18.04.1977
Neðri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3232 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Af hálfu frsm. meiri hl. iðnn. hefur verið gerð svo ræki­leg grein fyrir niðurstöðu nefndarmeirihl. að ég tel mig hafa litlu við það að bæta. Hins vegar hefur sitthvað komið fram í þessum umr. sem er þess efnis, að mér finnst rétt að leggja þar orð í belg.

Vil ég þá fyrst víkja að því sem hefur verið sagt um þá heiðarlegu frásögn mína hér fyrir nokkrum dögum, að ég teldi mig ekki mikinn fræðimann í mengunarmálum. Ég er reiðubúinn til þess að endurtaka það einu sinni enn. Ég held að það væri heiðarlega gert af alþm. að gera svipaða játningu og ég í þessum efnum. Ég held að flestir þeirra hafi tiltölulega litla þekkingu á þessum málum. A. m. k. einn þm. hefur gert slíka játningu á undan mér og ekki skamm­ast sín fyrir að gera það. Það var þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson. Hann lét þau orð falla hér í þingi að hann teldi sig lítinn sérfræðing í þessum málum. Hins vegar taldi hann nauð­synlegt að efla í landinu þá sérfræðiþekkingu sem lýtur að þessum málum, því að henni væri enn á margan hátt ábótavant. Meðan hann var iðnrh. studdi hann mjög að því að þetta var gert. En skoðun hans var nákvæmlega sama og mín í þessum efnum, að hvað mengunina snertir og ráðstafanir í sambandi við hana yrðu þm. fyrst og fremst að fara eftir því sem sérfræðingar segðu og legðu til, því miður varri þekkingu þm. þannig háttað.

Þetta var sú afstaða sem ég hafði í meiri hl. iðnn. Við vorum strax í janúarlok eða byrjun febr. sammála um öll atriði viðkomandi þessu máli, vorum fylgjandi framgangi þess, að því þó tilskildu að Heilbrigðiseftirlitið og heilbrrn. veittu fyrirtækinu starfsleyfi og það fullnægði þeim kröfum sem þessir aðilar gerðu um meng­unarmál. Við lögðum það á sérfræðingana að meta það sem gera þyrfti í þessum efnum, og við stóðum dyggilega við bakið á þeim með því að leggja ekki nál. fram fyrr en niður­staða varri fengin í þessu máli og það starfsleyfi fengið sem þeir álitu að væri viðunanlegt. Það hefur komið hér fram og ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég álít að Heilbrigðiseftirlitið og heilbrrn. hafi unnið mjög gott starf í þessum málum. Málið lá hreyfingar­laust hér í Alþ. í 21/2 mánuð meðan þessir aðilar voru að fjalla um það við fyrirtækið hvernig mengunarreglum ætti að vera háttað. Ég tel að hæstv. ríkisstj. og meiri hl. iðnn. og raunveru­lega þingmeirihl. hafi hér staðið vel á bak við yfirvöldin í þessu máli með því að fresta að­gerðum í málinu meðan verið var að fjalla um þetta, og þá fyrst komst skriður á málið að nýju þegar búið var að ganga frá starfsleyfinu og fyrirtækið búið að fullnægja þeim skilyrðum sem Heilbrigðiseftirlitið og heilbrrn. töldu fullnægjandi.

Ég treysti þessum aðilum alveg í þessum efnum. Ég játa það enn eins og áður að þekking mín nær mjög skammt í þessum efnum. En ég treysti þeim aðilum, sem um þessi mál hafa fjallað, að hafa sett þau skilyrði að það sé eins vel frá gengið í þessum efnum og frekast er kostur.

Annars finnst mér það merkilegast við þær umr., sem hafa farið fram hér og farið fram áður um þetta mál, að það er glögg vísbending um eða glöggt dæmi um hvernig ýmsir flokkar haga afstöðu sinni eftir því hvort þeir eru í ríkisstj. eða utan ríkisstj. Ég er nokkurn veginn viss um það, að ef hér hefði verið svokölluð vinstri stjórn eða ef hér hefði verið svokölluð nýsköpunarstjórn, þá hefði þetta mál runnið í gegnum þingið. Þá hefði ekki verið um neina andstæðu að ræða af hálfu Alþb. Og þetta dæmi ég af þeirri reynslu sem fyrir liggur í þessum málum, og mér þykir þess vegna rétt að rifja hana upp með nokkrum orðum.

Alþb. og Framsfl. höfðu á sínum tíma algera samstöðu gegn álsamningnum svonefnda. Þessir flokkar voru andvígir álsamningnum af mörg­um ástæðum, en þó sérstaklega þeirri, að ál­bræðslan lýtur ekki íslenskum lögum nema að takmörkuðu leyti og lögsagan yfir henni er í höndum erlends gerðardóms og ekki íslenskra dómstóla. Þeir gagnrýndu það einnig að raf­magnsverðið væri of lágt og illa gengið frá samningum um það. Þeir töldu einnig að það væri mjög varhugavert að leggja út í rekstur á jafnstóru fyrirtæki og álbræðslan er, það ætti frekar að sinna minni fyrirtækjum á þessu sviði.

Þegar vinstri stjórnin kom til valda náðist milli þeirra flokka, sem að henni stóðu, sam­komulag um stóriðjumálin sem var í megin­dráttum á þá leið, að slík fyrirtæki, ef að þeim yrði horfið, ættu að vera að öllu leyti undir íslenskum lögum og íslenskri lögsögu, að íslendingar ættu að eiga sjálfir a. m. k. meiri hl. í fyrirtækjunum og það skyldi frekar vera stefnt að því að koma upp smáum iðnfyrirtækj­um en stórum. Það var í samræmi við þetta sem samningar voru hafnir um verksmiðjuna á Grund­artanga. Hæstv. fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartans­son, hafði forgöngu um það mál. Mér finnst rétt að rifja upp samkv. hans eigin frásögn hvernig þetta mál bar að, en hann segir svo í umr. Hér í Nd., sem fóru fram 19. mars 1975, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og menn vita er gert ráð fyrir þremur vélasamstæðum í Sigöldu og er hægt að láta þær hefja störf á mismunandi tímum, en allur stofnkostnaðurinn leggst í rauninni á fyrsta áfangann, þ. e. a. s. ef aðeins einn áfangi væri látinn framleiða orku, þá yrði sú orka mjög dýr. En ef virkjað væri í einum áfanga, eins og hagkvæmast var miðað við einingarverð, þá voru horfur á því, að um væri að ræða verulegt orkumagn sem ekkert verð fengist fyrir nema gerðar yrðu ráðstafanir til þess að framleiða iðnvarning til útflutnings. Ég setti þá á lagg­irnar nefnd til þess að kanna hvort stofnun slíks orkufreks iðnaðar væri hagkvæm fyrir íslendinga. Ég setti n. ákveðnar og ófrávíkjan­legar pólitískar reglur.“

Í ræðu fyrrv. iðnrh. eru svo þessar reglur raktar, en höfuðatriði þeirra er það sem ég sagði hér aðan að Framsfl. og Alþb. voru sammála um, þ. e. að fyrirtækið yrði að vera að meiri hluta íslensk eign og að það væri að öllu leyti undir íslenskum lögum og lögsögu.

Síðar í þessari sömu ræðu fórust hæstv. fyrrv. iðnrh. orð á þessa leið:

„Þegar ég setti viðræðunefnd um orkufrekan iðnað þær reglur sem ég minntist á áðan, þá töldu margir þeir sem rætt höfðu við erlenda aðila, að þær væru fraleitar, þær jafngiltu því að slíkir samningar væru útilokaðir með öllu, enda drógu ýmsir aðilar, sem hafið höfðu viðræður, sig í hlé þegar þeir kynntust þessari af­stöðu, þ. á m. bandaríski auðhringurinn Union Carbide, en hann taldi 51% eignaraðild af sinni hálfu algert skilyrði. Það var ekki fyrr en 1973, í ársbyrjun, sem Union Carbide tilkynnti að fyrirtækið væri reiðubúið til að fallast á pólitísk skilyrði ríkisstj. Síðan var unnið að samningsgerð á þessum forsendum og um haustið“ — það er haustið 1973 — „lágu fyrir drög sem ég taldi fullnægja þessum pólitísku hugmyndum mínum, á þeim forsendum þó sem ég gat um áðan, að við sætum uppi með verulegt orkumagn sem ekki væri unnt að koma í veru án þess að til kæmi orkufrekur iðnaður.“

Þannig stóðu málin haustið 1973. Þá gerist hins vegar það sem oft hefur verið vikið að í umr. hér, að mikil olíuverðhækkun varð í heim­inum sem hafði vitanlega breytingar í för með sér á afstöðu til þessara mála, einkum þó að því leyti hvað orku varðar að það virtist miklu álitlegra en áður að grípa til húsahitunar með rafmagni, og af þeim ástæðum sköpuðust ný viðhorf í þessu máli. Það kom þá til athugunar hvort við þyrftum á nokkrum sérstökum orku­frekum iðnaði að halda í sambandi við Sigöldu­virkjun og af þeim ástæðum væri rétt að hverfa frá þeim ráðagerðum sem uppi höfðu verið um að semja við Union Carbide. Það fór fram nokkur athugun á þessum málum um áramótin 1974, en jafnframt gerðist það sem hafði veruleg áhrif á afstöðuna til þessara mála, að sú hug­mynd kom upp að virkja Kröflu, og frv. um virkjun Kröflu var lagt fram af þáv. iðnrh. í janúarmánuði 1974. Þetta mál fékk mjög góðar undirtektir í þinginu þannig að lögin eru afgreidd næstum umræðulaust í byrjun apríl 1974. Þá gerðu menn sér vonir um að rafmagnið frá Kröflu gæti verið komið til notkunar jafnvel á árinu 1977, en a. m. k. á árinu 1978. ha var þarna, þegar Krafla var komin til viðbótar við Sigöldu, mikil raforka fyrir hendi sem fyrir­sjáanlegt var að landsmenn gætu ekki notað alla fyrst um sinn. Þá er það sem hugmyndin um samvinnu við Union Carbide kemur aftur til sögunnar.

Seint í marsmánuði 1974 sneri þáv. iðnrh. Magnús Kjartansson, sér til mín sem formanns þingflokks Framsfl. og afhenti mér drög að samningi við Union Carbide ásamt frv. þar að lútandi sem veitti stjórninni heimild til þess að halda áfram samningum við þetta fyrirtæki. Samkv. bókun þingflokksins var þetta mál ítar­lega rætt bæði 1. apríl og 3. apríl 1974 og sam­þykkt að standa að frv. sem fæli í sér heimild til ríkisstj. að halda áfram samningunum við Union Carbide og byggja á þeim drögum sem þá lágu fyrir. Ég hygg að aðrir stjórnarflokkar hafi fjallað um þetta mál líka á þeim tíma og jafnvel verið haft samband við stjórnarandstöðuflokkana. En eftir því sem ég man best, þá strandaði það ekki síst á andstöðu stjórnar­andstöðuflokkanna þáv. að þetta mál var ekki lagt fram. Ég man að ég ræddi það við þáv. og núv. formann Sjálfstfl. sem taldi að þetta mál þyrfti meiri athugunar við. Það var þess vegna alveg ljóst vorið 1974 að ef vinstri stjórnin hefði haldið áfram, þá mundi þetta mál hafa verið lagt fyrir þingið í nokkuð svipuðu formi og það var þá. Ég veit því miður ekki um það sem gerist innan þingflokksveggja Alþb., en mér hefur verið sögð sú saga, að um þetta mál hafi verið fjallað þar á svipuðum tíma og komið í ljós að a. m. k. mjög margir þm. þess, jafnvel átta þm., mundu hafa getað fallist á þær hugmyndir sem þáv. iðnrh. hafði í þeim efnum. Afstaða níunda þm. hafði verið nokkuð óljós, hann hefur sennilega heldur verið á móti þá, en frekar þó reiknað með því að hann gæti orðið með málinu í þinginu. Þetta held ég að hafi verið hv. 2. þm. Austurl. En aftur gekk sú saga um tíunda þm., að hann væri alveg óforbetranlegur og mundi vera á móti málinu undir öllum kringumstæðum, en það var skýrt með því að hann væri meira skáld en stjórnmálamaður, og þá geta menn kannske giskað á hver það muni vera.

Það, sem ég hef rakið hér, sýnir alveg ljóslega að á þessum tíma var Alþb. á því að fylgja þessari framkvæmd, þ. e. verksmiðjunni á Grund­artanga, ef næðist samkomulag svipað því og þau drög voru sem þá lágu fyrir. Þess vegna fullyrði ég það, að þetta mál hefði gengið fram í svipuðu formi og nú með stuðningi Alþb. ef það hefði átt áfram aðild að stjórn. Og ég er ekki síður sannfærður um það, að ef hér hefði komið nýsköpunarstjórn, þá hefði ekki heldur staðið á Alþb. að standa að framgangi þessa máls. En nú er Alþb. komið í stjórnarandstöðu og hefur verið í stjórnarandstöðu undanfarin ár. Það er það sem hefur fyrst og fremst ráðið þeirri breytingu sem orðið hefur á afstöðu þess til þessa máls.

Það er á ýmsan annan hátt sem hefur orðið breyting á afstöðu Alþb. á þessum tíma. Ég held að fyrir nokkrum vikum hafi farið fram umr. um till. sem hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 3. þm. Austurl. fluttu hér um staðsetningu stóriðjufyrirtækja úti um land, og þá held ég að flestir eða allir talsmenn Alþb. hafi risið gegn slíkum framkvæmdum, talið að þessar framkvæmdir ættu ekki neinn rétt á sér. En þetta var hins vegar ekki skoðun hæstv. fyrrv. iðnrh. þegar hann færði þessi mál að umtalsefni í sambandi við Kröflufrv. 30. jan. 1974. Þá var hann að svara einhverjum hv. þm., sem ég sé nú ekki hver er, sennilega hefur það verið Halldór Blöndal, og gerði það m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Hv. þm. minntist á, hvort það væri stefna ríkisstj. að ekki skyldi rísa stóriðnaður á Norðurlandi, ekki orkufrekur iðnaður. Því fer mjög fjarri. Ég tel það vera ákaflega mikilvægt atriði að meiri háttar fyrirtæki af slíku tagi rísi ekki aðeins hér á Suðvesturlandi, heldur einnig á Norðurlandi og Austfjörðum, þar sem aðstæður eru hentugar til þess. Og þær aðstæður eru vissu­lega hentugar bæði á Norðurlandi og Austfjörð­um. Bæði á Norðurlandi og Austfjörðum er hægt að ráðast í mjög verulega stórar virkjanir, eins og hv. þm. minntist á. Um Dettifossvirkjun er fullnaðarkönnun á virkjunaraðstöðum að verða lokið, og ég geri ráð fyrir því, að iðnrh. fái lokaskýrslu um hana mjög fljótlega. Þá verða menn að vega það og meta, hvenær skynsam­legt er að ráðast í þá virkjun. En þá virkjun yrði greinilega að tengja við einhvern orkufrekan iðnað sem mundi þá eðlilega rísa á Norður­landi. Ég ætla að það hafi verið ein af mistökunum í stefnu viðreisnarstjórnarinnar að stór­framleiðsla á ódýrri raforku var einvörðungu bundin við Suðvesturland.“

Þarna kemur alveg greinilega fram að fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartansson, gat vel hugsað sér að það risi upp orkufrekur iðnaður bæði á Aust­urlandi og Norðurlandi, þó að flokksbræður hans afneiti öllum slíkum fyrirætlunum núna. Ég nefni þetta sem dæmi um það, hvernig vissir flokkar hafa mismunandi afstöðu eftir því hvort þeir eru í ríkisstj. eða utan ríkisstj. Mér finnst þetta mál alveg sérstakt dæmi um það, því að ég er sannfærður um að afstaða Alþb. hefði verið allt önnur í þessu máli ef það hefði nú átt aðild að ríkisstj. hvort heldur það hefði verið vinstri stjórn eða nýsköpunarstjórn.

Mér finnst svo rétt að víkja að því, að þegar þessi drög lágu fyrir frá fyrrv. iðnrh. um samninga við Union Carbide, þá var viss geigur í mér við það mál, og satt best að segja var það hv. 5. þm. Vesturl. sem hafði skapað þennan geig, sem var í mér, eða átt mikinn þátt í hon­um. Við vorum saman í nokkra daga úti í New York haustið 1973. Hann var þar fulltrúi á þingi Sameinuðu þjóðanna, en ég var á hafréttarráðstefnunni, það var verið að setja hana þá. Ég fylgdist með því að hv. þm. leysti störf sín hjá Sameinuðu þjóðunum mjög samviskusamlega af hendi. En hann hafði þó nokkurt aukastarf með höndum sem hann notaði sína frítíma til að sinna, og það var að safna sem mestum upplýsingum um Union Carbide. Og ég minnist þess stundum frá nefndarfundunum, að þegar einhver gat laumað að honum upplýsingum um Union Carbide, sem ekki voru sem ákjósanlegastar fyrir fyrirtækið, þá gladdist hv. þm. mikið. Ég fékk þær upplýsingar þá um Union Carbide, að ég varð dálítið smeykur að semja við þetta fyrirtæki, þó að það kæmu aðrir fróðir menn um þessi mál á eftir og héldu því fram að fyrirtækið hefði mikið batnað á síðari árum og þess vegna mundi vera óhætt að semja við það.

Nú stendur þetta mál þannig að við erum orðnir lausir við Union Carbide, og ég hef álitið að það yrði a. m. k. til þess, að þessi hv. þm. breytti eitthvað afstöðu sinni til málsins, og það ekki síður þar sem hann er mjög fylgjandi Norðurlandasamvinnu, þá teldi hann vel farið að það skuli vera norrænt fyrirtæki sem þarna er komið í staðinn fyrir hinn ameríska auð­hring. Ég segi fyrir mitt leyti, að það er líka fyrir óbein áhrif frá þessum hv. þm., að ég er miklu ánægðari að samþykkja þetta mál síðan norska fyrirtækið kom inn í það heldur en meðan við áttum við Union Carbide. Ég tel að það hafi verið heppilegt að við skyldum losna frá samningum við það og þetta norska fyrir­tæki koma í staðinn, enda sýnist mér að sam­komulagið við norðmennina sé á ýmsan hátt hag­stæðara heldur en samkomulagið við Union Carbide. Ég hygg að það megi hins vegar segja bæði um hinn endanlega samning við Union Carbide og eins um samninginn við norska fyrirtækið, að þessir samningar séu mun hagstæðari en þau drög sem við vorum að fjalla um í marsmánuði og aprílmánuði 1974, en ég veit ekki betur en Alþb. hafi verið tilbúið að ganga til samninga við Union Carbide á þeim grund­velli. (JónasÁ: Þú veist það ekki.) Ætli hv. þm. viti ekki eitthvað um þetta líka?

Það hefur verið talsvert mikið rætt um arðsemisjónarmið í sambandi við verksmiðjuna á Grundartanga og gerðar ýmsar spár, sem geta bent til þess, að rekstur slíks fyrirtækis verði ekki sem hagkvæmastur á næstu árum. Ég verð að jata það, alveg eins og í sambandi við meng­unarmálin, að ég er enginn sérstakur fjármála spekingur og treysti mér þess vegna ekki til að dæma um þessar spar. En oft hef ég lesið spár, bæði í því enska blaði, sem vitnað er til, og í öðrum blöðum, um að hlutirnir muni þróast svona og svona, en hið gagnstæða hefur orðið niðurstaðan. Ég man t. d. eftir því að þegar við vorum að ræða hér um álsamninginn, þá voru það spádómar eiginlega allra hagfræðinga, sem um þau mál fjölluðu á þeim tíma, að rafmagns­verð mundi kannske haldast eins og það væri, en miklu frekar þó fara lækkandi vegna þess að kjarnorka væri alveg á næstu grösum. Þess vegna var okkur sagt að flýta okkur að semja áður en raforkuverðið felli enn þá meira. Og það voru ýmsir sem trúðu þessum orkuspám. Eftir stuttan tíma varð alveg gerbylting í þess­um málum, sem þarf ekki að rekja hér. Þannig er með fjöldamargar spar sem svokallaðir efnahagssérfræðingar útbúa, að þær reynast iðulega rangar. Ég er ekki að segja með þessu að þessar spár séu rangar. En ég held, að það séu til­tölulega fáar atvinnugreinar, sem menn geti ráðist í, að það sé alltaf 100% öruggt fyrir fram, að þær verði reknar með hagnaði. Það gildir um flestar atvinnugreinar svona upp og ofan, að stundum gengur vel og stundum illa, og ég veit t. d. að hv. 2. þm. Austurl. kann að segja þá sögu í sambandi við sjávarútveginn, að hann á sín erfiðu ár og líka sín góðu ár. Það gildir líka um iðnaðinn á hinum ýmsu sviðum, stáliðnað eins og annað. En ég hef ekki trú á því að þessi iðnaðargrein jafni sig ekki á löngum tíma og jafnvel miklu styttri tíma heldur en horfur eru á nú. Þess vegna er ekki neinn sérstakur uggur hjá mér í sambandi við þessi mál. Ég hef ekki heldur trú á því að frændur okkar norðmenn, þó að menn vilji kannske ekki treysta á þá sem eins mikla fjármálamenn og höfðingj­ana í Union Carbide, færu að leggja í þetta fyrirtæki ef þeir gerðu ráð fyrir því að það yrði mikið tapfyrirtæki. Ég held að ástæðan til þess, að þeir eru tilbúnir að leggja hér fram mikla fjármuni, sé sú, að þeir telji að a. m. k. þegar til lengdar lætur sé hér um arðvæna starfsemi að ræða.

Það er nú sagt hér að Union Carbide hafi hætt við þetta vegna þess að það hafi ekki talið gróðann líklegan til að verða nógu mikinn. Mér er nú sögð önnur ástæða sem því hafi valdið, að þeir hafi frekar viljað fara út í aðra starfsgrein heldur en þessa og það hafi verið mikil átök í félaginu um það, jafnvel eins konar stjórnarbylting sem reð því að þeir drógu sig hingað. Ég skal ekkert dæma um þetta. En síðan ég kynntist Union Carbide í gegnum hv. 5. þm.

Vesturl., þá trúi ég ekki á þetta fyrirtæki eins og það sé alviturt og að við eigum að láta stjórn­ast alveg af því sem það gerir. Ég held að það sé ekki góð kenning, og ég hygg að hv. þm. sé mér sammála um það.

Ég get nú farið að láta þessu máli mínu lokið. En ég vildi aðeins rifja upp að síðustu það sem kom hér fram hjá frsm. 2. minni hl., að sá samningur, sem hér lægi fyrir væri á flestan hátt líkur álsamningnum. Ég mótmæli því að svo sé. Þessi samningur byggist á þeirri megin­stefnu sem mótuð var af vinstri stjórninni og þáv. stjórnarflokkar voru sammála um. Hann mótast af þeirri stefnu, að íslendingar eigi að eiga sjálfir meiri hl. í fyrirtækinu, í staðinn fyrir að útlendingar eiga einir álbræðsluna. Hann mótast af því sjónarmiði, að þetta fyrirtæki eigi á allan hátt að vera undir íslenskum lögum og íslenskri lögsögu, í stað þess að albræðslan er að verulegu leyti undir erlendum gerðardómi. Það er samið um miklu hærra orkuverð í þess­um samningi heldur en í álsamningnum. Og það er síðast en ekki síst gengið frá miklu öflugri og fullkomnari mengunarvörnum í þessum samn­ingi eða í sambandi við þennan samning heldur en var gert í sambandi við álsamninginn, svo að hér er um tvennt ólíkt að ræða og ekki á neinn hátt hægt að líkja þessu saman.

Ég get sagt það sem mína skoðun, að ég tel ákaflega varhugaverða braut að leyfa erlendum fyrirtækjum atvinnurekstur hér á landi öðru­vísi en þeir séu undir þeim hömlum sem gert er ráð fyrir í þessum samningi. Og ég get lýst því sem minni skoðun, að ég teldi ákaflega óheppilegt ef albræðslunni væri leyfð meiri stækkun en hún hefur þegar leyfi fyrir. Ég er hræddur við það þegar eitt erlent fyrirtæki er orðið mjög stórt og umsvifamikið í landinu, eins og álbræðslan er þegar orðin og mundi verða enn meira ef hún yrði stækkuð um þriðjung, eins og talað er um. Ég óttast að þegar svo sé komið sé þetta fyrirtæki orðið svo sterkt að því muni verða fært að færa sig alltaf meira og meira áfram, ef það fengi þennan þriðjung sem það kannske biður um núna, þá kæmi súrál á eftir, virkjun á Austurlandi þar á eftir o. s. frv., og þess vegna sé kominn tími til að stöðva þessa þróun nú og eigi að gera það strax. Ég held líka að með þeirri starfsaðferð, sem hér er við­höfð, verði gengið mjög takmarkað til sam­starfs við útlendinga um þessi mál. Þegar þannig er frá þessu gengið, að meiri hl. á að vera í eign okkar íslendinga sjálfra, þá verður aldrei hægt vegna okkar eigin getuleysis, ef svo mætti segja, að ráðast í mörg slík fyrirtæki, og ég held að þetta sé mjög góð hamla á það að ekki verði haldið áfram langt á þessari braut.

Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Vesturl., að við eigum að fara af mikilli gætni í sambandi við samskipti okkar við útlendinga í þessum efnum og ef við gerum það ekki, þá séum við búnir að leiða yfir okkur svipaða hættu og veiðar útlendinga voru áður fyrr í fiskveiðilögsögunni. Þess vegna eigum við að fara mjög varlega. Ég tel hins vegar að með þessum samn­ingi sé ekki gert neitt það sem sé varhugavert í þessum efnum. Ég tel jafnframt að með því að gera þennan samning sé útilokað að við förum að semja við erlent fyrirtæki í sambandi við virkjun Hrauneyjafoss. Það væri miklu frekar hægt að fá rök fyrir því að það væri nauðsynlegt, eins og Magnús Kjartansson gerði í sambandi við Sigölduvirkjun á sínum tíma, að hér þyrfti að koma einhver meiri háttar orkufrekur iðn­aður sem útlendingar ættu að einhverju leyti þátt í, að ef ekki yrði neitt úr þessu fyrirtæki, Hrauneyjafoss yrði virkjaður og sú orka kæmi til viðbótar, sem þar verður að fa, innan lítils tíma. Með því að semja við þetta fyrirtæki nú álít ég að þeirri hættu sé afstýrt að við þurfum að semja við eitthvert erlent fyrirtæki um orku­frekan iðnað í sambandi við Hrauneyjafoss­virkjun, enda skilst mér að það liggi fyrir upp­lýsingar um það, að á tiltölulega stuttum tíma, ef úr þessu fyrirtæki verður, munum við sjálfir geta hagnýtt til fulls þá orku sem kemur frá Hrauneyjafossvirkjun.

Ég vil svo ekki hafa fleiri orð um þessi mál að sinni. Ég vil aðeins endurtaka það, af því að mér er alltaf heldur hlýtt til Alþb. og stund­um talinn vera kommúnisti, eins og þeir sem þar eru, þá finnst mér leiðinlegt að við skyldum ekki geta veriði samferða í þessu máli eins og við vorum upphaflega. En ég skil vel hvaða ástæður liggja til þess. Það er vegna þess að þeir lentu í stjórnarandstöðu. Þess vegna var skipt um skoðun. Ég er hins vegar ekki að óska eftir því, að þó að þeir komi í stjórn verði þeir miklu opnari fyrir þátttöku útlendinga í stórfyrir­tækjum hér á landi heldur en nú er. Ég gæti þess vegna vel hugsað mér að hafa samvinnu við þá um þessi efni, og ég treysti því líka, að það geti orðið almennt samkomulag milli allra flokka í landinu — og ég held að það sé að verða það — að fara eigi mjög gætilega í þess­um efnum. Hitt er svo það sem mér finnst kannske rétt að segja og kom fram þegar rætt var um álsamninginn hér á sínum tíma, að ef til þess kæmi að ráðist væri í einhver slík fyrirtæki hér, þá er ég sama sinnis og ég var þá, að þau eiga ekki að vera hér á Suðvesturlandi, ekki á Reykjanesskaganum. Við eru búin að fá alveg nóg á Reykjanesskagann. Þess vegna er ég fyrir mitt leyti sammála þeirri till. sem þeir fluttu, hv. 4. þm. Norðurl. v. og 3. þm. Austurl., að ef við eigum í framtíðinni einhvern tíma að ráðast í slík fyrirtæki, þá eigi þau að vera staðsett helst á Norðurlandi eða Austurlandi, en alls ekki Reykjanesskaga. Við erum búin að fá alveg nóg af þessu.