27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Tveir síðustu ræðumenn hafa að vísu að verulegu leyti tekið af mér ómakið, m. a. við að þakka hæstv. ráðh. fyrir að leggja þetta frv. fram.

Nú er það svo, að ég greip fram í fyrir hv. þm. Jóni G. Sólnes í ræðu hans áðan, einungis til þess að þakka honum fyrir stutta athuga­semd sem hann kom þar fram með um baráttu­tækni í viðureigninni við reykingarnar. Ég er honum alveg sammála um þetta atriði, að það að reykja eða að hætta að reykja er mikið einkamál, ofneysla tóbaks á að vera einkalöstur og það á að vera algjört einkaframtak að leggja niður þann óvana að reykja. Ég hef af langri lífsreynslu komist að þeirri niðurstöðu, að það sé við hæfi að menn þreyti þá glímu, sem lýtur að ofneyslu hvort heldur áfengis eða tóbaks, einir sér, svo lengi sem það er fært. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það sé heppilegt að bera þá baráttu á torg. En eins og hv. þm. Oddur Ólafsson kom inn á í sinni ræðu, þá er því þannig varið, að mönnum er það ekki í sjálfs­vald sett og þá síst af öllu unglingunum, hvort þeir byrja að reykja eða ekki. Þeim er það ekki í sjálfsvald sett. Það eru lagðir geysilegir fjár­munir í það að fá unglingana til að reykja ­— geysilegt fjármagn og mikið hyggjuvit — vegna þess að á bak við tóbaksauglýsingarnar liggur háþróuð sölutækni sem er orðin grein í sálar­fræðinni. Og sölumennskan er skipulögð langt út fyrir hinar eiginlegu auglýsingar sem bornar eru fram sem auglýsingar, hún er einnig komin inn í kvikmyndir, sem eru til sölu og til sýnis í öðrum tilgangi heldur en þeim, og inn í sjón­varpsefni.

Unglingarnir okkar fá sem sagt ekki að ráða þessu sjálfir. Það er lagt geysilegt fé í að fá þá til þess að byrja að reykja. Nú ætti ég að vísu að stilla mig um það, eftir að vera búinn að flytja yfirlýsingu um hversu mikið einkamál það er hvort menn reykja eða hætta að reykja, — ­stilla mig um að segja frá smátilraun sem ég hef verið að gera sjálfur nú síðustu 10 dag­ana. Ég hef verið að gera tilraun með það, hvern­ig er að hætta að reykja eftir að hafa reykt í 36 ár og það allmikið. Sú tilraun stendur enn. Ég veit að ég þarf ekkert að lýsa því fyrir hv. þm. Jóni G. Sólnes, að þetta er allerfitt í raun og veru. Hér er svo sannarlega um ávanalyf að ræða. Og ég hef ekki staðið um ævina í öllu strang­ara en þessa 10 daga eða svo að stilla mig um að reykja. Nú er ég alveg ugglaus um að þetta muni takast, að þetta sé fær leið. Og ég geri ráð fyrir að ég láti það bíða að reykja þangað til ég hef a. m. k. sannað það fyrir sjálfum mér að ég geti hætt því.

En samtímis því sem við leyfum okkur hér í þingsölunum öðru hverju að tala um ávana- og fíknilyf í breiðri merkingu og hneykslunar­tóni, þá held ég að við verðum að minnast þess, að þar á meðal eru tvö ávana- og fíknilyf sem íslenska ríkið selur, þar sem er tóbak og áfengi. Ég er enn hv. þm. Jóni G. Sólnes sammála um það, — það geta verið þung orð og verið býsna þungbært að játa það, hvað oft maður getur verið þessum ágæta þm. sammála um ýmislegt sem hann segir, — ég er honum sammála um það, að við getum ekki sniðið í öllu okkar bar­áttutækni í viðureigninni við tóbaks- og brenni­vínsfýsn eftir erlendum fyrirmyndum. Sitt á við í landi hverju að þessu leyti. En gjarnan vildi ég sjá frv. þetta samþ. hið fyrsta á þinginu hérna og væri vel til með að stuðla að því, að því yrði hætt við að fenginni skammri reynslu af framkvæmd þessara laga, að bannað yrði að sýna í kvikmyndahúsum á Íslandi og í sjón­varpi kvikmyndir sem til þess eru fallnar að hvetja fólk til reykinga.