19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3369 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

183. mál, þjónustustarfsemi í Vestur-Húnavatnssýslu

Pálmi Jónason:

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um þá till. sem hér liggur fyrir, miðað við það fámenni sem er í þingsalnum. Ég vil þó segja það, að ég vil taka undir með flm. það sem hann sagði um það, að nauðsynlegt væri að huga að uppbyggingu þéttbýlisstaða um landið sem víðast, ekki einvörðungu hinna stærstu, heldur einnig hinna smærri til þess að þeir dragist ekki aftur úr og visni, eins og flm. orðaði það. Ég held einnig að það þorp, sem hér er um að ræða, Hvamms­tangi, sé í góðum vexti. Þar er atvinnulíf í upp­gangi og þar var fjölgun íbúa á síðasta ári meiri en í nokkru sveitarfélagi öðru í Norðurlands­kjördæmi vestra. Þar eru einnig verulegar framkvæmdir sveitarfélagsins og um sæmilegan efna­hag að ræða, að ég hygg, bæði hjá fólkinu sjálfu og eins hjá sveitarfélaginu. Um þetta er allt gott að segja, og er vonandi að svo gangi áfram.

Í sambandi við þá till., sem hér er um að ræða, þá tel ég að opinbera þjónustu þurfi að efla á Hvammstanga, og það hefur verið gert á undanförnum árum þó að árangur hafi ekki verið jafnmikill og tilraunir hafa staðið til.

Hv. flm. gat þess, að ráðinn hefði verið viðgerðarmaður frá Rafmagnsveitum ríkisins. Þetta var gert nú í vetur eftir að Rafmagnsveitur ríkisins höfðu haft það mál til athugunar og úrlausnar í langan tíma, því að óskir hafa staðið um það efni miklu lengur en frá þeim tíma sem þessi þáltill. var fyrst flutt.

Enn fremur vil ég upplýsa hv. flm. till. um það, að lögreglumaður hefur verið fastráðinn á Hvammstanga, þar sem hann lét þess getið í sinni ræðu að óskum um þetta efni hefði ekki verið sinnt.

Þannig hefur nokkuð þokast í þá átt að sinna óskum Hvammstangabúa og vestur-húnvetninga um þetta efni, og ég tel að þannig þurfi að halda á málum áfram.

Enn vil ég geta þess, að fyrir tveim árum var kostur á að fá símvirkja til starfa á Hvamms­tanga, en þá fékkst ekki húsnæði, sem varð til þess að þessi maður hvarf ekki að því ráði að setjast þar að. Því miður er þetta ekki eina dæmi þess í þorpum úti á landsbyggðinni, að húsnæðisskortur verður til þess að þangað fást ekki þeir starfskraftar sem nauðsynlegir eru til þess að sinna þjónustu af því tagi sem hér er um að ræða. Hefur ekki enn tekist að bæta úr á þeim vettvangi, en væntanlega tekst það áður en langt um líður eða er a. m. k. vonandi.

Ég tel einnig að sú þjónusta, sem veitt er frá sýsluskrifstofunni á Blönduósi, þurfi að vera með þeim hætti að komist verði hjá verulegri óánægju hvað það snertir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi láta þetta koma hér fram, ekki síst vegna þess að hv. flm. hefur ekki vitað um þær breytingar sem orðið hafa í sam­bandi við lögreglumann, sem var sjálfsagt að koma hér á framfæri.