20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hóf ræðu sína á því að finna að því, að ég skyldi ekki hafa flutt rökstuðning fyrir stuðningi Alþfl. við það frv. sem hér er um að ræða. Sú einfalda ástæða liggur til þess að ég gerði þetta ekki, að fulltrtúi Alþfl. í hv. iðnn. þessarar d., Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., hafði haldið ítarlegar ræður um málið almennt bæði við 1. og 2. umr. málsins og gert þar efnis­lega grein fyrir afstöðu Aþfl. til málsins í mjög ítarlegu og vel rökstuddu máli. Ég tel mig engu orði hafa við það að bæta sem Benedikt Gröndal sagði í þessum ræðum sínum við 1. og 2. umr. málsins. Það var ekki erindi mitt hér við 3. umr. seint síðdegis að halda áfram almennum umr. um málið. Hitt teldi ég nauðsynlegt, að upplýsa þing og þjóð um forsögu málsins, um upphaf málsins, sem hafði verið vanrækt að ræða um við 1. og 2. umr.

Hv. þm. sagði margoft í ræðu sinni, að ég vilji hafa það sem ég viti að sé ósatt, ég hafi verið að túlka bréfin, sem ég las, og snúa út úr þeim. Þetta er alger misskilningur. Það, sem ég gerði, var að lesa bréfin orðrétt. Það stendur í því bréfi, sem Magnús Kjartansson endanlega sendi, eins og ég las áðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrst af öllu get ég staðfest, að ríkisstj. og ég sjálfur erum þeirrar skoðunar að skilmálar og skilyrði, sem um var samið við yður, voru viðunandi í öllum meginþáttum og við höfðum og höfum enn mikinn og áframhaldandi áhuga á framkvæmd verksins í náinni framtíð.“

Þetta voru ekki mín orð. Þetta eru orð Magnúsar Kjartanssonar sjálfs. Hann gerir eng­an fyrirvara um að það sé ágreiningur í ríkisstj., og er það þá óheiðarlegt af mér að lesa hans eigin orð? Sé það óheiðarlegt að nota orðið ríkis­stj. í sambandi við þessa afstöðu, lýsingu á þessari afstöðu, þá er óheiðarleikinn Magnúsar Kjartanssonar, en ekki minn. (LJós: Má ég benda þm. á, að áðan talaði hann um „eindregin“ og „öll ríkisstj.“, margendurtók það.) Já, já, ég hef hér textann nákvæmlega eins og ég las hann. (Gripið fram í.) Það má gá að því á spólunni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég hef lesið þessi bréf rétt. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gera svo vel að hafa ekki samtal, þeir geta feng­ið orðið á eftir, þeir sem nú sitja í sætum sín­um.) Ég vek athygli á því aftur, að ég gerði það eitt að lesa orðrétt það bréf sem Magnús Kjartansson þáv. iðnrh. sendi Union Carbide, og þar er talað um afstöðu ríkisstj. Ég gerði enga til­raun til þess að túlka það. Ég nefndi ekki hv. þm. Lúðvík Jósepsson í þessu sambandi. (Gripið fram í.) „Fyrst af öllu get ég staðfest að ríkis­stj. og ég sjálfur“ — ætli þm. rugli ekki þessu saman? (LJós: Nei, nei, nei.) Við skulum bara skoða spóluna á eftir, ég hef örugglega lesið rétt.

Varðandi hitt atriðið sem hann sagði mig hafa reynt að gera tortryggilegt, stendur orðrétt í bréfinu, með leyfi forseta:

„Flokkur minn hafði hins vegar ekki enn tekið afstöðu um till., og þótt Sjálfstfl. hafi látið í ljós vilja til þess að greiða fyrir samþykkt frv. ef það yrði lagt fram fyrir þinglok, gerði hann vissa fyrirvara um afstöðu sína til ýmissa efnis­atriða.“

Þetta er orðrétt úr bréfinu. Ég gerði enga til­raun til þess að túlka þetta. Það eina, sem ég sagði, var að mér þætti ósennilegt að Magnús Kjartansson hefði sent það bréf, sem hann raun­verulega sendi, ef hann hefði ekki haft meiri hl. þingflokks Alþb. að baki sér. En ég fullyrti það ekki, því að ég veit það ekki. Hann gaf í skyn að hér kynni að vera um ranga þýðingu að ræða. Til að taka af öll tvímæli um þetta ætla ég líka að lesa enska textann, þannig að hann sé líka til á spólu og í þskj., þannig að það komi í ljós að þetta er nákvæm og rétt þýðing, enda gerð af trúverðugum aðila. En enski textinn er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„First of all I can confirm to you, that the Government and myself are of the opinion that the terms and conditions negotiated with you were accepatable in all principal aspects and we had and still have a strong and continued interest in the implementation of the project at an early date. This opinion has been subscribed too by the Parliamentary groops of the Progress­ive Party and the Social Democratic Party. My own party had, however, not yet taken a position on the proposals in principal, and the Indepedence Party, while expressing its willingness to facilitate the passage of the bill if presented before the end of the parliamentary recession, had certain reservations regarding its position on various points of substance.“

Hér lýkur þessum kafla úr bréfinu, sem raunverulega var sent, á ensku. Þýðingin er því alveg auðsjáanlega rétt.

Lúðvík Jósepsson, hv. þm., gerir mikið úr því að hann hafi gert skriflegan fyrirvara á ríkisstjórnarfundi um afstöðu sína til þessa máls. Ég dreg auðvitað ekki í efa ummæli hans um þetta efni. En ég held að það væri gagnlegt fyrir þm. og sögu alls málsins að hann birti þennan fyrirvara, þannig að við sjáum hvernig hann er orðaður og hvenær hann var gerður. Ég vil mælast til þess við hv. þm. Lúðvík Jóseps­son, að hann skýri frá því, að hann birti þennan fyrirvara sinn, hann hlýtur að vera til í fundargerðum ríkisstjórnarfunda, þannig að menn sjái hvað Lúðvík Jósepsson hefur raunverulega sagt í ríkisstjórninni. Óneitanlega er það undarlegt, að Magnús Kjartansson skuli í öllum uppköstun­um tala um ríkisstj. og sig: „The Government and myself are of the opinion“ o. s. frv. í öllu falli það er undarlegt að hann skuli taka þannig til orða, hafi Lúðvík Jósepsson, áður en hann skrifaði bréfið, bókað mótmæli. Það skiptir engu máli hvað Lúðvík Jósepsson gerir eftir að bréfið er sent. Menn veita þessu væntanlega athygli. Hafi viðskrh., flokksbróðir Magnúsar Kjartanssonar, áður en bréfin voru send, þ. e. a. s. fyrir 21. maí, gert skriflegan fyrirvara um and­stöðu sína við málið, þá er undarlegt að maður eins og Magnús Kjartansson, sem ég ber fyllstu virðingu fyrir, þó að okkur greini á um marga hluti og hafi alltaf gert, — þá er undarlegt að hann skuli taka þannig til orða í mikilvægu bréfi til erlends stórfyrirtækis sem hann hefur staðið í samningum við upp á milljarða kr.

Ég ítreka þá áskorun mína til hv. þm., að hann birti þennan fyrirvara sinn, hvernig hann hljóð­ar og hvenær, hvaða dag, hann er gerður. Það skiptir meginmáli, hvort það er gert fyrir 21. maí eða hvort það kann að vera gert eftir 21. maí. Það skyldi nú ekki vera, að hann hefði verið gerður eftir 21. maí? Ég varpa þeirri spurningu fram. Það gæti þá verið eitthvað líkt því sem hann vitnaði til áðan, að Magnús Kjartansson hefði greitt atkvæði á móti þessu frv. þegar það kom fyrir hér fyrst. Það er rétt. En þá var Magnús Kjartansson kominn í stjórnarandstöðu, og það er einmitt mergurinn málsins. Hann hafði eina skoðun sem ráðh. í ríkisstj. og skipti um skoðun eftir að hann hætti að vera ráðh. og var kominn í stjórnarandstöðu. Það er mergur­inn málsins, og það hið ógeðfellda í sögu þessa máls.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. á þessum tíma þessa dags. Það er komið fram, sem ég vildi láta koma fram um málið, þ. e. a. s. hvert upphaf þess er. Það þýðir ekki fyrir þá, sem eru upphafsmenn málsins, að þræta fyrir það nú á þessari stundu.