22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3492 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

165. mál, póst- og símamál

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þm. stuðning við brtt. mína. Mér þykir mjög vænt um þann stuðning sem hefur komið frá þeim, og ég hef styrkst í því áliti mínu í þessum umr. að þetta sé till. sem þarf að samþykkja á Alþ. Mér þykir mjög leitt að hæstv. samgrh. skuli ekki treysta sér til að ljá þessu máli lið, einkum eftir að hann sagði okkur frá því að innst inni er hann að sjálfsögðu mjög fylgjandi því að hans gamla till. sé samþykkt. Það kom sem sé í ljós að hann hefur flutt till. svipaðs efnis og enn fremur hv. 2. þm. Vestf. Þetta sýnir að það er þörf á því að samþykkja þessa till., og ég held að það megi fullyrða, að þau svör, sem þm. hafa fengið, hæstv. núv. samgrh. og hv. 2. Vestf., þau svör sem þeir hafa fengið frá póst- og símamálastjórn munu hafa verið nákvæmlega eins fyrir 4 eða 6 árum eins og fást frá þessum aðilum í dag. (Landbrh.: Það er búið að laga þetta síðan.) Grundvallaratriðið er þetta, að það fast þessi sömu svör, því miður: Þetta er ágætismál, en það er ekki hægt að framkvæma það.

Ég held, að þetta geti ekki verið eins mikið mál og ráðh. vill vera láta. Hugsið ykkur það, ef þetta er virkilega svo að Póstur og sími riði til falls ef nokkur þúsund manns úti á landi fá að njóta Reykjavíkurtaxtans innbyrðis þegar þeir tala við nágranna sína. Það er allt og sumt sem farið er fram á. Ég held að þetta hljóti að vera á misskilningi byggt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að símtöl frá Kefla­vík til Reykjavíkur, frá Reykjavík til Akureyrar, frá Reykjavík til Ísafjarðar og frá Ísafirði til Akureyrar o. s. frv. haldast óbreytt, þar eru skrefagjöldin áfram. Það er aðeins ef nágrannar þéttbýliskjarnans á svæðinu tala innbyrðis sam­an sem ætlunin að þeir geti notið sama taxta og þéttbýli gerir nú, þ. e. a. s. Reykjavík, Akureyri og ótalmargir aðrir staðir sem njóta þessa O-taxta, þ. e. a. s. það er sama hve lengi þeir tala, þeir greiða eitt skref. Ég held að þetta eigi heima í lögum, en ekki í reglugerð, því að hér er ekki verið að ákveða neina upphæð gjalds, heldur fyrirkomulag á greiðslum, og þetta er svo mikið mál að mér finnst það vera hreint og beint augljós nauðsyn að það sé í lögum. Það er algerlega óþolandi misrétti sem fram fer núna. Það er ómögulegt að sætta sig við það áratugum saman, að ef ég tala við skulum segja 12 km í suðvesturátt frá Reykjavík, þá borga ég 8.70 kr. fyrir það, þótt ég tali í klukkutíma, ef ég tala upp í Mosfellssveit 12 km í norðaustur, þá borga ég kannske fyrir það 100–200 kr. Það er náttúrlega ekki nokkur heil brú í þessu og verður að breytast.

Hv. 12. þm. Reykv. er hræddur við að hér sé verið að ganga á þéttbýlið. Þetta er alger misskilningur, Albert Guðmundsson, hv. þm.

Eins og ég segi, það er oft hringt til okkar hér í þinghúsið, vafalaust af kjósendum okkar oft, og er ósköp ömurlegt að vita til þess, að ef hringt er í okkur héðan úr Reykjavík, hvað lengi sem talað er, þá kostar eitt skref 8.70 kr., aftur á móti getur þetta farið í mörg hundruð kr. ef kjósendur utan af landi tala við sína þm. Þetta er ekki heilbrigt, ekki á nokkurn hátt.

Varðandi kostnaðarhlið þessara breytinga held ég að hér sé hlutum ruglað saman. Langsamlega flestir landsbúar búa við þetta núllgjald ef þeir tala innbyrðis innan síns þéttbýliskjarna, og gjaldið verður óbreytt ef talað er á milli svæða, þ. e. a. s. símtöl frá Akureyri til Reykjavíkur kosta jafnmikið hvað sem þessari till. líður. Ég hefði haldið að O-gjaldið mundi hækka kannske um ca. 30%, verða 11.60 kr., en ekki 8.70. Þetta er svo lítið að jafnvel þótt það hækki um margar prósentur, þá verður gjaldið ákaflega óverulegt fyrir því.

Mér finnst mjög erfitt að draga þessa till. til baka, en ég mun nú fallast á fyrir beiðni ráðh. við finnum ekki einhverja leið til þess að bæta úr þessum málum.