19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3314 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

205. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þetta mál um nýjan rafstreng til Vestmannaeyja frá fastalandinu er búið að vera í athugun heima í héraði um nokkurn tíma. Rafveitustjórinn þar hefur haft með höndum undirbúning þessa máls, því að vitað var að ekki mundi líða mjög langur tími þar til strengurinn mundi ekki fullnægja flutningsþörf á því rafmagni sem nauðsynlegt er að fá út til Eyja frá fastalandinu. Ég hygg að það hafi verið að því stefnt heima í héraði að undir­búa málið með nægjanlegum upplýsingum, þann­ig að viðkomandi stjórnvöld gætu gert sér fulla grein fyrir kostnaði við þetta mannvirki og að það hefði átt að koma hingað inn á Alþ. í haust.

Nú hefur það gerst, eins og kunnugt er, að alveg liggur ljóst fyrir að þessum framkvæmdum þarf að flýta meira en gert var ráð fyrir vegna þeirra bilana sem fram hafa komið nú á þessu ári.

Vestmanneyingar voru allt fram undir árið 1973 mjög vel settir í þessu sambandi. Engin bilun hafði fram að þeim tíma komið fram á strengnum og þá var nægjanlegt varaafl heima í Rafveitu Vestmannaeyja. Þar voru vélar með að samanlögðum hestaflafjölda rúmlega 5 þús. hestöfl, þannig að þó einhver bilun yrði uppi á fastalandinu, eins og nokkrum sinnum kom fyrir, þá urðu vestmanneyingar aldrei neitt við það varir vegna þess að það var skipt yfir samtímis má segja og gerðist næstum sjálfkrafa að skipt var yfir á vélaafl Rafveitunnar. En eins og kunnugt er, þá fór Rafveitan forgörðum með ölum búnaði í náttúruhamförum sem þar urðu 1973, og var þá þegar hafist handa um að fá varavélar til Eyja, en hvorki tími né aðstæður til þess að byggja Rafveituna upp í því formi sem áður var og nauðsynlegt er. Það var þá safnað saman smærri vélum, samtals milli 3000 og 4000 hestöfl. Ef ég man rétt, þá eru þessar vélar á fimm stöðum í bænum og er rekstur þeirra þar af leiðandi mjög erfiður fyrir starfsmenn Raf­veitunnar. En meðan strengurinn var heill og menn töldu að nokkuð væri óhætt að treysta á getu hans hefur þetta ekki mjög mikið komið að sök. Bilanir hafa ekki orðið miklar og varaafl fyrir hendi til þess að komist yrði hjá verulegri skömmtun á rafmagni eða að rafmagnsleysi ylli tjóni hjá hinum stærstu notendum, sem eru fiskvinnslustöðvarnar. En því miður virðist svo að strengurinn hafi eitthvað gefið sig 1973, og þarf engan að undra það, því að ég held að nokkur hluti hans hafi hreinlega þá farið undir hraun. Jarðfræðingar, sem starfandi voru úti í Eyjum meðan náttúruhamfarirnar gengu þar yfir, töldu að sennilega hefðu orðið eldsumbrot á hafsbotn­inum nálægt því þar sem strengurinn liggur, svo að engan þarf að undra þó að bilanir komi fram nú.

Það er því eðlilegt að þessu máli sé hreyft hér þó að það hefði verið mjög æskilegt að það hefði verið betur undirbúið af aðilum heima í héraði, með meiri upplýsingum. En nú er verið að vinna að slíkri gagnasöfnun, eins og kom fram hjá frsm., og verður vonandi innan mjög skamms tíma hægt að gera stjórnvöldum full­nægjandi grein fyrir því mannvirki sem hér um ræðir. En ég tek mjög undir það, að það er aðeins stuttur tími til stefnu. Þó að strengur­inn gæti enst okkur í 2–3 ár, þá tel ég það stuttan tíma til undirbúnings, en innan þess tíma liggur nokkurn veginn alveg ljóst fyrir að nýr strengur verður að vera lagður út til Eyja. Það er þegar nokkur hluti bæjarins kominn inn á rafveitukerfið með kyndingu húsa og hefur farið vaxandi á undanfornum árum, þannig að einnig það kallar á aukna raforku umfram það sem kannske upphaflega var reiknað með og aðilar heima í héraði höfðu kannske gert sér grein fyrir fyrir nokkrum árum, þegar fyrst var farið að tala um nýjan rafstreng til Vestmannaeyja.

Ég gat þess áðan, að við höfum verið mjög vel settir fram að 1973 með rafmagn, þar sem við höfum strenginn, sem þá var talinn mjög örugg­ur og traustur, og nægilegt vélafl. Og ég vil geta þess, að það kom fyrir — ég vil ekki segja iðu­lega, en nokkuð oft, þegar bilanir urðu á línunum uppi á landi, að rafveitan í Vestmannaeyjum var notuð til þess að keyra inn á Suðurlandssvæðið og bjargaði þá oft meðan viðgerðir fóru fram á línunum ef bilun varð vestan Hvolsvallar, þann­ig að þeir sem tengdir voru við Sogsvirkjunina fengu þá um misjafnlega langan tíma rafmagn frá varaaflsstöðinni í Vestmannaeyjum.

En eins og réttilega kom fram hjá frsm., þá hafa þeir atburðir gerst nú á þessu ári, að það liggur alveg ljóst fyrir að málinu verður að flýta mun meira en áður hafa verið gerðar áætlanir um, bæði vegna aldurs strengsins, hann er orðinn nokkuð gamall, þó hygg ég að með eðlilegum hætti hefði hann átt að geta enst nokkurn tíma enn þá, og einnig og alveg afgerandi liggur orðið ljóst fyrir að hann flytur ekki, þó hann væri í fullkomnu lagi, þá flytur hann ekki eftir örfá ár það rafmagn sem vestmanneyingar þurfa á að halda frá fastalandinu. Jafnvel þó að raf­veitan heima verði byggð upp á einum og sama stað og með nægjanlegu varaafli fyrir byggðar­lagið, þá er ekkert um það að ræða að nýr strengur verður að koma til viðbótar frá fastalandinu og á það verður að leggja áherslu að hann komi fyrr en menn heima í héraði og reyndar Rafmagnsveitur ríkisins hafa áður gert ráð fyrir.

Ég vil því mjög eindregið mæla með þeirri till. sem hér er til umr. og vil leggja áherslu á, af þeim ástæðum sem hér hefur verið gerð grein fyrir bæði af frsm. og mér, að málinu verði hraðað eins og frekast er kostur og að nýr strengur komi fyrr en kannske aðilar heima í héraði hafa áður talið að nauðsynlegt væri. Við­horfið hefur breyst við það sem gerst hefur á þessu ári og er alveg sjáanlegt að hjá því verður ekki komist, að nýr strengur verður að vera lagður eins fljótt út til Eyja og frekast er kostur á.