14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þetta verða að­eins fáein orð.

Ég vek athygli á því, að í þessum umr. hefur hæstv. heilbrrh. gert flokksbróður sinn, formann iðnn., að ómerkingi. Hann lýsti hér yfir að hann teldi enga ástæðu til þess að farið yrði með marg­umrædda skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins sem trúnaðarmál, en í upphafi ræðu sinnar áðan lagði hv. formaður iðnn. áherslu á að það væri mjög þýðingarmikið að farið væri með þessa skýrslu sem trúnaðarmál. Bak við þetta var sem sé engin ráðherraákvörðun. Niðurstaðan sýnist mér vera sú, að þessi hv. þm. mótar afstöðu sína til réttar alþm. varðandi upplýsingar í stór­máli eftir áliti embættismanns úti í bæ, — áliti sem embættismaðurinn gefur honum í síma. Eftir því eigum við að haga störfum okkar hér á Alþ. Það er viðhorf formanns iðnn. þessarar hv. deildar.

Svo bætist það ofan á, önnur einkunn bætist ofan á þessa handa hv. formanni iðnn. Hann vinnur að þessu máli þvert gegn þingsköpum. Reyndar sá formaður þingflokks Framsfl. ástæðu til þess að hrósa honum sérstaklega fyrir þá vit­leysu. Það átti að vera til marks um það, hvað við hefðum duglegan formann iðnn., að hann er byrjaður að pæla í þessu máli löngu áður en þingsköp leyfa. Og svo þegar hann er búinn að eyða tíma iðnn. svo og svo lengi í málið og það kemst upp um strákinn Tuma, þá verður að vinna þetta allt saman upp að nýju.

Ég ætla ekki að lengja þessa umr. frekar, en ég vek athygli á þessum tveimur einkunnum, sem hv. formaður iðnn. hefur hér fengið. Og ég spyr eftir slíkar einkunnir hvort slíkur maður geti talist hæfur til þess að gegna formennsku í iðnn.