka skuli ákvörðun um stað­setningu Alþ., og það er till. okkar, sem margir hafa flutt áður og vitað er að margir styðja, að þingstaðurinn verði ákveðinn hér í gamla hús­inu og í næsta nágrenni við það. Í till. er talað um lóðirnar vestan við þinghúsið, en í framsögu­ræðu leyfði ég mér að útvíkka þetta nokkuð, enda tel ég sjálfsagt að láta kanna hvort aðrir möguleikar, t. d. beint suður af þinghúsinu, eru fyrir hendi og mönnum lýst vel á þá. Strax og ákvörðun hefur verið tekin er hægt að hrinda af stað undirbúningi sem ég vil, eins og hæstv. forseti Sþ. auðheyrilega líka vildi, að tæki sinn tíma, þannig að vel yrði til málsins vandað, enda liggur okkur ekki svo mikið á. Við gætum hæglega tekið ein tvö ár í að undirbúa sam­keppni. Ég efast um, að það verði gert á styttri tíma. Síðan gætum við haldið víðtæka samkeppni um megindrætti þinghúss, staðsetningu þess og skipulag hér í næsta nágrenni. Slík samkeppni er yfirleitt ekki höfð bindandi, en vafalaust mundu koma út úr því hugmyndir sem gætu leitt til þess, að áður en mjög langt líður verði hægt að hugsa til þess að byrja á framkvæmdum. Nefndi ég í því sambandi 100 ára afmæli þessa húss árið 1981.